• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
May

Sannleikurinn um tilboð SA

Samtök atvinnulífsins hafa á opinberum vettvangi sagt að það tilboð sem Starfsgreinasambandi Íslands hefur verið gert sé eitt það besta sem samtökin hafi lagt fram síðustu ár, ef ekki áratugi. Eðlilega fáum við spurningar frá okkar félagsmönnum um innihald tilboðsins, í ljósi þeirra frétta sem koma frá Samtökum atvinnulífsins um það hversu æðislegt þetta tilboð sé. Spurningarnar sem félagsmenn spyrja okkur snúa aðallega að því í hverju er þetta tilboð fólgið sem á að vera það besta sem samtökin laga lagt fyrir verkafólk?

Í ljósi þess að SA segir að þetta sé svo gríðarlega frábært tilboð, þá sér VLFA sig nauðbeygt til að upplýsa félagsmenn um það í hverju tilboðið er í raun og veru fólgið. Til upplýsingar, þá liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins hafa boðið verkafólki launahækkanir með eftirfarandi hætti:

- 1. maí 2015 - 6% almenn hækkun 
- 1. maí 2016 - 4,5% hækkun 
- 1. maí 2017 - 3% hækkun

Einnig bjóða samtökin prósentuhækkanir í skiptum fyrir lengingu á dagvinnutímabili og lækkun yfirvinnuprósentu sem er með eftirfarandi hætti:

- Frá 1. maí 2015 verði dagvinnutímabil yrði frá 6 að morgni til 18 að kveldi. Það yrði sem sagt lengt sem nemur tveimur klukkustundum og fyrir þetta kæmi 2% launahækkun til viðbótar áðurnefndum hækkunum. 
- Frá 1. maí 2016 yrði dagvinnutímabilið lengt aftur og yrði frá 6 að morgni til 19 að kveldi og samhliða því yrði yfirvinnuálag lækkað úr 80% niður í 60%. 
- Þann 1. maí 2017 yrði yfirvinnuálagið lækkað enn frekar, eða niður í 50% álag á dagvinnu og samhliða því kæmi þá 2% launahækkun.

En hvað þýðir þetta? Ef við byrjum á almennum launahækkunum, þá myndi lægsti taxti hækka úr 201.317 krónum í 213.396 krónur. Eða sem nemur 12.079 krónum. Árið 2016 kæmu 4,5% og þá myndi lægsti taxti hækka um 9.602 og væri þá kominn upp í 222.998. 1. maí 2017 kæmi 3% hækkun, sem er 6.689 króna hækkun og væri þá lægst taxti komin í 229.689 krónur. Samtals gerir þessi hækkun 28.372 eða 14,09%.

En til að gæta alls sanngirnis, þá eru þeir að bjóða áðurnefndar breytingar á yfirvinnuálagi og dagvinnutímabili og ef þær hækkanir eru teknar með, þá þýðir það að dagvinnulaun myndu á fyrsta ári fara upp í 217.422, en takið eftir að fyrir þessa hækkun kæmi lenging á dagvinnutímabilinu. Síðan árið 2016 kæmu 4%, og þá færi lægsti taxti upp í 235.903 krónur. Fyrir þá hækkun myndi yfirvinnuálagið lækka um 20%, eða niður í 60% af dagvinnukaupi. Og á lokaárinu 2017 kæmi 2% hækkun til viðbótar og þá yrði lægsti taxti kominn upp í 247.698, en þá væri yfirvinnuálagið líka komið niður í 50%. Heildarhækkun lægsta taxta á þessu þriggja ára tímabili væri því rétt rúmar 46 þúsund krónur, en með þessari kvöð sem er fólgið í því að yfirvinnuálag lækkar og dagvinnutímabil lengist umtalsvert. Þetta í raun og veru þýðir það að verkafólk sem er með 35 yfirvinnutíma á mánuði, kemur í raun og veru út á jöfnu þar sem fólk er að kaupa sína launahækkun með breytingu á yfirvinnuálagi og lengingu á dagvinnutímabili. 

Þetta er nú sannleikurinn um hið glæsilega tilboð Samtaka atvinnulífsins og því miður er alls ekki hægt á þessum grunni að ganga. En ugglaust er hægt að þróa og slípa til þá agnúa sem á þessu tilboði eru. En það er morgunljóst að frá samningsborðinu verður ekki staðið upp ef lágmarkslaun ná ekki 300.000 innan þriggja ára. Að sjálfsögðu má vel skoða aðkomu stjórnvalda til að liðka til við samningsgerðina, meðal annars með hækkun persónuafsláttar sem klárlega kemur þeim tekjulægstu hvað best. En að halda því fram að þetta tilboð sé ígildi 23% launahækkunar er glórulaus blekking, enda liggur fyrir að verkafólk á landsbyggðinni er að meðaltali með tæpa 11 fasta yfirvinnutíma á mánuði og bara það eitt og sér leiðir það af sér að hluti af þeirri hækkun sem boðin er, er verkafólk að kaupa sjálft.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image