• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Feb

Mikil uppbygging HB Granda á Akranesi

Það er gríðarlega jákvætt að sjá þá miklu uppbyggingu og fjölgun starfa  sem orðið hefur hjá HB Granda hér á Akranesi en algjör viðsnúningur hefur orðið á liðnum árum hvað það varðar. Fyrst eftir sameininguna árið 2004 dró töluvert úr starfseminni en nú á liðnum misserum hefur störfum fjölgað jafnt og þétt. Sem dæmi er núna unnið allan sólarhringinn í loðnufrystingunni. Einnig er unnið myrkranna á milli í frystihúsi fyrirtækisins sem og í loðnubræðslunni. 

Það er einnig mjög jákvætt að sjá að HB Granda gengur gríðarlega vel. Skilaði fyrirtækið 5,6 milljörðum í hagnað á síðasta ári, ákveðið hefur verið að greiða til hluthafa 2,7 milljarða í arðgreiðslur og fyrirhuguð er frekari uppbygging fyrirtækisins hér á Akranesi. Það ber hinsvegar einn skugga á þetta allt saman og það lýtur að því að lagfæra verður kjör þeirra sem starfa í fiskvinnslunni. Ekki bara hjá HB Granda heldur allsstaðar. Það liggur algjörlega fyrir að fyrirtæki sem skilar svona gríðarlegum hagnaði geta greitt sínu fólki mun betri laun heldur en gert er í dag og það er hlutverk okkar í verkalýðshreyfingunni að sjá til þess að fiskvinnslufólk fái stærri hlutdeild í þessum mikla hagnaði sem sjávarútvegurinn er að skila. 

Það græða allir á því að laun verkafólks verði hækkuð, til dæmis ríki og sveitarfélög en verslun og þjónusta myndu einnig fá hlutdeild í slíku. Það verður að gerast að laun fiskvinnslufólks og annars verkafólks taki verulegum hækkunum í komandi kjarasamningum enda er afkoma til dæmis í fiskvinnslunni svo ævintýraleg að annað eins hefur ekki sést á liðnum árum. Þetta eru algjörir smáaurar sem um er að ræða í þessu samhengi og sem dæmi þá starfa um 600 manns í fiskvinnslunni hjá HB Granda vítt og breitt um landið og ef kjör þessa fólks yrðu hækkuð um 50.000 kr. á mánuði myndi launakostnaður einungis hækka um 360 milljónir á ári fyrir utan launatengd gjöld. Já, takið eftir þessu, einungis 360 milljónir og það er sáralítið í ljósi 5,6 milljarða hagnaðar. 

En aðalmálið er að fyrirtækinu gengur vel, störfum fjölgar og þegar búið verður að lagfæra kjör þessa fólks þá munu allir græða eins og áður sagði.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image