• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Sep

Undirritun vegna ríkissamningsins frestað

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir helgi átti Verkalýðsfélag Akraness von á því að Starfsgreinasambandið myndi undirrita kjarasamning með fulltrúum ríkisins á næstu dögum. Góður gangur hefur verið í viðræðunum við ríkið enda var það reiðubúið til að mæta flestum þeim kröfum sem stéttarfélög innan SGS höfðu lagt fram til þessa. Hinsvegar ákvað samninganefnd ríkisins að óska eftir því að fresta fundi fram á næsta mánudag, 5. október. Ástæða þeirrar beiðni er sú að svokallaður SALEK hópur sem virðist vera að vinna að því að búa til nýtt vinnumarkaðslíkan hér mun funda á næsta mánudag.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ekki farið í grafgötur með það að honum hugnast ekki sú hugmyndafræði sem liggur að baki þessum SALEK hópi enda óttast hann að áhrif stéttarfélaganna við gerð kjarasamninga muni verða skert verulega ef hugmyndir hópsins verða að veruleika. Hinsvegar er mjög erfitt að segja til um hvað þessi hópur er í raun og veru að ræða en það er ljóst að eins og staðan er núna er hann nánast umboðslaus. Allavega eru yfirgnæfandi líkur á að gengið verði frá undirritun kjarasamnings við ríkið á næsta mánudag enda á þessi SALEK hópur ekki að hafa nein áhrif þar á enda mikilvægt að launafólk starfandi hjá ríkinu fái sínar kjarabætur eins fljótt og verða má.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image