• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
May

Seðlabankastjóri góður bandamaður Samtaka atvinnulífsins

Það er óhætt að segja að það gangi mikið á í þeirri kjaradeilu sem íslenskt verkafólk á í um þessar mundir. Valdaelítan sprettur nú fram eins og ætíð þegar kemur að kjarasamningum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og dregur upp dökka mynd af því hvað gerist ef verkafólk fær einhverjar kjarabætur sem orð er hafandi á. 

Svona hefur þetta ætíð verið og ef maður rifjar upp til dæmis kjarasamningana sem undirritaðir voru 17. febrúar 2008 þá spruttu fram greiningarstjórar bankanna og vöruðu við kröfugerð verkafólks og sögðu mjög ábyrgðarfullir að stöðugleiki í íslensku samfélagi byggðist á því hvernig samið yrði á hinum almenna vinnumarkaði. Þeir sögðu einnig að ef kröfur verkafólks myndu ná fram að ganga þá myndi verðbólgan rjúka upp og gengið falla og svo framvegis. Takið eftir, þetta var árið 2008, sama ár og var verið að ræna bankana innanfrá, beint fyrir framan nefið á greiningarstjórum bankanna. Þeir höfðu ekki áhyggjur af því en þeir höfðu meiri áhyggjur af því að verkafólk fengi leiðréttingu sinna kjara. Öll munum við hvernig fór í október 2008 en þá hrundi íslenskt efnahagslíf til grunna vegna þeirrar sjálftöku og glæpamennsku sem ástunduð var í íslensku bankakerfi. Þessi reikningur var allur sendur á íslenska alþýðu og því er vert að rifja upp áhyggjur greiningarstjóra bankanna sem þeir höfðu af kjarasamningum verkafólks í janúar 2008. 

Það eru ekki bara greiningarstjórar bankanna sem hafa sýnt af sér hræsni í garð verkafólks heldur er seðlabankastjórinn Már Guðmundsson þar mjög framarlega í flokki. Hann hefur ætíð varað stórlega við því að ef kjör verkafólks verði leiðrétt þá muni það hafa skelfilegar efnahagslegar afleiðingar. Þessi varnaðarorð seðlabankastjóra eiga ekki bara við um gerð þess samnings sem nú er undir heldur varaði hann einnig við því í kjarasamningunum 2011 að það yrði að semja um hófstilltar launahækkanir á hinum almenna vinnumarkaði. Þessi tiltekni seðlabankastjóri fór, eftir að hann hafði látið þessi orð falla um mikilvægi þess að stöðugleikinn væri á ábyrgð verkafólks, sjálfur og stefndi sínum banka og krafðist 300.000 kr. launaleiðréttingar á sínum launum. Þessi launahækkun átti að koma á einu bretti og það er kaldhæðnislegt að nú þegar verkafólk er að berjast fyrir því að dagvinnulaun nái 300.000 kr. innan 3 ára þá sé það sama upphæð og Már Guðmundsson fór fram á að laun sín skyldu hækka um árið 2012. 

Formaður veltir því fyrir sér að betri bandamann geti Samtök atvinnulífsins ekki fengið en seðlabankastjóra sem ætíð stendur á öllum torgum og öskrar hátt og skýrt að ef ekki verði samið um hófstilltar hækkanir handa verkafólki þá muni það leiða til efnahagslegra hamfara. Verðbólgan muni rjúka upp, gengið falla og atvinnuleysi stóraukast. Hvernig væri að seðlabankastjórinn og seðlabankinn í heild sinni myndu beita sér fyrir því að lækka þá okurvexti sem íslenskum almenningi og fyrirtækjum standa til boða. Skuldir íslenskra heimila nema í heildina um 2000 milljörðum eða sem nemur 90,5% af vergri landsframleiðslu og íslensk fyrirtæki skulda 122% af vergri landsframleiðslu eða sem nemur um 2.400 milljörðum. Að lækka vexti á slíkar ofurskuldir myndi klárlega koma heimilunum og fyrirtækjum svo sannarlega til góða og má áætla að ef vextir yrðu lækkaðir um 1% þá myndi það spara heimilum og fyrirtækjum um 50 milljarða á ári. Nei, seðlabankastjóri segir að ef kröfur verkafólks verði að veruleika þá þurfi að hækka vextina enn frekar. 

Eins og sjá má á þessu er hræsnin allsráðandi hjá þessum aðilum sem virðast fyrst og fremst horfa í eigin nafla en ekki á hagsmuni alþýðunnar enda heyrist hvorki hósti né stuna frá þessum aðilum þegar ofurlaunaelítan skammtar sér sínar hækkanir eins og enginn sé morgundagurinn. Nægir að nefna í því samhengi launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur en laun hans hækkuðu um 90% á síðustu 4 árum og það á sama tíma og gjaldskrár hafa hækkað um 50-60%. En þessar gjaldskrárhækkanir fóru beint inn í visitöluna og hækkuðu lán íslenskra heimila umtalsvert. Eða nýjustu fréttirnir að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi hækkað í launum í fyrra um 172.000 kr. á mánuði og sé kominn með laun sem nema tæpum 3 milljónum. Ekki hósti né stuna vegna slíkra gjörninga, bara ef laun verkafólks verða orðin 300.000 kr. innan þriggja ára, það á að ríða íslensku samfélagi að fullu. Við slíkum málflutningi er ekki nema tvennt að segja - rugl og sveiattan! 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image