• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Feb

Kjarasamningur Klafa samþykktur með 90% greiddra atkvæða

Í gær var haldinn kynningarfundur vegna nýs kjarasamnings starfsmanna Klafa og fór formaður yfir helstu atriði samningsins með starfsmönnum. Að lokinni kynningu voru greidd atkvæði um samninginn og var hann samþykktur með 90% greiddra atkvæða.

Starfsmenn voru almennt sáttir með að tekist hefði að ganga frá kjarasamningi sem gerði það að verkum að ekki þurfti að grípa til vinnstöðvunar sem átti að hefjast 12. þessa mánaðar. Eins og fram hefur komið þá gildir samningurinn frá 1. desember sl. og munu starfsmenn því fá afturvirkni samningsins greidda í næstu útborgun.

03
Feb

Kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness vegna Klafa við Samtök atvinnulífsins lokið

Síðdegis í gær skrifuðu formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður starfsmanna undir nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa.  Nýi kjarasamningurinn gildir frá 1. desember 2008 til 31. desember 2010.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá voru starfsmenn búnir að samþykkja að grípa til vinnustöðvunar 12. febrúar nk. ef ekki hefði tekist að semja fyrir þann tíma.

Í þessum samningi er búið til nýtt bónuskerfi sem getur gefið allt að 10% en gamla bónuskerfið gaf að hámarki 7%.  Samningsaðilar eru sammála því að hið nýja bónuskerfi eigi að geta skilað starfsmönnum að jafnaði 7% sem er um 2% meira en í því bónuskerfi sem nú er verið að leggja niður.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka úr 210.110 kr. í 243.000 kr. eða sem nemur 32.980 kr.  Einnig mun veikindadögum vegna barna fjölga úr 10 í 12. 

Eins og áður hefur komið fram þá gildir samningurinn frá 1. desember og mun byrjandi hækka í launum við undirskrift um tæpar 30.000 kr. eða sem nemur tæpum 12%. Starfsmaður sem unnið hefur í 10 ár hjá fyrirtækinu mun hækka um rúmar 35.000 kr eða sem nemur 13,14% við undirskrift.  Grunnlaun hjá byrjanda verða 175.640 kr. og eftir 10 ára starf 207.255 kr.

1. janúar 2010 munu byrjandalaun fara í 180.031 kr. og eftir 10 ára starf í 212.437 kr.  Á samningstímanum gefur samningurinn starfsmönnum hækkun sem nemur frá 14,8% uppí tæp 16%

Formaður félagsins er nokkuð sáttur við þessa niðurstöðu og þá sérstaklega í ljósi þess alvarlega ástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.  Einnig er formaður ánægður með að allt bendi til þess að náðst hafi að forða þessari deilu frá því að enda í verkfalli sem hefði ekki verið gott í því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi.

Mun formaður kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum í dag og að lokinni kynningu munu starfsmenn kjósa um samninginn.

02
Feb

Aðalfundir deildanna hefjast í kvöld

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness minnir félagsmenn Almennrar deildar félagsins á aðalfund deildarinnar í kvöld. Hefst hann klukkan 18:00 og er í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Á morgun þriðjudag er aðalfundur Iðnsveinadeildar og á miðvikudaginn verður síðan aðalfundur Matvæladeildar. Hefjast þeir fundir einnig kl. 18:00 í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Dagskrá aðalfundanna er svohljóðandi:

1.  Venjubundin aðalfundarstörf

2.  Farið yfir stöðu kjarasamninga

3.  Önnur mál

30
Jan

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar vegna kjaradeilu Klafa og Samtaka atvinnulífsins

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá ákváðu starfsmenn Klafa að boða til verkfalls vegna þeirrar ákvörðunar eigenda Klafa og Samtaka atvinnulífsins að hafna innanhússsáttatillögu ríkissáttasemjara. Það var mat formanns Verkalýðsfélags Akraness og starfsmanna að viðræðurnar væru algjörlega komnar í hnút.

Rétt í þessu hafði ríkissáttasemjari samband við formann Verkalýðsfélags Akraness og tilkynnti honum að boðað væri til fundar á mánudaginn nk. kl. 14:00 til að ræða þá stöðu sem upp er komin. Það er einlægur vilji Verkalýðsfélags Akraness og starfsmanna að hægt verði að leysa þessa deilu til að afstýra þeirri vinnustöðvun sem nú er í uppsiglingu.

Það er hlutverk ríkissáttasemjara að reyna að koma í veg fyrir vinnustöðvanir og verður fundurinn á mánudaginn að skera úr um hvort það tekst eða ekki. 

Fjallað var um málið í hádegisfréttum RUV. Hægt er að hlusta á fréttina hér.

30
Jan

Jákvæðar fréttir frá forstjóra HB Granda

Forstjóri HB-GrandaForstjóri HB-GrandaÍ dag er viðtal við forstjóra HB Granda á vef Skessuhorns þar sem kemur fram að landvinnslan hér á Akranesi geti hugsanlega aukist vegna 30 þúsund tonna aukningar á þorski sem sjávarútvegsráðherra tilkynnti ekki alls fyrir löngu.

Þetta eru afar jákvæð tíðindi ef niðurstaðan verður sú að fjölga þurfi starfsfólki í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur fiskvinnslufólki fækkað umtalsvert á liðnum árum.

Þetta sagði Eggert Guðmundsson forstjóri HB Granda í viðtali við Skessuhorn:

Við höfum ekki verið að auka þorskinn til frystiskipanna og mér sýnist að aukningin í þorskinum muni fara í ísfiskiskipin. Sá fiskur færi þá til vinnslu á Akranesi. Það eru því líkur á því að vinnslan aukist eitthvað á Akranesi á árinu. Við bíðum átekta vegna óvissu á mörkuðum og erum fyrst og fremst að reyna að laga veiðar og vinnslu að stöðunni eins og hún er í dag,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri HB Granda í samtali við Skessuhorn fyrr í vikunni.  Sem kunnugt er var starfsmönnum landsvinnslu HB Granda á Akranesi fækkað stórlega og til uppsagna kom í kjölfar skerðingar á þorskkvótanum úr 190.000 tonnum niður í 130.000 í byrjun næstsíðasta kvótaárs. Nú þegar þessi skerðing hefur gengið hálfa leið til baka virðast góðar líkur á að vinnslan aukist eitthvað að nýju, en Eggert segir ekki hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær það komi til, væntanlega ekki fyrir en líður á árið og heldur ekki tímabært að segja til um hversu mikið fjölga muni í vinnslunni að nýju.

„Það fer hreinlega eftir því hvernig markaðirnir fyrir þorskinn þróast á næstunni, hversu mikið verkafólk á Skaganum kemur til með að njóta aukningar þorskkvótans,“ segir Eggert. Frá miðju síðasta sumri hafa rúmlega 20 manns unnið við landvinnslu HB Granda á Akranesi og um fimm manns sem áður unnu þar sótt vinnu í fiskiðjuverinu í Reykjavík.

29
Jan

Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaður óska eftir opnum bæjarmálafundi um hvalveiðar með þingmönnum NV-kjördæmis

Formaður Verkalýðsfélags Akraness ætlaði vart að trúa fréttum sem honum bárust til eyrna gær um að væntanleg ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna hygðist hnekkja ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til veiða á langreyði og hrefnu til ársins 2013.

Það liggur fyrir að með þessari ákvörðun er verið að skapa allt að 300 ný störf í þessu landi sem er um hundrað störfum fleiri en hjá Járnblendifélaginu Elkem Ísland á Grundartanga. Með öðrum orðum má segja að hér sé um hálfgerða vistvæna stóriðju að ræða. Ekki aðeins mun störfum fjölga hér umtalsvert heldur mun þetta skapa þjóðarbúinu umtalsverðar útflutningstekjur sem ekki veitir af nú á þeim erfiðu tímum sem íslenskt samfélag er að ganga í gegnum. Það væri fróðlegt að vita hjá komandi ríkisstjórn afturkalli hún þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra, hvaða nýju störf geta þau boðið okkur landsmönnum í staðinn?

Það liggur fyrir að hrefnuveiðimenn og Kristján Loftsson hjá Hval hf. hafa í hyggju að vera með starfsstöð sína að stórum hluta hér á Akranesi. Í dag eru um 300 Akurnesingar á atvinnuleysisskrá þannig að þessi ákvörðun um að heimila hvalveiðar myndi verða gríðarlega jákvæð innspýting í atvinnulífið hér á Akranesi.

Á þeirri forsendu er um mikla hagsmuni að ræða fyrir okkur Akurnesinga og nærsveitunga og ljóst að stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun ekki sætta sig við að komandi ríkisstjórn muni afturkalla þessa jákvæðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til hvalveiða.

Það liggur einnig fyrir að fjöldi hagsmunaaðila í sjávarútvegi, svo sem Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva hafa lýst yfir fullum stuðningi við þessa ákvörðun og með þeirri stuðningsyfirlýsingu eru þeir einnig að segja að þeir óttist ekki að hvalveiðar muni skaða markaði erlendis tengdum fiskútflutningi.  Samtök hvalskoðunarmanna hafa lýst yfir áhyggjum af því að hrefnuveiðar verði auknar og hafnar verið veiðar á langreyðum. Telja þeir að slíkt muni draga úr ferðaþjónustu. Hins vegar er það nú einu sinni þannig að allar rannsóknir sýna að ferðamönnum tengdum hvalveiðiskoðunum hefur fjölgað jafnt og þétt þó svo að stundaðar hafi verið hér hrefnuveiðar um alllanga hríð. Það er einnig rétt að rifja það upp að þegar að hvalveiðar voru stundaðar hér á árum áður þá kom fjöldinn allur af erlendum ferðamönnum í skoðunarferðir upp í hvalstöð þannig að það er mat formanns að það sé vel hægt að tengja saman hvalaskoðunarferðir og ferðir upp í hvalstöð þar sem erlendir ferðamenn geti séð þessi stórhveli í návígi.

Það var ótrúleg frétt sem birtist á Vísi.is í gær þar sem vitnað var í Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann Baugs og Icelandic verslunarkeðjunnar. Í viðtalinu segir hann að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar muni skaða eignir Íslendinga erlendis og vonast hann til að ný ríkisstjórn taki á þessu strax og láti þetta verða sitt annað verk að snúa þessari ákvörðun við.

Að Jón Ásgeir skuli voga sér að tala sér með þessum hætti, aðili sem virðist eiga stóran þátt í því neyðarástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi er með öllu óþolandi. Það á hins vegar að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að frysta eigur þessara manna sem hafa komið okkur Íslendingum í þessa skelfilegu stöðu sem við nú erum í. Jón Ásgeir hefur áhyggjur af ímynd þjóðarinnar, en það liggur hins vegar fyrir að það eru útrásarvíkingarnir sem fóru fram með græðgisvæðinguna eina að leiðarljósi sem eru búnir að eyðileggja ímynd þessa lands. Það er alveg ljóst að það verða ekki hvalveiðar sem munu skaða hana enda er það skylda okkar og réttur að nýta þær sjávarauðlindir sem við eigum að gefinni veiðiráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun.

Formaður hefur haft samband við forseta Alþingis og óskað eftir því við hann að haldinn verði opinn fundur með öllum þingmönnum kjördæmisins fljótlega í næstu viku. Þar verður til umræðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til hvalveiða að nýju.  Tók forseti Alþings vel í þessa hugmynd og ætlar að hafa samband við þingmenn kjördæmisins til að finna hentugan tíma í næstu viku.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill sjá hver afstaða þingmanna kjördæmisins er til þessara jákvæðu ákvörðunar sjávarútvegsráðherra enda mun þessi ákvörðun, ef hún fær að standa óhögguð, skapa tugi nýrra starfa hér á Akranesi og skapa umtalsverðar útflutningstekjur fyrir þjóðarbúið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image