• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jan

Starfsmenn Klafa hafa ákveðið að grípa til vinnustöðvunar

Í dag átti formaður félagsins fund með öllum starfsmönnum Klafa vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við eigendur fyrirtækisins og Samtök atvinnulífsins.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá lagði ríkissáttasemjari fram innhússáttatillögu til lausnar á deilunni á fundi í fyrradag. 

Það kom einnig fram hér á heimasíðunni í gær að formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður voru tilbúnir að ganga að fyrirlagðri sáttatillögu ríkissáttasemjara og leggja hana til atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna til að koma í veg fyrir að deilan myndi fara í algeran hnút. Því voru það gríðarleg vonbrigði að eigendur Klafa, sem eru Norðurál og Elkem Ísland, höfnuðu í gær sáttatillögu ríkissáttasemjara algerlega sem gerir það að verkum að deilan er nú nánast illleysanleg.

Formaður félagsins og starfsmenn hörmuðu þessa afstöðu eigenda Klafa og Samtaka atvinnulífsins og telja það mikið ábyrgðarleysi af þeirra hálfu að hafna tillögu ríkissáttasemjara jafn afdráttarlaust og fram kom á fundinum í gær. Það er einnig grafalvarlegt að Samtök atvinnulífsins virðast vera að nýta sér það alvarlega ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði með því að hafna algerlega að ganga frá kjarasamningi við starfsmenn Klafa á svipuðum nótum og gert var við starfsmenn Elkem Ísland.

Grundvallaratriðið í þessari deilu er að búið er að semja fyrir starfsmenn Elkem Ísland sem starfa á sama starfsvæði, en gengið var frá þeim samningi í byrjun desember, eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni. Byggðist krafa félagsins á sambærilegum hækkunum og þar um samdist enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland.

Einnig er rétt að minna á að þessi samningur er einn af þeim örfáu sem á eftir að ganga frá í samningahrinu síðastliðins árs. Á þeirri forsendu er algjörlega óþolandi að SA ætli sér að skilja eftir þann hluta starfsmanna sem á eftir að ganga frá sínum samningum frá liðnu ári með jafn afgerandi hætti og tillaga SA hljóðar upp á.

Vegna þeirrar ákvörðunar Samtaka atvinnulífsins og eigenda Klafa að hafna sáttatillögu frá ríkissáttasemjara alfarið ákváðu starfsmenn að kjósa um verkfallsheimild og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.  Formaður reiknar með að verkfallið muni hefjast eftir um 12 daga.  Ugglaust eru einhverjir hissa á því að starfsmenn ætli að gripa til verkfallsvopnsins á þeim tímum eins og nú ríkja í íslensku samfélagi.  Rétt er ítreka það enn og aftur að búið er að semja við aðra starfsmenn á sama vinnusvæði með allt öðrum hætti en starfsmönnum Klafa er boðið af Samtökum atvinnulífsins, á þeirri forsendu sjá starfsmenn sig knúna til að grípa til aðgerða.

28
Jan

Samtök atvinnulífsins höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara

Í morgun átti formaður félagsins ásamt trúnaðarmanni starfsmanna Klafa fund með Samtökum atvinnulífsins þar sem ríkissáttasemjari lagði fram innanhúss sáttatillögu í þeirri kjaradeilu sem staðið hefur yfir frá því að kjarasamningur rann út þann 1. desember sl.

Deiluaðilar hafa fundað 7 sinnum frá því að kjarasamningurinn rann út og hefur deilan lítið þokast. Á grundvelli þess ákvað ríkissáttasemjari að leggja fram áðurnefnda innanhússtillögu, en sú tillaga tók tillit til sjónarmiða beggja aðila og hljóðaði uppá á hækkun grunnlauna frá 1. desember sl. upp á 10%. Heildarhækkun samningsins ef tillaga sáttasemjara hefði náð fram að ganga hefði gefið starfsmönnum á fyrsta ári samningsins hækkun upp á 13-15%.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður voru tilbúnir að ganga að þessari sáttatillögu og leggja hana til atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna til að koma í veg fyrir að deilan myndi fara í algeran hnút. Því voru það gríðarleg vonbrigði að eigendur Klafa, sem eru Norðurál og Elkem Ísland, höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara algerlega sem gerir það að verkum að deilan er nú nánast illleysanleg.

Formaður félagsins harmar þessa afstöðu eigenda Klafa og Samtaka atvinnulífsins og telur það mikið ábyrgðarleysi af þeirra hálfu að hafna tillögu ríkissáttasemjara jafn afdráttarlaust og fram kom á fundinum. Það er einnig grafalvarlegt að Samtök atvinnulífsins virðast vera að nýta sér það alvarlega ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði með því að hafna algerlega að ganga frá kjarasamningi við starfsmenn Klafa á svipuðum nótum og gert var við starfsmenn Elkem Ísland.

Grundvallaratriðið í þessari deilu er að búið er að semja fyrir starfsmenn Elkem Ísland sem starfa á sama starfsvæði, en gengið var frá þeim samningi í byrjun desember, eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni. Byggðist krafa félagsins á sambærilegum hækkunum og þar um samdist enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland.

Einnig er rétt að minna á að þessi samningur er einn af þeim örfáu sem á eftir að ganga frá í samningahrinu síðastliðins árs. Á þeirri forsendu er algjörlega óþolandi að SA ætli sér að skilja eftir þann hluta starfsmanna sem á eftir að ganga frá sínum samningum frá liðnu ári með jafn afgerandi hætti og tillaga SA hljóðar upp á.

Það er ljóst að myndast hefur mikil gjá á milli félagsins og eigenda Klafa vegna þessarar afstöðu. Óhætt er að segja að staðan sé ekki vænleg en formaður mun funda með starfsmönnum á morgun þar sem tekin verður ákvörðun um framhaldið.

Fjallað var um málið á mbl.is í dag. Lesa má fréttina hér.

27
Jan

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar innilega ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að hefja hvalveiðar

Stjórn félagsins fagnar ákvörðun sjávarútvegsráðherraEinar Kr. Guðfinnsson fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf í morgun út reglugerð um veiðar á hrefnu og langreyði til næstu fimm ára og stóraukinn kvóta á þessum veiðitegundum. Leyfilegur heildarafli skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Þessi ákvörðun þýðir að leyfilegt er að veiða allt að 150 langreyðir á árinu og 200 hrefnur. Heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir. Ljóst er að þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra þýðir mikla innspýtingu í atvinnulífið á Vesturlandi. Talið er að 24 til 28 störf geti skapast í kringum hrefnuveiðar og vinnslu og þegar allt sé talið skapist yfir 200 störf kringum veiðar á hrefnu og langreyði.

Veiðar á langreyði hófust í atvinnuskyni haustið 2006 með leyfi til veiða á níu dýrum. Þær hafa legið niðri síðan vegna óvissu um sölu afurða. Nú hefur þeirri óvissu verið eytt, samkvæmt tilkynningu ráðherra. Því má búast við að aukið líf færist yfir athafnasvæði Hvals hf. í Hvalfirði með vorinu.

Eins og Skessuhorn greindi frá nýlega hafa samtök hrefnuveiðimanna beint augum að Akranesi sem framtíðarstað til útgerðar og vinnslu. Gunnar Bergmann Jónsson framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf. segir að ákvörðun ráðherrans sé mikið gleðiefni. Nú verði farið í að gera bátana þrjá klára og húsnæðið sem félagið hefur fengið undir starfsemina á Akranesi, þar sem hrefnukjötið verður unnið. Veiðarnar byrji síðan væntanlega fyrri hluta aprílmánaðar.

Sem kunnugt er hafa markaðir í Japan nú opnast á ný, en ráðherra hefur lagt áherslu á að markaðsmál væru tryggð áður en veiðar yrðu heimilaðar. Sú ákvörðun að veiðiheimildir séu til fimm ára er í samræmi við almenna venju innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þar eru veiðiheimildir, t.d. veiðiheimildir Bandaríkjanna, jafnan ákveðnar til 5 ára í senn.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að samtök hrefnuveiðimanna hafi beint augum sínum að Akranesi sem framtíðarstað til útgerðar- og vinnslu.  Rétt er að minna á að þegar þær níu langreyðar sem veiddar voru haustið 2006 voru þær Langreyðar að hluta til unnar hér á Akranesi og vonandi verður sá háttur einnig hafður á þegar veiðarnar hefjast á nýjan leik, enda myndi það verða töluverð innspýting inní atvinnulífið hér á Akranesi.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun sjávarútvegsráðherra innilega, enda ljóst að með þessari ákvörðun er verið að skapa ný störf hér á Akranesi og ekki veitir af í þeim erfiðleikum sem atvinnulífið á nú við að etja um þessar mundir.  Einnig telur stjórn félagsins öll vísindarleg rök sem mæli með því að hefja hvalveiðar að nýju. Enda er það okkar réttur að nýta okkar auðlindir að teknu tilliti til þeirrar veiðiráðgjafar sem hafrannsóknarstofnun Íslands hefur gefið.

Á vef Skessuhorns er sagt að fljótlega eftir að ákvörðun ráðherrans var kynnt í dag, hafi heyrst raddir innan flokkanna sem vinna að stjórnarmyndun, um að ákvörðun ráðherrans yrði hugsanlega hnekkt eftir að ný stjórn tæki við völdum.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun líta það mjög alvarlegum augum ef þeir flokkar sem nú vinna að stjórnarmyndun taki upp á því hnekkja þessari jákvæðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra, en slík ákvörðun myndi verða þess valdandi að á annað hundruð störf myndu ekki verða að veruleika.

27
Jan

Kjaradeilu Sementsverksmiðjunnar vísað til Ríkissáttasemjara

Samninganefnd Sementsverksmiðjunnar hefur vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.  Kjarasamningur starfsmanna Sementsverksmiðjunnar rann út 1. desember sl. en viðræður við SA um nýjan kjarasamning hafa ekki gengið sem skyldi hingað til.

Samninganefndin hefur átt nokkra fundi með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins að undanförnu en eins og áður hefur komið fram hafa þær viðræður ekki borið árangur.  Krafa starfsmanna Sementsverksmiðjunnar hljóðar uppá sambærilegar launahækkanir og um samdist hjá Elkem Ísland.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar á morgun í húsakynnum sáttasemjara og hefst fundurinn kl. 14.00 

26
Jan

Ríkissáttasemjari leggur fram sáttatillögu vegna kjarasamnings Klafa

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness verið að vinna að lausn á kjarasamningi starfsmanna Klafa en þeir sjá um upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu ásamt því að þjónusta eigendur sína sem eru Elkem Ísland og Norðurál en hvort fyrirtæki um sig á 50% í Klafa.

Krafa félagsins hefur verið skýr, að starfsmenn Klafa fái sambærilegar launahækkanir og um samdist hjá Elkem Ísland í desember sl. en sú hækkun hljóðaði upp á 17-18% við undirskrift samningsins. Það hefur einnig komið fram hér á heimasíðunni að starfsmenn Klafa eru fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland og á þeirri forsendu er afar erfitt að veita einhvern afslátt af þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram. 

Ríkissáttasemjari hefur tekið þá ákvörðun að leggja fram innanhúss sáttatillögu á fundi á miðvikudaginn og hefur hann verið að ráðfæra sig við deiluaðila. Er það mat félagsins að full ástæða sé til að skoða þá tillögu sem sáttasemjari er að vinna að. Á fundinum á miðvikudaginn mun það koma í ljós hvort deiluaðilar munu ná saman eða ekki og vill formaður ekki hugsa þá hugsun til enda ef niðurstaða fæst ekki í þetta mál á miðvikudaginn kemur því þá er ljóst að deilan er komin í algert öngstræti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image