• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Jan

Grunnlaun sorphirðumanna til skammar

Þessir vösku sorphirðumenn gáfu sér smástund til að líta upp frá vinnu sinni og þiggja kaffibolla á kaffistofu félagsins áður en þeir drifu sig aftur út í frost og snjó að sinna sínu mikilvæga starfi.

Í morgun voru starfsmenn Íslenska Gámafélagsins önnum kafnir við að tæma ruslatunnur á Sunnubrautinni. Formaður greip tækifærið, kallaði í þá og bauð þeim kaffi og kleinur, enda er það mat formanns að starf sorphirðumanna sé eitt það erfiðasta líkamlega og á það kannski sérstaklega við þegar veðurskilyrði eru eins og við þekkjum hér á landi, mikið fannfergi og svæðið erfitt yfirferðar.

Þessi vinnuskilyrði endurspeglast svo sannarlega ekki í launakjörum þessara manna, enda eru grunnlaun sorphirðumanna hlægilega lág miðað við áðurnefnd vinnuskilyrði og erfiði. Það liggur fyrir að sorphirðumenn eru að ganga eða hlaupa 30 til 40 kílómetra á einum vinnudegi og því greinilegt þetta starf er gríðarlega annasamt og erfitt.

Grunnlaunin eru eins og áður sagði til skammar, en grunnlaun almenns sorphirðumanns eru 206.500 krónur sem svo sannarlega endurspegla ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirra og vinnuskilyrði þeirra, eins og áður var lýst. Þetta er eitt af því sem svo sannarlega þarf að lagfæra í komandi kjarasamningum, það eru kjör sorphirðumanna sem og annarra verkamanna á íslenskum vinnumarkaði.

14
Jan

Algjörlega árangurslausir fundir með Norðuráli

Í gær var haldinn í húsakynnum Ríkissáttasemjara sjötti samningafundurinn í kjaradeilu stéttarfélaganna gagnvart Norðuráli, en deiluaðilar vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara fyrir skemmstu. Þetta var annar fundurinn undir handleiðslu sáttasemjara og það er skemmst frá því að segja að himinn og haf er á milli deiluaðila.

Á þessari stundu er fátt sem bendir til þess að lausn finnist á deilunni á næstu vikum, enda hvellskýrt að algjör hugarfarsbreyting þarf að verða hjá forsvarsmönnum Norðuráls ef þessi deila á að leysast. Það liggur fyrir að starfsmenn og stéttarfélög munu sækja fram leiðréttingar á kjörum starfsmanna af fullum þunga, en nánast öllum kröfum stéttarfélaganna hefur verið hafnað. Það er í raun og veru nöturlegt til þess að vita að fyrirtæki eins og Norðurál, sem er eitt öflugasta fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði og hefur skilað hagnaði nánast hvert einasta ár frá því það hóf starfsemi, hefur búið við góð rekstrarskilyrði og er með einn lægsta launakostnaðinn miðað við heildarveltu á íslenskum vinnumarkaði, skuli ekki geta gert betur en raun ber vitni.

Það má segja að þetta gildi um allar stóriðjurnar á Íslandi sem hafa búið við góð rekstrarskilyrði og þó sérstaklega eftir hrun íslensku krónunnar, en þessum ávinningi hefur á engan hátt verið deilt með starfsmönnum. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð talað um að íslenskum fyrirtækjum séu sköpuð góð rekstrarskilyrði sem eigi að leiða það að verkum að fyrirtæki geti gert betur gagnvart sínum starfsmönnum en ella. En því miður hefur þessu ekki verið til að dreifa, ef horft er í heildina yfir öll útflutningsfyrirtæki á Íslandi sem búa um þessar mundir við gríðarlega jákvæð skilyrði.

Eins og áður sagði er það morgunljóst að hvergi verður hvikað frá í þessari baráttu. Það mun engu breyta þótt það taki tíma, því samstaða og einurð starfsmanna í baráttunni fyrir bættum kjörum er alger, og það skiptir stéttarfélögin gríðarlega miklu máli að finna þann mikla baráttuanda sem ríkir meðal starfsmanna. Næsti fundur hefur verið boðaður næsta þriðjudag, og það liggur algerlega fyrir að ef ekki verður hugarfars- og stefnubreyting af hálfu forsvarsmanna Norðuráls þá verður viðræðum við fyrirtækið slitið, enda er ekkert í tilboði Norðurálsmanna sem gefur tilefni til frekari viðræðna. Á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku mun Verkalýðsfélag Akraness boða til fundar í Bíóhöllinni Akranesi þar sem starfsmönnum verður gerð grein fyrir gangi viðræðna með ítarlegum hætti, og til hvaða ráðstafana verður hægt að grípa. En samkvæmt kjarasamningnum opnast verkfallsréttur ekki fyrr en eftir þrjá mánuði og síðan líða nokkrir mánuðir þar til hann fer að virka samkvæmt kjarasamningi. En það er ljóst, eins og áður sagði, að ekki kemur annað til greina en að kjör starfsmanna Norðuráls verði bætt svo um munar í komandi kjarasamningum, bæði vegna frábærrar afkomu fyrirtækisins í gegnum árin, og ekki síður vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu, kjarasamninga sem í sumum tilfellum eru að gefa starfsmönnum langt yfir 30%.

08
Jan

Félagsskírteini ársins 2015 á leið til félagsmanna

Félagsskírteini ársins 2015 eru nú farin í póst til félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og ættu því að berast þeim á næstu dögum. Með skírteinunum fylgja yfirlit um greidd félagsgjöld árið 2014. Dagbók félagsins er einnig á leið úr prentun og hægt verður að nálgast eintak af henni á skrifstofu félagsins í næstu viku.

Félagsskírteinin eru staðfesting á félagsaðild en veita jafnframt sérkjör og afslætti hjá ýmsum fyrirtækjum. Þau fyrirtæki eru meðal annars Apótek Vesturlands (10% af öðru en lyfjum), Model (5-10%), Omnis (5-15%), Ozone (10%), Rafþjónusta Sigurdórs (5-10%), Dekur snyrtistofa (10%), Bifreiðaverkstæðið Brautin (7%), Trésmiðjan Akur (7%), VÍS (5%) og Ökukennsla Sigga Trukks (10%). Auk þess býðst félagsmönnum sem fyrr afsláttur hjá N1, Olís og Orkunni. Félagsskírteinið er í greiðslukortastærð eins og undanfarin ár. Er það von Verkalýðsfélags Akraness að þau sérkjör og afslættir sem skírteinið veitir haldi áfram að létta undir með félagsmönnum.

Nánari upplýsingar um sérkjörin má finna hér.

06
Jan

Árangurslaus fundur í kjaradeilu Norðuráls

Rétt í þessu lauk samningafundi hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni vísuðu stéttarfélögin sem eiga aðild að samningnum deilunni til ríkissáttasemjara í ljósi þess að himinn og haf eru á milli samningsaðila.

Það er skemmst frá því að segja að ákkurat ekkert kom út úr þessum fundi og verður að segjast alveg eins og er að framhaldið er síður en svo bjart hvað varðar lausn á þessari deilu. Eins og áður sagði ber gríðarlega mikið í milli samningsaðila en starfsmenn hafa eðlilega miklar væntingar til þessa kjarasamnings. Fyrirtækinu hefur ætíð gengið gríðarlega vel, skilað umtalsverðum hagnaði í gegnum árin og hlutfall launakostnaðar af heildarveltu með því lægsta sem gerist hér á landi.

Næsti fundur verður ekki fyrr en eftir viku en trúnaðarráð starfsmanna óskaði eftir því við stéttarfélögin að þau myndu kanna hvort og þá hvenær hægt sé fyrir starfsmenn að láta kjósa um yfirvinnubann. Að sjálfsögðu ætla stéttarfélögin að fara strax í þessa vinnu því eins og áður sagði ber það mikið í milli að því miður eru ekki miklar líkur á að deiluaðilar nái saman án einhverra átaka.   

29
Dec

Jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs VLFA

Hinn árlegi jólafundur stjórnar- og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn á morgun þar sem farið verður yfir liðið ár og þau hörkuátök sem framundan eru hvað kjarasamningsgerð varðar enda eru margir helstu kjarasamningar félagsins lausir eða að losna um þessar mundir. Fundurinn verður haldinn á Gamla Kaupfélaginu og eins og ætíð er góð mæting enda skiptir miklu máli fyrir alla aðila að fylgjast vel með því sem framundan er því gríðarlega mikilvægt er að menn séu vel upplýstir um þau atriði er lúta að komandi kjarasamningum og þeim átökum sem hugsanlega kunna að fylgja.

Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár sem verður gert grein fyrir. Meðal annars hvatti Verkalýðsfélag Akraness allt verkafólk til að fella kjarasamningana sem voru gerðir 21. desember 2013 og er formaður ekki í neinum vafa um að hækkun orlofs- og desemberuppbóta um 32.300 kr. má þakka staðfestu Verkalýðsfélags Akraness og nokkurra annarra félaga. Það er ljóst að þessi ávinningur hefði ekki komið til ef þessi félög hefðu ekki staðið í lappirnar. Vissulega vildu menn svo sannarlega sjá meiri launahækkanir til handa íslensku verkafólki í síðustu samningum en því miður tókst það ekki. En rétt er að benda á að þessi hækkun orlofs- og desemberuppbótar er ígildi um 1,3 milljarða kostnaðarauka fyrir atvinnulífið ef bara er horft á þá 100.000 félagsmenn sem tilheyra ASÍ.

Það er alveg ljóst að komandi kjarasamningar munu reyna mikið á íslenska verkalýðshreyfingu því það er ekki hægt að láta það átölulaust að verkafólk sé með grunnlaun frá 201.000 kr. upp í 229.000 kr. Þetta eru laun sem eru langt undir öllum framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og morgunljóst að þessa launataxta þarf að hækka allverulega. Formaður félagsins tekur undir með fyrrverandi forstljóra N1 sem sagði í útvarpsviðtali ekki alls fyrir löngu að fyrirtæki sem ekki geta greitt dagvinnulaun sem nema um 300.000 kr. eiga vart tilverurétt á íslenskum vinnumarkaði. Eins og allir vita þá gengur fyrirtækjum í útflutningsgreinum mjög vel. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja nemur þetta í kringum 40-60 milljörðum á ári, arðgreiðslur flæða úr greininni til eigenda án þess að það skili sér til þeirra sem skapa hagnaðinn sem er fiskvinnslufólkið. Hagnaður Norðuráls var mjög góður á síðastliðnu ári og er ljóst að í þeim kjaraviðræðum sem nú eru hafnar við Norðurál verður svo sannarlega látið sverfa til stáls þegar kemur að því að starfsmenn fái ríkari hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækisins heldur en verið hefur.

Verkaýðsfélag Akraness er klárt í átök í komandi kjarasamningum og mun stjórn og trúnaðarráð meðal annars fara yfir alla þessa þætti á fundinum á morgun.

29
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar á morgun

Frá AkraneshöfnFrá AkraneshöfnAðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn á morgun í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13 og hefst hann kl. 14.

Dagskrá fundarins er með eftirfarandi hætti:

1. Venjubundin aðalfundarstörf.

2. Önnur mál.

Að sjálfsögðu er um margt að ræða þegar kemur að kjaramálum sjómanna og nægir að nefna að sjómenn eru nú búnir að vera án kjarasamnings í hartnær 4 ár sem verður að teljast með hreinustu ólíkindum. Það sem brennur helst á sjómönnum fyrir utan það að ná fram kjarasamningi er verðmyndun á sjávarafurðum en hún hefur verið á algjörum villigötum í gegnum árin enda gengur það ekki upp að útgerðaraðilar komi að verðmyndun eins og nú er í gegnum Verðlagsstofu skiptaverðs. Þetta er eitt af brýnustu verkefnunum að leysa enda liggur fyrir að fiskverð er 30-60% lægra samkvæmt Verðlagsstofuverði sé miðað við fiskverð á mörkuðum. Eins og áður sagði er þetta eitt af stóru málunum sem þarf að taka á.

Sjómenn eru hvattir til að mæta og fara yfir stöðuna eins og hún er í dag.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image