• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Jan

Mikið annríki

Það er mikið annríki hjá félaginu þessa dagana en félagið vinnur nú að lausn á tveimur kjarasamningum, annars vegar málum starfsmanna Norðuráls og hins vegar nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa.

Í dag verður fundað um launahækkanir hjá starfsmönnum Norðuráls. Hefst sá fundur kl 14:00 í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefna samningsaðilar að því að ná niðurstöðu fyrir 20. janúar nk.

Á mánudaginn verður fundað um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Klafa og stjórnar ríkissáttasemjari þeim viðræðum, en sá samningur rann út 1. desember á síðastliðnu ári.

Viðræðurnar vegna kjarasamnings Klafa hafa gengið fremur treglega hingað til.  Það eru tvö atriði sem standa útaf í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna Klafa en þau mál lúta að nýju bónuskerfi fyrir starfsmenn Klafa og einnig hver almenn launahækkun skuli vera.

Eins og staðan er í dag þá virðast samningsaðilar vera að ná niðurstöðu varðandi nýtt bónuskerfi, en eftir stendur ágreiningur um hver launahækkunin eigi að vera.  En krafa félagsins er sú að laun starfsmanna Klafa skuli taka sömu hækkunum og starfsmenn Elkem Ísland fengu í sínum samningum, enda er um sama vinnusvæði um að ræða. 

15
Jan

Fundað um launahækkun starfsmanna Norðuráls

Í gær var fundað með forsvarsmönnum Norðuráls vegna launahækkana starfsmanna sem taka eiga gildi frá frá 1. janúar 2009.

En eins áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er kveðið á um í kjarasamningi Norðuráls frá árinu 2005 að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Ekki náðist niðurstaða á fundinum í gær en á fundinum voru samningsaðilar að fara yfir áðurnefnt ákvæði og skipst var á skoðunum um hvernig túlka eigi ákvæðið.    

Skilningur VLFA er að átt sé við Alcan og járnblendiverksmiðjuna Elkem Ísland þegar talað er um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði. Það liggur fyrir að starfsmenn Elkem fengu launahækkun frá 17% uppí 18,4% við undirskrift.  Samkvæmt upplýsingum frá hagfræðingi ASÍ þá gaf kjarasamningur Alcan eitthvað minna heldur kjarasamningur Elkem.

Samningsaðilar voru sammála um að reyna eftir fremsta megni að vera búnir að ná niðurstöðu um launahækkunina fyrir 20. janúar nk. en næsti fundur verður haldinn á morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara.

13
Jan

Fundað hjá ríkissáttasemjara

Fundað var hjá ríkissáttasemjara í gær vegna kjarasamnings starfsmanna Klafa en þeir sjá um út- og uppskipanir á Grundartangasvæðinu. Á fundinum í gær var lögð fram tillaga að nýju bónuskerfi til handa starfsmönnum Klafa og lítur sú tillaga ágætlega út að því frátöldu að félagið hefur gert nokkrar breytingartillögur sem félagið eygir von um að tekið verði tillit til.

Hins vegar gengur aðilum erfiðlega að ná saman hvað varðar launahækkanir en krafa starfsmanna og félagsins er sú að launahækkanir til handa starfsmönnum Klafa verði með sambærilegum hætti og gerðist hjá Elkem Ísland. En samningur Elkem gaf starfsmönnum á bilinu 17-18,4% við undirskrift. Það er krafa sem starfsmenn og félagið munu ekki hvika frá.

Ríkissáttasemjari mun boða til næsta fundar og er sá fundur fyrirhugaður á föstudaginn eða á mánudaginn næstkomandi.

12
Jan

Fundað vegna kjarasamnings Sementsverksmiðjunnar

Trúnaðarmenn Sementsverksmiðjunnar funduðu með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins á föstudaginn var en kjarasamningur Sementsverksmiðjunnar rann út 1. desember 2008.

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins lögðu fram tilboð vegna nýs kjarasamnings og er hann nú til skoðunar hjá trúnaðarmönnum og þeim félögum sem eiga aðild að kjarasamningnum. Fundað verður fljótlega vegna þessa tilboðs sem borist hefur frá Samtökum atvinnulífsins. 

10
Jan

Ekki komin niðurstaða ennþá

Því miður liggur ekki ennþá fyrir niðurstaða um það hver launahækkun starfsmanna Norðuráls verður og mun gilda frá 1. janúar 2009.  En eins áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er kveðið á um í kjarasamningi Norðuráls frá árinu 2005 að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði. 

Skilningur VLFA er að átt sé við Alcan og járnblendiverksmiðjuna Elkem Ísland þegar talað er um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði. Það liggur fyrir að starfsmenn Elkem fengu launahækkun frá 17% uppí 18,4% við undirskrift en formanni er ekki fullkunnugt um hver launahækkun Alcan var.

Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins hefur þá liggur af hálfu forsvarsmanna Norðuráls fyrir niðurstaða um hver þeir telja að hækkunin eigi að vera, en þeir hafa ekki kynnt hana fyrir félögunum sem eiga aðild að samningum ennþá.  Það verður væntanlega gert á miðvikudaginn nk. á fundi sem boðað hefur verið til í húsakynnum ríkissáttasemjara.

08
Jan

Iðnaðarráðherra í heimsókn á Grundartanga

Össur Skarphéðinsson, iðnaðar- og byggðamálaráðherra heimsótti í gær iðnfyrirtæki á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Fyrst var komið við hjá Skaganum hf. á Akranesi en eftir fund með stjórnendum fyrirtækisins var haldið á Grundartanga þar sem Járnblendiverksmiðja Elkem á Íslandi var sótt heim. Með ráðherra í för var Guðbjartur Hannesson, samflokksmaður hans í NV kjördæmi.

Þeir Guðbjartur og Össur voru sammála um að ferðin hafi verið afar gagnleg og fróðlegt að kynnast áætlunum beggja fyrirtækjanna. “Hjá Skaganum eru vangaveltur um að fyrirtækið taki að sér fleiri verkefni. Megináhersla þeirra undanfarin ár hefur verið á kælitækni í matvælaiðnaði.

Þá hefur Skaginn keypt fyrirtæki í plötufrystingu á Ítalíu og hefur uppi áform um flutning þess hingað til lands. Forsvarsmenn Skagans kynntu fyrir okkur áhugaverða tækni sem fyrirtækið býr yfir og vaxtarmöguleika þess á Akranesi,” sagði Guðbjartur.

Á Grundartanga skoðuðu þingmennirnir starfsemi Elkem á Íslandi og framtíðaráhorfur fyrirtækisins. “Elkem hefur lagt áherslu á verksmiðjuna á Grundartanga og þar hefur orðið mikil uppbygging með aukinni framleiðslu. Við kynntum okkur hugmyndir um sólarkísilverksmiðju en í umsókn um endurnýjað starfsleyfi fyrirtækisins á Grundartanga er opnað fyrir þann möguleika að slík verksmiðja verði byggð upp á Grundartanga.

Baráttan í því máli stendur hinsvegar milli nokkurra landa, þ.á.m. Kanada, Indónesía, Malsasía auk Íslands. Í umræðum kom fram að ráðherra leist mjög vel á áætlanir beggja fyrirtækjanna sem við heimsóttum í ferðinni og ljóst að þar búa mikil sóknarfæri t.d. í uppbyggingu mannfrekrar framleiðslu. Hjá Elkem er verið að tala um allt að 350 manna nýjan vinnustað ef þetta gengi allt eftir. Sjálfsagt verður mest samkeppni um sólarkísilverksmðjuna frá Kanada er þar í landi er mikil fyrirgreiðsla til nýsköpunar í fyrirtækjum í dreifbýli. Því verður þetta hörð samkeppni við Kanadamenn um þetta nýja fyrirtæki og afar fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins,” sagði Guðbjartur að lokum.

 Frétt á Skessuhorni

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image