• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
May

Mikil reiði kraumar vegna uppsagna ræstingarkvenna í FVA

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni gagnrýndi Verkalýðsfélag Akraness harðlega uppsagnir 7 ræstingarkvenna við Fjölbrautaskóla Vesturlands en þær uppsagnir voru að frumkvæði nýráðins skólameistara FVA og voru gerðar til að mæta hagræðingu og sparnaði í rekstri skólans. Eins og fram kom hér á heimasíðunni er dapurlegt og nöturlegt til þess að vita að á sama tíma og kennarar fengu 30% launahækkun sé krafist launalækkunar hjá ræstingarfólki skólans. Þær konur sem þarna um ræðir hafa starfað þarna í allt að 30 ár við góðan orðstír. 

Það er ánægjulegt til þess að vita að kennarar hafa staðið þétt við bakið á ræstingarkonunum og á fundi starfsmanna Fjölbrautaskóla Vesturlands var samþykkt ályktun þar sem meðal annars kom fram að starfsmenn mótmæli harðlega uppsögnum þessara 7 starfsmanna og skoraði fundurinn á skólameistara að draga uppsagnirnar tafarlaust til baka. Það kemur einnig fram í þessari ályktun að það sé fráleitt að gera starfsfólk í ræstingu ábyrgt fyrir þeim halla sem orðið hefur á rekstri stofnunarinnar á undanförnum árum og hér sé byrjað á öfugum enda. Því miður er það lenska hjá stjórnendum fyrirtækja og stofnana sem vilja láta til sín taka í hagræðingaráformum að leita ætíð þangað sem síst skyldi en það er í störf tengdum ræstingu, mötuneytum og þvottahúsum. Þar telja þessir hagræðingarsnillingar mestu möguleikana á sparnaði.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar áskorun sína og tekur undir með starfsmönnum Fjölbrautaskóla Vesturlands að þessar uppsagnir verði tafarlaust dregnar til baka og leitað verði annarra leiða til að mæta halla skólans en í vasa ræstingarkvenna.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image