• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
May

Ætlar verkalýðshreyfingin að klúðra vítaspyrnu?

Það er óhætt að segja að það sé komin upp alveg ótrúlega flókin og undarleg staða í kjaraviðræðum á hinum almenna vinnumarkaði. En nú berast fregnir af því að drög að nýjum samningi á milli Flóabandalagsins, VR og Samtaka atvinnulífsins liggi í loftinu en þessir aðilar hafa frestað boðuðu verkfalli um fimm daga en verkafallið átti að hefjast á miðnætti annað kvöld.

Rétt er að vekja strax athygli á því að landsbyggðarfélögin innan Starfsgreinasambands Íslands hafa ekki frestað boðuðu verkfalli sem mun hefjast á miðnætti á morgun. Ástæðan fyrir því er einföld, landsbyggðarfélögin hafa ekkert heyrt frá Samtökum atvinnulífsins og vita því ekkert um innihaldið í þessum samningsdrögum sem liggja fyrir á milli áðurnefndra aðila.

Formaður lýsir yfir fullkominni vanþóknun á þessum vinnubrögðum Samtaka atvinnulífsins í ljósi þess að landsbyggðarfélögin hafa nú þegar tekið þrjá daga í verkföll og næsta verkfallshrina hefst eftir einungis 36 klukkutíma. SA virðist líta landsbyggðarfyrirtækin allt öðrum augum en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og varla eru landsbyggðarfyrirtækin sem tilheyra SA ánægð með að ekki sé reynt að forða verkfallsaðgerðum á landsbyggðinni eins og gert er á höfuðborgarsvæðinu.

En hvað skyldi vera í þessum samningsdrögum sem Flóinn og VR eru að kokka upp?  Formenn innan SGS hafa því miður ekki fengið neinar upplýsingar aðrar en þær sem birst hafa í fjölmiðlum. En við fyrstu sýn virðist sem Flóinn og VR séu að semja á grundvelli kröfugerðar landsbyggðarfélaganna sem byggist á þriggja ára samningi en rétt er að vekja athygli á að Flóinn og VR voru búin að gefa út að þau vildu bara semja til eins árs því þau treystu ekki stjórnvöldum en það er greinilegt að traustið á stjórnvöld er komið til baka.

Einnig kom fram í fréttum í dag að krafa landsbyggðarfélaganna um að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára sé til umræðu á milli SA og Flóans og VR en þá kröfu hafa þessi félög ekki verið með hingað til enda viljað semja til eins árs eins og áður sagði.

En það er morgunljóst að æði margt á eftir að skýrast eins og t.d:

·         Hvað eiga launataxtar verkafólks að hækka mikið? 

·         Verða lágmarkslaunin orðin 300.000 kr. innan þriggja ára? 

·         Frá hvaða tíma á samningurinn að gilda? Nú eru að verða liðnir 3 mánuðir frá því samningurinn rann út. 

·         Verður greidd einsgreiðlsa vegna þess að samningurinn hefur dregist um tæpa þrjá mánuði?

·         Hvað með sérstakar hækkanir hjá þeim sem starfa í útflutningsgreinunum eins og t.d. ferðaþjónustunni og fiskvinnslunni?

Fyrirgefið en af fenginni reynslu hefur formaður VLFA gríðarlegar áhyggjur af því að verkalýðshreyfingin klúðri því dauðafæri sem nú hefur skapast til að lagfæra kjör verkafólks svo um munar. En stöðunni sem verkalýðshreyfingin er með núna má líkja við vítaspyrnu í knattspyrnuleik þar sem boltanum hefur verið stillt upp á vítapunkti og það er enginn í markinu. Formaður vonar að verkalýðshreyfingin ætli ekki að leika sér að því að skjóta himinhátt yfir og klúðra því gullna tækifæri sem hún hefur til þess að lagfæra kjör þeirra sem lökust kjörin hafa. 

Formaður vonar að það verði samið þannig að laun verkafólks dugi fyrir þeim lágmarksframfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og líka þannig að okkar félagsmenn geti haldið mannlegri reisn.  En eins og staðan er núna þá er ekkert sem bendir til annars en að verkfall á landsbyggðinni skelli á af fullum þunga á miðnætti annað kvöld. Allavega hafa landsbyggðarfélögin enga forsendu til að áætla annað eins og staðan er akkúrat núna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image