• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Samkomulag SA og ASÍ ekki í atkvæðagreiðslu Launahækkunum 1. mars hefur verið frestað
26
Feb

Samkomulag SA og ASÍ ekki í atkvæðagreiðslu

Í gær náðist samkomulag á milli ASÍ og SA um frestun á endurskoðun og framlengingu kjarasamninga. Þetta þýðir að þeim launahækkunum sem hefðu átt að koma inn þann 1. mars nk. hefur nú verið frestað. Í samkomulaginu felst að ákvörðun um framlengingu og endurskoðun verði tekin eigi síðar en 30. júní á þessu ári. 

Þrátt fyrir frestun launahækkana náðist mikilvægur áfangi er varðar kauptryggingu lægstu launa. Frá og með 1. mars hækkar lágmarkstekjutrygging úr kr. 145.000 í kr. 157.000 eða um 12.000 krónur. Þessi upphæð verður lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf (173,33 tíma á mánuði).  Þetta var einn af þeim þáttum sem fimm aðildarfélög á landsbyggðinni hafa verið að benda á, að það gangi alls ekki upp að vera með lágmarkslaun lægri en atvinnuleysisbætur og því mikilvægt að þessi áfangi skuli hafa náðst.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness vildi ekki fresta endurskoðun og þeim launahækkunum sem áttu að koma til 1. mars nk.  Því miður taldi meirihluti verkalýðshreyfingarinnar þá leið heppilegri og líklegri til árangurs, en því var VLFA ósammála.  Með öðrum orðum, það fór fram lýðræðisleg umræða um hvaða leið skyldi farin varðandi frestun launahækkana og fimm stéttarfélög á landsbyggðinni urðu undir í sinni skoðun og við því er ekkert að gera, enda virkar lýðræðið með þeim hætti að meirihlutinn ræður.

Hins vegar er formaður félagsins afar ósáttur við þá ákvörðun samninganefndar ASÍ að bera ekki samkomulagið sem gert var við Samtök atvinnulífsins undir þá félagsmenn sem vinna eftir umræddum kjarasamningum í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra.  Þessi fimm félög á landsbyggðinni höfðu lagt fram tillögu á formannafundi ASÍ þess efnis að slíkt skyldi gert þegar samkomulagið lægi fyrir við SA. Því miður varð samninganefnd ASÍ ekki við þessari ósk þeirra fimm landsbyggðafélaga.

Það geta ekki kallast lýðræðisleg vinnubrögð að fara ekki með þetta stórar ákvarðanir í atkvæðagreiðslu, ákvarðanir sem lúta að því að vinnandi fólk fær ekki sínar umsömdu launahækkanir samkvæmt gildandi kjarasamningi.

Almenningur í þessu landi kallar eftir því að ástunduð séu lýðræðisleg vinnubrögð í íslensku samfélagi, þau vinnubrögð að leggja frestun kjarasamninga ekki undir hinn almenna félagsmann í allsherjaratkvæðagreiðslu flokkast ekki sem lýðræðisleg vinnubrögð, svo mikið er víst.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image