• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Aug

Tryggja verður kjör í stóriðjum

GrundartangasvæðiðGrundartangasvæðiðEins og fram hefur komið í fréttum hafa stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Alcan í Straumsvík átt í harðvítugri kjaradeilu við eigendur fyrirtækisins en ein af kröfum eigenda fyrirtækisins er að fá að stórauka verktakavæðingu inni á svæðinu sem nemur allt að 100 störfum. Rétt er að geta þess að VLFA á ekki aðild að þessum kjarasamningi en fá stéttarfélög á Íslandi hafa fleiri félagsmenn sem starfa í stóriðjum heldur en Verkalýðsfélag Akraness. Á þeirri forsendu fylgist félagið grannt með því sem gerist í Straumsvík en það liggur fyrir að forsvarsmenn Alcan vilja auka verktöku inni á svæðinu með það að markmiði að ná niður rekstrarkostnaði með því að láta verktakana taka laun eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Eins og allir vita þá eru kjör og réttindi í stóriðjum umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Sem betur fer hefur Verkalýðsfélag Akraness ekki þurft að hafa áhyggjur af þessu því í fyrsta lagi er ekki mikið um að verktakar sinni daglegum störfum í stóriðjunum á Grundartanga og í öðru lagi að í þeim tilfellum sem verktakar sinna daglegum störfum þá hefur VLFA gengið frá því að laun og réttindi séu þau sömu og kveðið er á um í stóriðjusamningunum. Nægir að nefna í þessu samhengi að VLFA gerði fyrir nokkrum mánuðum síðan kjarasamning við verktakafyrirtækið Snók þar sem öll laun og kjör kjarasamnings Elkem gilda fyrir starfsmenn Snóks. Þetta gerir það að verkum að VLFA gerir engar athugasemdir þegar Snókur sækir um verkefni inni á Grundartangasvæðinu vegna þeirrar staðreyndar að starfsmenn njóta sömu kjara og gilda inni á stóriðjusvæðinu.

Þetta er grundvallaratriðið þegar talað er um að auka verktakavæðingu. Það er að starfsmenn verktakafyrirtækisins njóti þeirra kjara og réttinda sem gilda í stóriðjunum en ekki kjara sem gilda á hinum almenna vinnumarkaði því í sumum tilfellum eru himinn og haf á milli launa og annarra réttinda. Félagið hefur átt í góðu samstarfi við verktakafyrirtækið Snók og sem dæmi þá eru grunnlaun þeirra sem hafa starfað hvað lengst hjá fyrirtækinu komin yfir 300.000 kr. á mánuði sem eru nákvæmlega sömu grunnlaun og hjá framleiðslumönnum Elkem Ísland.

Á þeirri forsendu þurfa stéttarfélögin að standa fast í lappirnar og tryggja að eigendum Alcan takist ekki að mylja undan þeim ávinningi sem náðst hefur í gerð stóriðjusamninga með því að verktakavæða fjölda starfa og krefjast þess að kjör á hinum almenna vinnumarkaði gildi þar. Það er allavega hægt að láta aukningu á verktakavæðingu átölulausa ef tryggt er að öll réttindi sem gilda í kjarasamningum stóriðjufyrirtækja haldi sér. Um það snýst þessi hagsmunabarátta og því verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum að kjör í stóriðjum verði ekki skert.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image