• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Atvinnurekendur úr stjórnum lífeyrissjóða og frysting verðtryggingar

Á forsíðu Fréttablaðsins þann 27. desember sl. var viðtal við forseta Alþýðusambands Íslands þar sem hann taldi endurskoðun kjarasamninga í uppnámi. Ástæða þess að forseti ASÍ telur samningana í uppnámi segir hann vera þá að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt áhuga á samstarfi við verkalýðshreyfinguna og einnig óánægja með fjárlagafrumvarpið og vill verkalýðshreyfingin sjá frekari breytingar á eftirlaunafrumvarpinu. Undir þessi sjónarmið tekur stjórn Verkalýðsfélags Akraness með ASÍ

Einnig telur stjórn Verkalýðsfélags Akraness að nýta eigi ákvæði um endurskoðun kjarasamninga til að knýja ríkisstjórn Íslands til þess að frysta verðtrygginguna á meðan mesta verðbólguskotið gengur yfir. Það liggur fyrir að eignir almennings eru að brenna upp í þeirri óðaverðbólgu sem nú geisar hér á landi og það gengur ekki upp að lífeyrissjóðir, bankar og fjármagnseigendur séu þeir einu sem hagnist á því verðbólguskoti sem nú geisar. Það er lag núna að beita ákvæði um endurskoðun kjarasamninga til að knýja á um frystingu verðtryggingar.

Það á einnig að gera þá kröfu á samtök atvinnulífsins við endurskoðun kjarasamninga að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða því það er á engan hátt eðlilegt að atvinnurekendur séu að véla með lífeyrir launafólks. Þetta á að vera eitt af grundavallaratriðum við endurskoðun kjarasamninga að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða.

Ekki alls fyrir löngu var fjallað um það hér á heimasíðunni hversu óeðlilegt það sé að atvinnurekendur sitji í stjórnum þessara sjóða. Það var því mjög ánægjulegt að sjá að sjómannadeild Framsýnar á Húsavík ályktaði nýverið um að gerð verði krafa um að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða. Það þyrfti að kanna hvort að það sé ekki orðinn víðtækur stuðningur innan verkalýðshreyfingarinnar um þetta atriði því eins og áður sagði þá nær það engri átt að atvinnurekendur séu að taka ákvarðanir um fjárfestingarstefnu sjóðanna, þeir eru jú lífeyrir okkar félagsmanna og einnig eru þetta kjarasamningsbundin réttindi sem um hefur verið samið í kjarasamningum.

30
Dec

Lækkun krónunnar hefur jákvæð áhrif á laun sjómanna

Í gær var haldinn aðalfundur Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness.  Auk venjubundinna aðalfundastarfa þá var nýgerður kjarasamningur sjómanna kynntur og voru fundarmenn almennt nokkuð sáttir við hann þó vissulega séu alltaf einhver atriði samningsins sem menn hefðu viljað sjá með öðrum hætti.

Fram kom hjá fundarmönnum að þetta ár er búið að vera almennt nokkuð fengsælt fyrir sjómenn en hrun íslensku krónunnar hefur leit til þess að laun sjómanna hafa hækkað umtalsvert á árinu sem nú er að líða. 

28
Dec

Sjómenn munið aðalfund Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness á morgun

Verkalýðsfélag Akraness vill minna sjómenn á aðalfund Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness á morgun.  Fundurinn hefst kl. 14:00 og verður hann í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Á fundinum á morgun verður nýgerður kjarasamningur sjómanna til umfjöllunar.  Samningurinn er framlenging á síðast gildandi samningi með þeim breytingum sem fram koma í þessum samningi.

Atkvæði um kjarasamninginn verða greidd hjá hverju aðildarfélagi fyrir sig og á atkvæðagreiðslu að ljúka fyrir áramót. Í upphafi næsta árs verða atkvæði síðan talin sameiginlega hjá aðildarfélögum SSÍ um samninginn.

Verði samningurinn samþykktur hækkar kauptrygging og launaliðir frá 1. janúr 2009. Hægt er að nálgast samninginn og kaupgjaldsskrána á heimasíðu Sjómannasambandsins http://www.ssi.is/

25
Dec

Gleðileg jól

Starfsmenn og stjórn Verkalýðfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með þökk fyrir samfylgdina á liðnum árum.

23
Dec

Stál í stál

Nú á Verkalýðsfélag Akraness eftir að ganga frá einum kjarasamningi í þessari samningalotu, en það er kjarasamningur fyrir starfsmenn Klafa.  Starfsmenn Klafa sjá um allar upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu ásamt því að þjónusta bæði Norðurál og Elkem Ísland.

Eigendur Klafa eru stóriðjufyrirtækin á Grundartanga þ.e.a.s Norðurál og Elkem Ísland en þau eiga 50% hvort um sig.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins að undanförnu vegna þessa kjarasamnings en hann rann út 1. desember sl.  Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá samdi félagið við Elkem Ísland um nýjan kjarasamning og er sá kjarasamningur að gefa starfsmönnum 17,7% við undirskrift og uppí rúm 22% á samningstímanum.

Samtök atvinnulífsins lagði hins vegar fram tilboð að nýjum kjarasamningi Klafa fyrir nokkrum dögum en það tilboð var ekki í neinu samræmi við það sem um var samið fyrir starfsmenn Elkem fyrr í þessum mánuði.  Rétt er að það komi fram að starfsmenn Klafa voru eitt sinn starfsmenn Elkem og tóku laun eftir þeim samningi, en fyrir nokkrum árum var nokkrum deildum innan fyrirtækisins skipt upp og stofnuð fyrirtæki í kringum þær deildir.

Á þeirri forsendu er það óskiljanlegt að eigendur Klafa skuli hafa lagt fram tilboð til handa starfsmönnum Klafa sem kveður á um lakari hækkanir en um var samið hjá Elkem.  Það er ekki bara það að starfsmönnum Klafa hafi verið boðið lakari hækkanir en starfsmönnum Elkem, heldur vildu Samtök atvinnulífsins einnig að kjarasamningur Klafa yrði gerður að fyrirtækjasamningi.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun alls ekki ganga frá samningi fyrir starfsmenn Klafa sem kveður á um lakari hækkanir og réttindi heldur en um var samið til handa starfsmönnum Elkem, frá þeirri kröfu verður ekki kvikað. 

Einnig liggur það fyrir að starfsmenn munu ekki samþykkja að breyta sínum kjarasamningi í fyrirtækjasamning.  Nú er bara að vona að eigendur Klafa og SA sjái að sér svo hægt verði að klára nýjan kjarasamning eins fljótt og kostur er, ella er allt eins líklegt að það stefni í átök til að ná fram þeirri sanngjörnu kröfu að starfsmenn Klafa fái sömu hækkanir og um var samið handa starfsmönnum Elkem Ísland fyrr í þessum mánuði. 

22
Dec

Elkem skoðar möguleika á sólarkísil verksmiðju á Grundartanga

Á vef Skessuhorns birtist þessi frétt.  Í tengslum við að Elkem á Íslandi, sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, vinnur nú að því að endurnýja starfsleyfi sitt, eru einnig uppi áform um að reisa þar sólarkísilverksmiðju. Elkem hugar nú að staðsetningu fyrir slíka verksmiðju sem framleiddi sólarrafhöðlur, m.a. í tjald- og fellihýsi.

Hörð samkeppni er um þessa nýju verksmiðju Elkem enda gæti hún skapað 200-300 störf.  Einar Þorsteinsson, forstjóri ELKEM á Íslandi, sagði í fréttum RUV að Grundartangi sé vel til þess fallinn að hýsa nýju verksmiðjuna og að í nýja starfsleyfinu sé óskað eftir heimild fyrir henni. Einar segir um sé að ræða 10.000 tonna verksmiðja, en ákvörðun um staðsetningu hennar verði tekin á næsta ári.

Verði Grundartangi fyrir valinu gæti þessi nýja verksmiðja risið innan fárra ára. Einar bendir á að margir aðrir staðir í heiminum komi einnig til greina, svo sem í Asíu og Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Þarna sé aðallega spurning um hagstæðustu orkumöguleikana.

Einar segir að Ísland standi vel að því leyti að hér sé Elkem með járnblendiverksmiðju, en kísilsólarframleiðslan er mjög tengd slíkri framleiðslu. Einar telur líklegt að samkeppnin verði hörðust við Kanada, sökum þess að þar starfræki Elkem járnblendiverksmiðju.

Það yrði gríðarlega jákvætt ef þessi framleiðsla yrði að veruleika og myndi slík verksmiðja styrkja stoðir okkar Akurnesinga í atvinnumálum enn frekar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image