• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Oct

Gríðarlegur kostnaður vegna internetnotkunar sjómanna

Að undanförnu og á liðnum misserum hafa þónokkuð margir skipverjar sem eru á ífisks- eða frystitogurum og tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness haft samband við félagið og óskað eftir að kannað verði ítarlega hví í ósköpunum kostnaður vegna internetnotkunar um borð í skipunum er jafnmikill og raun ber vitni. Það er alþekkt að skipverji sé að greiða á mánuði yfir 10.-20.000 kr. þó vissulega séu dæmi um lægri upphæðir. Á ársgrundvelli eru því margir skipverjar að greiða yfir 100.000 kr. fyrir internetnotkun um borð í þessum skipum og hefur félagið því verið að leita eftir upplýsingum um í hverju þessi mikli kostnaður er fólginn.

Félagið sendi erindi til HB Granda sem er nú með málið til skoðunar hjá sér en væntanlega er fyrirtækið að kaupa þessa þjónustu af Radíómiðlun. Samkvæmt upplýsingum félagsins þá á þessi mikli kostnaður að vera vegna kaupa á þjónustu um gervihnött sem öll samskipti fara í gegnum. Heildarkostnaður á frystitogara fyrir internetnotkun virðist vera á bilinu 300-350 þúsund á mánuði eða sem samsvarar yfir 4 milljónum á ársgrundvelli. Á ísfiskstogurunum er þessi upphæð eitthvað lægri en skipverjarnir á þessum skipum greiða í kringum 70% af þessum kostnaði.

Það hlýtur að vera hægt að láta kanna ítarlega í hverju þessi mikli kostnaður er fólginn og jafnvel að kanna hvort hægt sé að láta bjóða þessa þjónustu út til að lækka kostnaðinn. Internettenging um borð í þessum skipum er mjög mikilvæg skipverjum til að vera tengdir við umheiminn ef þannig má að orði komast og var mikið framfaraskref þegar þetta varð að veruleika á sínum tíma. En það þýðir ekki að sjómenn séu tilbúnir að borga hvað sem er fyrir þessa þjónustu og því þarf að leita allra leiða til að sjá hvað veldur þessum mikla kostnaði og hvort hægt sé að ná honum niður án þess að skerða þjónustu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image