• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Feb

Undirbúningur að verkfallsaðgerðum að hefjast

Í gær kom aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness saman til fundar og var aðalmál fundarins að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin á hinum almenna vinnumarkaði. Það liggur fyrir að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa alfarið hafnað sanngjörnum kröfum Starfsgreinasambandsins um að stigin verði jöfn og ákveðin skref í því að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu, en eins og fram hefur komið fréttum þá er aðalkrafa SGS að lágmarkslaun verði komin uppí 300.000 kr. innan þriggja ára.

Það kom hvellskýrt fram á fundi aðalstjórnar félagsins í gær að þessu skilningsleysi og óbilgirni forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins verði að mæta af fullri hörku og ljóst að Verkalýðsfélag Akraness verður að búa sig undir hörð verkfallsátök á næstu vikum og mánuðum eins og önnur aðildarfélög innan SGS. Það er ekki og verður ekki hægt að láta það átölulaust að dagvinnulaun verkafólks skuli vera frá 201 þúsund krónum uppí rúmar 240 þúsund enda liggur fyrir að þessi laun duga alls ekki fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.

Það ríkti gríðarleg gremja hjá stjórnarmönnum VLFA yfir því að hræðsluáróður Samtaka atvinnulífsins skuli enn á ný óma á ljósvakamiðlum hér á landi eins og enginn sé morgundagurinn, en slíkur hræðsluóhróður byrjar ætíð að óma þegar kröfur verkafólks eru lagðar fram. Það liggur fyrir að það hefur verið bullandi launaskrið á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár, enda hefur launavísitalan hækkað mun meira en almennar prósentuhækkanir sem um hefur verið samið á hinum almenna vinnumarkaði. Og hverjir bera ábyrgð á launaskriðinu? Að sjálfsögðu eru það stjórnendur fyrirtækja innan SA.

Einnig er rétt að benda á og rifja upp að fyrirtæki, ríki, sveitarfélög og aðrir þjónustuaðilar hafa þann möguleika að varpa sínum vanda yfir á neytendur og launafólk og gera það hiklaust. Núna er komið að verkafólki sem þarf nauðsynlega að fá lagfæringu og leiðréttingu á sínum kjörum til að geta staðið undir öllum þessum álögum sem á herðar þeirra hafa verið lagðar. 

Það liggur fyrir að hinir ýmsu starfshópar eins og kennarar, læknar, flugstjórar og aðrar háskólastéttir hafa samið um tugprósenta launahækkun og hafa því hækkað í sumum tilfellum um og yfir 100 þúsund krónur á mánuði og nú þegar verkafólk fer fram á að laun þeirra dugi fyrir lágmarksframfærslu ætlar allt um koll að keyra hjá forystu Samtaka atvinnulífsins.

Verkalýðsfélag Akraness tekur heils hugar undir með Alþjóðavinnumálastofnun, en þar á bæ er varað við of litlum launahækkunum og bent á að slíkt geti leitt til verðhjöðnunar og vandræðum í hagkerfum heimsins. Það er mjög mikilvægt að laun verkafólks hækki, enda mun það klárlega koma öllum til góða: sveitafélög munu fá hærri útsvarstekjur sem hugsanlega gerir það að verkum að þau geti haldið aftur af gjaldskrárhækkunum og það sama gildir um ríkissjóð, hærri tekjuskattur skilar sér í betri afkomu ríkissjóðs. Hvað með verslun og þjónustu? Að sjálfsögðu skilar betri afkoma verkafólks sér í aukinni veltu og hagnaði í verslunum og þjónustufyrirtækjum, sem sagt allir græða á að laun verkafólks hækki. Það liggur fyrir að sumar atvinnugreinar mala gull þessi misserin eins og ferðaþjónustan, stóriðjan og sjávarútvegurinn og verður það að teljast ótrúverðugur málflutningur þegar því er haldið fram að þessar greinar geti ekki lagfært kjör sinna starfsmanna svo um munar í komandi kjarasamningum, því það geta þær svo sannarlega.

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundinum í gær að hefja undirbúning að verkfallsaðgerðum í samvinnu við önnur félög Starfsgreinasambandsins. Fram kom á fundinum að stjórn félagsins er svo sannarlega tilbúin að láta sverfa til stáls í komandi kjaraátökum, því þessu óréttlæti sem íslenskt verkafólk þarf ætíð að lifa við verður að linna í eitt skipti fyrir öll. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins fundar í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag kl. 13.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image