• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
May

Samstaða SGS órjúfanleg

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur ákveðið að fresta áður boðuðu verkfalli sem átti að vera 19. og 20. maí um rétt rúma viku eða nánar tiltekið til 28. og 29. maí. Einnig ákvað samninganefndin að fresta allsherjar ótímabundnu verkfalli frá 26. maí til 6. júní. 

Þessi ákvörðun var tekin af meirihluta samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands eftir ítarlegar umræður en með þessu vill samninganefnd SGS gera heiðarlega tilraun til að nota komandi viku til þess að reyna að klára kjarasamning til handa verkafólki. Til að til þess geti komið þurfa Samtök atvinnulífsins að mæta sanngjörnum, réttlátum og eðlilegum kröfum verkafólks. Kröfum sem byggjast á því að lágmarkslaun á Íslandi verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er morgunljóst að frá þessari kröfu verður ekki kvikað enda slær þjóðarpúlsinn algjörlega með íslensku verkafólki hvað þessa kröfu varðar. Það er mikilvægt að atvinnurekendur geri sér grein fyrir því að ef það á að vera hægt að ganga frá kjarasamningum þá þarf þessi krafa að verða að veruleika.

Formaður Stéttarfélags Vesturlands hefur ýjað að því að ekki sé eining og samstaða innan landsbyggðarfélaganna og hefur formaðurinn meðal annars gagnrýnt Verkalýðsfélag Akraness og fleiri aðildarfélög á landsbyggðinni fyrir að hafa gengið frá samningum við atvinnurekendur á grundvelli kröfugerðarinnar. Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill upplýsa að hann er búinn að vera í verkalýðsbaráttu í 11 ár og aldrei hefur hann fundið fyrir jafn góðri samstöðu innan SGS eins og núna. Það er því grátlegt og dapurlegt hvernig formaður Stéttarfélags Vesturlands hefur hagað sér þar sem hún hefur meðal annars gagnrýnt Verkalýðsfélag Akraness harðlega fyrir að hafa gert samninga við einstök fyrirtæki í þessari kjaradeilu. Samninga sem byggjast á því að gengið hefur verið að öllu leyti að okkar kröfugerð. Hverslags kjarabarátta er það ef atvinnurekandi kemur til forsvarsmanns í stéttarfélagi, býður honum launahækkanir fyrir félagsmenn hans sem nema að fullu þeirri kröfugerð sem liggur fyrir og formaðurinn svarar neitandi? 

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert 14 slíka samninga og í tveimur tilfellum eru þeir samningar langt fyrir ofan þá kröfugerð sem SGS er með. Í öðru tilfellinu hafa starfsmenn hækkað um frá 117.000 upp í 136.000 kr. á mánuði og í hinu tilfellinu voru einstaka starfsmenn að hækka um 70-80.000 kr. En það eru tveir aðilar í íslenskri verkalýðsbaráttu sem gagnrýna þetta harðlega. Annar er forseti ASÍ og hinn er fyrrverandi varaforseti ASÍ og formaður Stéttarfélags Vesturlands. Enda eru þessir aðilar talsmenn samræmdrar láglaunastefnu sem Verkalýðsfélag Akraness vill ekki og ætlar ekki að taka þátt í. Það að fá gagnrýni fyrir að gera góða samninga frá svokölluðum "samherjum" er eitthvað sem er formanni og reyndar verkafólki almennt óskiljanlegt því það hljóta allir að gleðjast yfir því ef árangur næst í kjarasamningsgerð. Formaður Stéttarfélags Vesturlands hefur meðal annars gagnrýnt formann VLFA fyrir að skilja jafnvel konur eftir í sinni kjarasamningsgerð en það er greinilegt að hún hefur ekki fylgst með þeim samningum sem VLFA hefur gert og nægir að nefna í því samhengi bónussamninginn sem félagið gerði við HB Granda á dögunum sem tryggði fiskvinnslukonum allt að 51.000 kr. launahækkun. Það eru svona samningar sem forsetarnir tveir virðast vera á móti og því spyr maður sig að því hverslags verkalýðsbarátta sé rekin á þeim vígstöðvum. 

Það er sorglegt til þess að vita og er svosem engin nýlunda fyrir Verkalýðsfélag Akraness að þurfa að standa í að svara þeim sem eiga að teljast samherjar manns í baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks. Því eðlilega er það skylda okkar að eyða kröftum okkar í að bæta kjör verkafólks en ekki að standa í innbyrðis deilum enda gerir slíkt ekkert annað en að skemmta atvinnurekendum eins og enginn sé morgundagurinn. Sumt er bara þannig að ekki verður hjá því komist að svara því og þá sérstaklega þegar fólk kemst upp með það dag eftir dag að halda því fram að ekki sé samstaða innan félaga SGS. En slíkt getur formaður staðfest, að samstaðan er þessa dagana órjúfanleg og mjög góð og vonandi verður hún það í komandi átökum því ekki veitir af.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image