• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Jan

Iðnaðarráðherra í heimsókn á Grundartanga

Össur Skarphéðinsson, iðnaðar- og byggðamálaráðherra heimsótti í gær iðnfyrirtæki á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Fyrst var komið við hjá Skaganum hf. á Akranesi en eftir fund með stjórnendum fyrirtækisins var haldið á Grundartanga þar sem Járnblendiverksmiðja Elkem á Íslandi var sótt heim. Með ráðherra í för var Guðbjartur Hannesson, samflokksmaður hans í NV kjördæmi.

Þeir Guðbjartur og Össur voru sammála um að ferðin hafi verið afar gagnleg og fróðlegt að kynnast áætlunum beggja fyrirtækjanna. “Hjá Skaganum eru vangaveltur um að fyrirtækið taki að sér fleiri verkefni. Megináhersla þeirra undanfarin ár hefur verið á kælitækni í matvælaiðnaði.

Þá hefur Skaginn keypt fyrirtæki í plötufrystingu á Ítalíu og hefur uppi áform um flutning þess hingað til lands. Forsvarsmenn Skagans kynntu fyrir okkur áhugaverða tækni sem fyrirtækið býr yfir og vaxtarmöguleika þess á Akranesi,” sagði Guðbjartur.

Á Grundartanga skoðuðu þingmennirnir starfsemi Elkem á Íslandi og framtíðaráhorfur fyrirtækisins. “Elkem hefur lagt áherslu á verksmiðjuna á Grundartanga og þar hefur orðið mikil uppbygging með aukinni framleiðslu. Við kynntum okkur hugmyndir um sólarkísilverksmiðju en í umsókn um endurnýjað starfsleyfi fyrirtækisins á Grundartanga er opnað fyrir þann möguleika að slík verksmiðja verði byggð upp á Grundartanga.

Baráttan í því máli stendur hinsvegar milli nokkurra landa, þ.á.m. Kanada, Indónesía, Malsasía auk Íslands. Í umræðum kom fram að ráðherra leist mjög vel á áætlanir beggja fyrirtækjanna sem við heimsóttum í ferðinni og ljóst að þar búa mikil sóknarfæri t.d. í uppbyggingu mannfrekrar framleiðslu. Hjá Elkem er verið að tala um allt að 350 manna nýjan vinnustað ef þetta gengi allt eftir. Sjálfsagt verður mest samkeppni um sólarkísilverksmðjuna frá Kanada er þar í landi er mikil fyrirgreiðsla til nýsköpunar í fyrirtækjum í dreifbýli. Því verður þetta hörð samkeppni við Kanadamenn um þetta nýja fyrirtæki og afar fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins,” sagði Guðbjartur að lokum.

 Frétt á Skessuhorni

07
Jan

Unnið er að útreikningum á launahækkunum starfsmanna Norðuráls

Þegar gengið var frá kjarasamningi Norðuráls árið 2005 var í honum kveðið á um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Fjölmargir starfsmenn Norðuráls hafa haft samband við skrifstofu félagsins að undanförnu til að fá upplýsingar um hver hækkunin verður á launum þeirra frá og með 1. janúar 2009.

Formaður félagsins hefur svarað starfsmönnum Norðuráls á þann veg að hann líti svo á að þær meðaltals hækkanir sem komu til handa starfsmönnum Elkems og Alcan komi til hækkunar hjá starfsmönnum Norðuráls.  Annað komi ekki til greina af hálfu Verkalýðsfélags Akraness. Einfaldlega vegna þess að skilningur Verkalýðsfélags Akraness á þessari grein er alveg hvellskýr, hann er sá að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu hækkunum og um samdist við Elkem Ísland og Alcan nýverið enda séu það fyrirtæki sem eru í sambærilegum orkufrekum iðnaði og eru að selja sínar afurðir á erlendum mörkuðum.

Forsvarsmenn Norðuráls eru nú að leggja lokahönd á útreikninga á þeirri hækkun sem mun koma til handa starfsmönnum og vonast formaður til þess að niðurstaða liggi fyrir á föstudaginn nk. en það var sá tímarammi sem formaður og starfsmannastjóri Norðuráls höfðu komið sér saman um.

Kjarasamningur Elkem gaf starfsmönnum frá 17% hækkun upp í rúm 18% við undirskrift samningsins eða frá 46.000 uppí 56.000 króna hækkun á mánuði við undirskrift.

06
Jan

Gengur hægt

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá á Verkalýðsfélag Akraness í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa en þeir sjá um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu ásamt því að þjónusta bæði Norðurál og Elkem Ísland.

Vinna starfsmanna Klafa hefur aukist umtalsvert á liðnum árum vegna þeirrar þenslu sem verið hefur á Grundartangasvæðinu samhliða stækkun Norðuráls og Elkems Íslands. Sem dæmi þá komu 271 skip í Grundartangahöfn á síðasta ári sem er töluverð fjölgun frá árinu áður.

Kjarasamningur Klafa rann út 1. desember og hafa viðræður því miður gengið afar treglega og er þar vægt til orða tekið. Krafa félagsins er skýr en hún er sú að launahækkanir verði með sama hætti og þær hækkanir sem starfsmenn Elkem Ísland fengu, en þeir eru á sama starfssvæði og starfsmenn Klafa starfa á. Samningur Elkem gaf starfsmönnum frá rúmum 17% við undirskrift og upp í 22% á samningstímanum.

Deilan hefur verið hjá ríkissáttasemjara og hefur verið nokkuð snörp, en vonast formaður félagsins til að aðilar nái saman í byrjun næstu viku en þá hefur ríkissáttasemjari boðað til fundar. Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki hvika frá þeirri kröfu að hækkanir til starfsmanna Klafa verið með sama hætti og hjá starfsmönnum Elkem Ísland.

05
Jan

Nýtt deiliskipulag fyrir 100 iðnaðarlóðir á Grundartanga

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá telur formaður félagsins félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness standa eins vel og hægt er að hugsa sér miðað við þann ólgusjó sem atvinnulífið siglir í gegnum þessa mánuðina. Ástæðu þessarar góðu stöðu má rekja til þeirrar jákvæðu og miklu uppbyggingu sem verið hefur á Grundartangasvæðinu á liðnum árum. Ekki spillir fyrir að auglýst hefur verið nýtt deiliskipulag fyrir allt að 100 iðnaðarlóðir á Grundartangasvæðinu.

Það er alveg ljóst að fjölmörg iðnaðarfyrirtæki hafa hug á að flytja starfsemi sína upp á Grundartanga í náinni framtíð og mun það styrkja félagssvæðið enn frekar og mjög líklegt að Grundartangasvæðið verði eitt alstærsta iðnaðarsvæði landsins til lengri tíma litið.

Eftirfarandi frétt birtist í Viðskiptablaðinu í dag:

Auglýst hefur verið nýtt deiliskipulag fyrir Klafastaðahluta Grundartangans þar sem til verða yfir 100 iðnaðarlóðir sem að sögn Gísla Gíslasonar, framkvæmdastjóra Faxaflóahafna, verður spennandi kostur fyrir alls kyns atvinnustarfsemi.

Ætlunin er að stækka athafnasvæðið til vesturs og nýta þannig hafnarsvæðið betur. Gísli sagði mikilvægt að hafa lokið skipulagsvinnu til að geta boðið nýjum aðilum upp á lóðir.

Að sögn Gísla hafa nokkrir áhugasamir aðilar verið að spyrjast fyrir um lóðir og er þar m.a. fyrirspurn Elkem Solar um lóð undir afar spennandi framleiðslu á kísilflögum. Félagið er nú að skoða 3 til 4 staði fyrir slíka verksmiðju og sagði Gísli að spennandi væri að sjá hvað kæmi út úr því.

Sömuleiðis er í gangi viljayfirlýsing gangvart Greenstore sem hefur hug á að setja upp netþjónabú. Sú yfirlýsing gildir út júní á þessu ári.

05
Jan

Skatthlutfall og persónuafsláttur 2009

Skatthlutfall í staðgreiðslu árið 2009 er 37,2%. Skatthlutfall barna, þ.e. þeirra sem fædd eru 1994 eða síðar, er 6% af tekjum umfram frítekjumark barna sem er kr. 100.745.

Persónuafsláttur
Persónuafsláttur er kr. 506.466 á ári, eða kr. 42.205 á mánuði.
Heimilt er að nýta allan (100%) ónýttan persónuafslátt maka á árinu 2009. 

Einn mánuður kr. 42.205
Hálfur mánuður kr. 21.103
Fjórtán dagar kr. 19.426
Ein vika kr. 9.713


Ef launatímabil er annað en að ofan greinir skal ákvarða persónuafslátt þannig:
506.466 / 365 x dagafjöldi launatímabils

Sjá nánar á vef Ríkisskattstjóra .

Hér er að finna reiknivél en skrá þarf launafjárhæð, iðgjald í lífeyrissjóð og hlutfall persónuafsláttar sem það skattkort sýnir sem nýtt er hjá launagreiðanda.

05
Jan

Tilkynning frá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi

Námsvísir vorannar hefur komið inn um lúguna um þetta leyti, en brugðið verður út af vananum í þetta sinn. Ástæðan er sú að Símenntunarmiðstöðin á 10 ára afmæli á þessu ári eða 19. febrúar nk.

Af því tilefni hefur stjórn stofnunarinnar skipað afmælisnefnd sem mun vinna að veglegu afmælisblaði sem verður gefið út á vormánuðum.  Einnig er fyrirhugað að halda upp á þessi tímamót með ýmsu móti sem mun vara allt afmælisárið.

Námskeið vorannar verða birt á vefnum okkar www.simenntun.is og einnig munu námskeið verða auglýst í staðarmiðlum og með öðrum hætti jafnt og þétt alla vorönnina.

Við vonum að þetta valdi ekki óþægindum og hlökkum til að vinna áfram  að því að byggja upp öfluga  stofnun á sviði sí- og endurmenntunar á Vesturlandi.

Ef þú hefur ósk um námskeið eða ábendingar um bætta þjónustu þá sendu endilega póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  eða hringdu í okkur í síma 437-2390.

Með afmæliskveðjum,

Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image