• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Oct

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings við Akraneskaupstað

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni vísaði Verkalýðsfélag Akraness kjaradeilu félagsins vegna samnings við Akraneskaupstað til ríkissáttasemjara fyrir skemmstu. Ríkissáttasemjari boðaði til fundar sem haldinn var í morgun og var farið yfir þá stöðu sem upp er komin en það er ljóst að lítið sem ekkert hefur þokast þrátt fyrir að kjarasamningur við sveitarfélögin hafi runnið út 1. maí síðastliðinn.

Formaður VLFA greindi frá því að félagsmenn sem taka laun eftir kjarasamningi við sveitarfélögin séu orðnir langþreyttir á hversu langan tíma tekur að ganga frá kjarasamningi. Á fundinum í morgun var hinsvegar gengið frá samkomulagi um að ef að samningurinn klárast í þessum mánuði muni hann gilda frá 1. maí. Af þessari ástæðu var ákveðið að hittast aftur miðvikudaginn 14. október og fara yfir stöðuna en væntanlega fer að sjást til lands hvað þetta varðar enda er kröfugerðin byggð á því að starfsfólk sveitarfélaganna fái sambærilegar hækkanir og verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði sem er að taka laun eftir taxtakerfum.

Hinsvegar eru ljón í veginum sem tengjast sérákvæðum sem félagið er með en þar eru nokkur atriði sem ágreiningur er um. Það er morgunljóst að ef ekki næst sátt við fulltrúa Akraneskaupstaðar hvað þau mál varðar mun félagið grípa til aðgerða til að knýja þau atriði fram. Enda eru þessi sérákvæði réttlætismál og skipta þá félagsmenn sem um ræðir umtalsverðu máli.

Það er alveg ljóst að félagið mun þurfa að funda með forsvarsmönnum Akraneskaupstaðar til að fara yfir og ganga frá þeim ágreiningi sem uppi er hvað sérákvæðin varðar.

Staðan er því þannig að ef ekkert verður búið að gerast á fundinum 14. október þá er allt eins líklegt að félagið muni slíta viðræðum og boða til fundar þar sem tekin yrði ákvörðun um til hvaða aðgerða yrði gripið. Á þessari stundu er ótímabært að segja til um hvort meiri eða minni líkur séu á að það gerist en við skulum vona það besta og að gengið verði frá kjarasamningi sem starfsmenn Akraneskaupstaðar verða sáttir með.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image