• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Dec

Upplýsingafundur fyrir erlenda íbúa

Í gærkvöldi stóð Rauði Kross Íslands fyrir fundi með erlendum íbúum hér á Akranesi um það ástand sem nú ríkir í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Frummælendur á fundinum voru formaður Verkalýðsfélags Akraness og fulltrúar frá Vinnumálastofnun, Símenntunarmiðstöð Vesturlands og Akraneskaupstað.

Fjölmargar spurningar bárust um það ástand sem nú ríkir hér á landi og kom fram hjá fólki að erfitt væri að skilja ekki allt sem hér væri að gerast þessa dagana. Reyndu áðurnefndir fulltrúar að útskýra og upplýsa fólk um þá stöðu sem nú ríkir og einnig þau úrræði sem í boði eru.

08
Dec

Nýr kjarasamningur Elkem Ísland samþykktur með 80% atkvæða

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Elkem Ísland var rétt í þessu samþykktur með miklum meirihluta atkvæða.

Á kjörskrá voru 179. Alls greiddu atkvæði 126 eða 71% þeirra sem voru á kjörskrá. Já sögðu 100 eða 80% þeirra sem greiddu atkvæði. Nei sögðu 23 eða 19% atkvæða. Auðir og ógildir voru 3 eða 1%.

Nú liggur fyrir að starfsmenn munu núna 15. desember fá greidd laun skv. nýgerðum kjarasamningi frá 1. desember. Ljóst er að starfsmönnum mun muna um þá hækkun sem um samdist.

04
Dec

Kynningarfundur um kjarasamning Elkem Ísland verður haldinn á morgun

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á morgun kynna fyrir starfsmönnum Elkem Ísland nýgerðan kjarasamning sem undirritaður var í gær. Kynningarfundurinn hefst kl. 14:10 og hvetur félagið alla starfsmenn til að mæta á kynningarfundinn.

Það er mat félagsins að hér hafi verið gerður mjög góður samningur sem félagið mun eindregið mæla með að verði samþykktur enda eru t.d. ofngæslumenn, eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni, að hækka við undirritun frá 45.000 kr. á mánuði upp í allt að 57.000 kr eða sem nemur 17,7% til 18,9%. 

Starfsmönnum gefst kostur á að kjósa um samninginn að afloknum kynningarfundi og einnig verður hægt að kjósa á mánudaginn 8. desember. Tíminn sem gefst til að kjósa um samninginn er stuttur því verði hann samþykktur þá koma þessar hækkanir til greiðslu í næstu útborgun sem er 15. desember. Í því árferði sem nú er veitir hinum almenna launamanni ekki af því að fá launahækkanir sem fyrst.

03
Dec

Nýr kjarasamningur vegna Elkem Ísland gefur 22% á tveggja ára samningstímabili

Nú í morgun gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna stóriðjunnar Elkem Ísland á Grundartanga. Fyrri kjarasamningur rann út 1. desember sl. og mun nýi kjarasamningurinn gilda frá þeim tíma til 31. desember 2010.

Samningurinn á að geta gefið byrjanda sem starfar sem ofngæslumaður tæpa 45.000 króna hækkun á mánuði við undirskrift en sú hækkun nemur um 17,3%. Starfsmaður sem starfað hefur sem ofngæslumaður í 10 ár mun fá um 56.500 króna hækkun á mánuði við undirskrift eða sem nemur 18,7%. Í þessum nýja samningi er tekið upp nýtt bónuskerfi sem mun geta gefið allt að 10% en nýja bónuskerfið verður fest að lágmarki í 7% fyrstu 4 mánuðina.

Þann 1. janúar 2010 kemur næsta hækkun og þá hefur byrjandi hækkað um samtals 53.000 frá undirritun samningsins sem gerir 20,4% hækkun. Starfsmaður með 10 ára starfsaldur verður þá með 65.000 krónur hærri laun á mánuði en hann er með fyrir undirritun samningins. Nemur sú hækkun tæplega 22%.

Trúnaðartengiliður starfsmanna voru með hjá ríkissáttasemjara þegar samningurinn var undirritaður og voru þeir almennt ánægðir með þann árangur sem náðist með þessum samningi þótt vissulega vilji menn alltaf ná öllu sínu fram.

Samningurinn verður kynntur fyrir starfsmönnum á föstudaginn kemur og verður kosið um samninginn að aflokinni kynningu.

02
Dec

Fundað með Launanefnd sveitarfélaga

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness funduðu í morgun með Launanefnd sveitarfélaga í húsakynnum Ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Akraneskaupstaðar. Samningurinn rann út 1. desember og var þetta þriðji fundurinn sem formaður hefur átt með Launanefnd sveitarfélaga.

Á morgun munu samningsaðilar funda aftur en fundurinn í morgun var nokkuð gagnlegur og árangursríkur. Það voru nokkur atriði sem formaður gerði athugasemdir við sem eru nú til skoðunar hjá forsvarsmönnum Launanefndar sveitarfélaga og mun væntanlega fá svar við þeim spurningum á morgun.

01
Dec

Kjaradeilu starfsmanna Elkem Ísland og Klafa vísað til ríkissáttasemjara

Á miðvikudaginn í síðustu viku var kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Elkem Ísland vísað til ríkissáttasemjara.  Viðræður við Samtök atvinnulífsins sem fara með samningsumboðið fyrir Elkem hafa staðið yfir meira og minna allan nóvember mánuð án árangurs.

Á þeirri forsendu var ekkert annað í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Fyrsti fundurinn hjá sáttasemjara var á föstudaginn sl. og kom lítið sem ekkert út úr þeim fundi.  Sáttasemjari hefur boðað til fundar í dag kl 15 og er vonast til að línurnar skýrist mun betur eftir þann fund.

Kröfur félagsins og starfsmanna eru þær að launataxtar starfsmanna taki sömu krónutöluhækkunum og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar sl.  Því miður hafa Samtök atvinnulífsins alfarið hafnað slíkum samningi og veldur sú afstaða Verkalýðsfélagi Akraness umtalsverðum vonbrigðum.

Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn Elkem Ísland munu standa grjótharðir á þessari sanngjörnu launakröfu einfaldlega vegna þess að útflutningsfyrirtæki eins og t.d. Elkem og Norðurál hafa fulla burði til að semja með sambærilegum hætti og gert var á hinum almenna vinnumarkaði í vor.  Sem dæmi þá má nefna að afurðaverð á kísiljárni hefur hækkað gríðarlega á síðustu tveimur árum og nemur sú hækkun 116% fyrir utan gengisbreytingar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image