• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Apr

Verkalýðsfélag Akraness semur við HB Granda um bónusmál!

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmenn HB Granda á Akranesi funduðu í gær með forstjóra HB Granda hér á Akranesi. Til umræðu var að taka upp nýtt bónuskerfi fyrir starfsmenn HB Granda. Var niðurstaða þess fundar að Verkalýðsfélag Akraness gerði forstjóra HB Granda tilboð sem fyrirtækið gekk að nánast óbreyttu.

Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir starfsmenn HB Granda, en rétt er að ítreka að hér er bara um breytingu á bónuskerfi starfsmanna að ræða og hefur ekkert með þær kjaraviðræður sem félagið á í við Samtök atvinnulífsins og eru þessar breytingar á bónuskerfinu því hrein viðbót við það sem um mun semjast á því samningsborði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð gagnrýnt fyrirtæki harðlega þegar þau hafa ekki staðið sig sem skyldi, en félagið er svo sannarlega tilbúið að fagna því sem vel er gert og í þessu tilfelli er full ástæða til að fagna því að fyrirtækið hafi verið tilbúið að deila góðri afkomu sinni með starfsmönnum með nokkuð myndarlegum hætti í formi hækkunar á bónuskerfinu.

Þessi hækkun skilar starfsmönnum HB Granda frá 9% upp í 18% launahækkun, en launahækkunin miðast við að bónusinn taki mið af starfsaldurshækkunum. Taflan hér að neðan sýnir hvaða áhrif þessi hækkun bónuss hefur á starfsmann í launaflokki 9, sem er sérhæfður fiskvinnslumaður. Eins og á töflunni sést þá er fiskvinnslukona eftir 7 ár að hækka í bónus um tæpa 51 þúsund krónur á mánuði, eða um 611.000 kr. á ársgrundvelli.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar að mikil ánægja ríkir með að þetta samkomulag hafi náðst og fagnar enn og aftur því að forsvarsmenn HB Granda hafi verið tilbúnir til að leyfa sínu góða starfsfólki að njóta góðrar afkomu, en sem dæmi þá nær þessi hækkun einnig yfir dótturfyrirtæki HB Granda á Akranesi, sem eru auk frystihúss HB Granda, Laugafiskur, Norðanfiskur og Vignir G. Jónsson. Má áætla að þessi launahækkun nái til allt að 250 starfsmanna í fiskvinnslu á Akranesi, auk þess mun þessi bónushækkun væntanlega gilda líka fyrir öll önnur fiskvinnslufyrirtæki sem HB Granda á, eins og í Reykjavík og Vopnafirði og jafnvel víðar.

Verkalýðsfélag vill ítreka enn og aftur að þetta hefur ekkert með kjarasamningsgerðina að gera hvað varðar hækkun almennra launataxta. Þetta útspil fyrirtækisins lýtur bara að bónusliðnum. Viðræður um önnur kjaraatriði munu fara fram á sameiginlegu borði með Samtökum atvinnulífsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image