• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Oct

Samningur við ríkið undirritaður

Í gær var undirritaður samningur milli Starfsgreinasambandsins og samninganefndar ríkisins vegna starfsfólks aðildarfélaga SGS hjá ríkisstofnunum. Innihald samningsins er svipað því sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði í vor og mun þessi samningur gilda afturvirkt frá 1. maí en þá rann eldri samningurinn einmitt út.

Heildarkostnaðarhækkun samningsins á samningstímanum nemur rétt tæpum 30% sem er sambærilegt og um var samið fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fyrr á þessu ári enda má segja að grunnurinn að þessum samingi sé mjög sambærilegur þeim samningi sem þá var gerður. Hinsvegar er rétt að vekja sérstaka athygli á afturvirkni samningsins sem þýðir að starfsmaður í 100% starfi getur verið að fá um eða yfir 150.000 kr. vegna afturvirkninnar.

Sem dæmi um helstu atriði samningsins má nefna:

  • Lágmarkslaun verða 300.000 kr. frá 1. júní 2018 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem hafa starfað fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun.
  • Launataxtar hækka um 25.000 kr. strax í upphafi samningstímans eða að meðaltali um 9,78%.
  • Þann 1. júní 2016 hækka launataxtar um 15.000 kr. en auk þess verða gerðar leiðréttingar á launatöflu sem jafngilda 5,9% hækkun.
  • Orlofsuppbót hækkar um 21,5% á samningstímanum og verður 48.000 kr. í lok hans.
  • Desemberuppbót hækkar um tæplega 21% á samningstímanum og verður 89.000 kr. í lok hans.

Samningurinn verður á næstunni lagður fyrir félagsmenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Formaður Verkalýðsfélags Akraness fór í morgun á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og kynnti helstu atriði samningins fyrir þeim starfsmönnum sem þar vinna og tilheyra þessum samningi. Í næstu viku mun formaður síðan vera með formlegan kynningarfund með öllum starfsmönnum HVE sem vinna eftir umræddum kjarasamningi og svara spurningum um innihald samningsins. Hér má sjá samninginn í heild sinni.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image