• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
May

Staðan í kjaramálum grafalvarleg - himinn og haf á milli

Samningaráð Starfsgreinasambands Íslands, sem formaður Verkalýðsfélags Akraness situr í, átti fund með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í gær og er það mat formanns að himinn og haf sé á milli deiluaðila. Það tilboð sem SA hefur lagt fram er með þeim hætti að alls ekki er hægt að ganga að því. Grundvallarkrafan sem nánast öll íslenska þjóðin styður er að lágmarkslaun á Íslandi verði skilyrðislaust orðin 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er morgunljóst að þetta er grunnkrafa sem verður að nást í gegn til að hægt verði að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði fyrir verkafólk. 

Þessi krafa er sanngjörn, réttlát og eðlileg enda eru það mannréttindi að dagvinnulaun verkafólks séu með þeim hætti að hægt sé að halda mannlegri reisn og að þau dugi svona nokkurn veginn fyrir þeim nauðþurftum sem þarf til að reka heimili frá mánuði til mánaðar. Þessi hugmyndafræði Samtaka atvinnulífsins um að stytta dagvinnutímabil og lækka yfirvinnuprósentu jafnvel niður í 50% er óaðgengileg með öllu. Enda liggur fyrir samkvæmt útreikningum að verkafólkið sjálft væri að kaupa stóran hluta sinna launahækkana eða með öðrum orðum, að eftir 35 yfirvinnutíma á mánuði væri allur ávinningur af slíkum breytingum horfinn út í veður og vind. 

Þetta er grafalvarleg staða og Samtök atvinnulífsins verða að hlusta á þjóðarsálina og ganga að þessum sanngjörnu kröfum íslensku verkafólki til heilla enda á verkafólk það svo sannarlega skilið og mörg fyrirtæki hafa fulla getu og burði til þess að mæta þessum réttlátu kröfum. 

Það þarf ekkert að ræða sjávarútveginn sem skilar 50-60 milljarða hagnaði ár hvert, þar er nægt svigrúm. Ferðaþjónustan er eins og hún er, þar ríkir gullgrafaraævintýri enda er sú atvinnugrein farin að skila mestum gjaldeyristekjum fyrir íslenska þjóð og meira að segja bárust fréttir af því í gær að hagnaður Haga sem á og rekur fjölmargar verslanir eins og til dæmis Bónus og Hagkaup var 3,8 milljarðar og milljarða hagnaður verður greiddur til eigenda. Ætlar einhver að halda því fram að Hagar hafi ekki tækifæri til að lagfæra kjör afgreiðslufólksins sem starfar til dæmis á kassa í stórmörkuðum tengdum fyrirtækinu? Að sjálfsögðu er slíkt hægt og þessar launabreytingar þarf að sækja af fullum þunga enda er það siðferðisleg skylda verkalýðshreyfingarinnar að laga kjör þessa fólks sem og annarra sem eru að vinna á lökustu kjörunum á íslenskum vinnumarkaði. 

Allavega er staðan grafalvarleg því lítinn samningsvilja er að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins og þeir eru því miður ekki tilbúnir til þess að deila ávinningnum af góðri afkomu fyrirtækja eins og til dæmis í sjávarútvegi og hjá Högum með starfsfólkinu og er það þeim sem því ráða til ævarandi skammar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image