• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Samningur um bónusgreiðslur HB Granda formlega undirritaður Trúnaðarmenn og forstjóri HB Granda skrifa undir samninginn
22
Apr

Samningur um bónusgreiðslur HB Granda formlega undirritaður

Nú rétt í þessu var skrifað formlega undir samning um bónusmál milli Verkalýðsfélags Akraness og HB Granda, en samningurinn var kynnt hér á heimasíðunni í gær og var unnið af Verkalýðsfélagi Akraness og trúnaðarmönnum þess. 

Ljóst þykir að þetta samkomulag kemur til með að skila starfsmönnum HB Granda verulegum ávinningi, en eins og kom fram í gær er hækkun bónussins tengd starfsaldri þannig að hann hækkar meira eftir því sem starfsaldurinn er lengri. Áður höfðu allir starfsmenn jafnháan bónus, óháð starfsaldri. Bónus byrjanda hækkar úr 356 kr. á hvern unninn tíma í 500 kr. eða um 40,45%. Bónus hjá starfsmanni með 7 ára starfsaldur hækkar úr 356 kr. í 650 kr. eða um 82,58%. Þessi breyting hefur þau áhrif á hækkun heildarlauna að laun byrjanda hækka um kr. 24.960 á mánuði eða um 9%. Laun starfsmanns með 7 ára starfsaldur hækka um kr. 50.960 á mánuði eða um 18%. Á ársgrundvelli skilar þessi hækkun 7 ára starfsmanni 611.520 krónum, sem  jafngildir tveggja mánaða launum.

Hækkunin tekur gildi frá og með 23. apríl og munu starfsmenn því sjá hækkunina á launaseðli maí-mánaðar.

Við undirritunina áðan kynnti formaður VLFA samkomulagið fyrir starfsmönnum Hb Granda og þykir ljóst á viðbrögðum þeirra að mikil ánægja ríkir með samkomulagið, enda klöppuðu starfsmenn vel og innilega fyrir þessari launahækkun. Þessi niðurstaða sýnir svo ekki verður um villst að með samstöðu og vilja fyrirtækisins er hægt að bæta kjör fólksins.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sagði við undirritunina að þetta samkomulag myndi einnig gilda fyrir starfsmenn fyrirtækisins við Norðurgarð í Reykjavík, en það var kynnt fyrir trúnaðarmönnum og forsvarmönnum Eflingar í gær. Verður samkomulagið undirritað þar kl. 13 í dag. Sagði forstjórinn að mikil ánægja hafi ríkt meðal trúnaðarmanna í Norðurgarði í Reykjavík með samkomulagið.

Það er því ljóst að þetta samkomulag sem Verkalýðsfélag Akraness gerði við HB Granda mun hafa víðtæk áhrif þar sem það mun gilda fyrir aðra starfsmenn í Reykjavík og fyrir austan, og er það fagnaðarefni.

Myndir frá undirritun samningsins má finna með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image