• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Dec

Elkem skoðar möguleika á sólarkísil verksmiðju á Grundartanga

Á vef Skessuhorns birtist þessi frétt.  Í tengslum við að Elkem á Íslandi, sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, vinnur nú að því að endurnýja starfsleyfi sitt, eru einnig uppi áform um að reisa þar sólarkísilverksmiðju. Elkem hugar nú að staðsetningu fyrir slíka verksmiðju sem framleiddi sólarrafhöðlur, m.a. í tjald- og fellihýsi.

Hörð samkeppni er um þessa nýju verksmiðju Elkem enda gæti hún skapað 200-300 störf.  Einar Þorsteinsson, forstjóri ELKEM á Íslandi, sagði í fréttum RUV að Grundartangi sé vel til þess fallinn að hýsa nýju verksmiðjuna og að í nýja starfsleyfinu sé óskað eftir heimild fyrir henni. Einar segir um sé að ræða 10.000 tonna verksmiðja, en ákvörðun um staðsetningu hennar verði tekin á næsta ári.

Verði Grundartangi fyrir valinu gæti þessi nýja verksmiðja risið innan fárra ára. Einar bendir á að margir aðrir staðir í heiminum komi einnig til greina, svo sem í Asíu og Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Þarna sé aðallega spurning um hagstæðustu orkumöguleikana.

Einar segir að Ísland standi vel að því leyti að hér sé Elkem með járnblendiverksmiðju, en kísilsólarframleiðslan er mjög tengd slíkri framleiðslu. Einar telur líklegt að samkeppnin verði hörðust við Kanada, sökum þess að þar starfræki Elkem járnblendiverksmiðju.

Það yrði gríðarlega jákvætt ef þessi framleiðsla yrði að veruleika og myndi slík verksmiðja styrkja stoðir okkar Akurnesinga í atvinnumálum enn frekar.

22
Dec

Kjarasamningur við Launanefnd sveitarfélaga samþykktur

Á föstudaginn sl. var talið upp úr kjörkössum vegna kjarasamnings Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga og er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Á miðvikudaginn sl. var haldinn kynningarfundur um samninginn og kom fram hjá fundarmönnum að miðað við aðstæður í íslensku efnahagslífi þá væri þetta ásættanlegur samningur, sérstaklega í ljósi þess að einungis væri um skammtímasamning í 9 mánuði að ræða.

Að undanförnu hefur starfsmönnum Akraneskaupstaðar í Verkalýðsfélagi Akraness fjölgað nokkuð og eru nú tæplega 100 starfsmenn félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness. 

19
Dec

Uppbygging á Grundartanga

Ákjósanlegt iðnaðarsvæðiÁkjósanlegt iðnaðarsvæðiFréttabréf Verkalýðsfélags Akraness kom út í dag og er fréttabréfið borið út í öll hús og fyrirtæki á Akranesi og í nágrenni. 

Í fréttabréfinu er m.a. viðtal við Gísla Gíslason hafnastjóra Faxaflóahafna um væntanlega uppbyggingu fyrirtækja á Grundartanga.  Í viðtalinu segir Gísli að nokkrir aðilar hafi þegar ákveðið að hefja starfsemi á Grundartanga og vonast er til að a.m.k tveir þeirra hefjist handa við húsbyggingar á komandi ári.

Einnig kemur fram hjá Gísla að þó nokkur áhugi sé hjá fleiri aðilum sem eru með spennandi verkefni en ekki sjái fyrir endann á því hvort takist að klófesta þá aðila.  Gísli telur að Grundartangasvæðið sé ákjósanlegt fyrir ýmis konar iðnaðarstarfsemi. 

Formaður félagsins tekur undir það með hafnastjóranum að Grundartangasvæðið sé ákjósanlegt fyrir iðnaðarstarfsemi af ýmsum toga og telur hann að til lengri tíma litið séu atvinnuhorfur á félagssvæði VLFA nokkuð góðar sé tekið tillit til þess ástands sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi.

Hægt er að lesa fréttabréfið með því að smella HÉR

18
Dec

Kjarasamningur milli SSÍ og LÍÚ undirritaður

Þann 17. desember 2008 var undirritaður nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna.

Samningurinn verður til umfjöllunar á aðalfundi Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness mánudaginn 29. desember nk. Samningurinn er framlenging á síðast gildandi samningi með þeim breytingum sem fram koma í þessum samningi.

Atkvæði um kjarasamninginn verða greidd hjá hverju aðildarfélagi fyrir sig og á atkvæðagreiðslu að ljúka fyrir áramót. Í upphafi næsta árs verða atkvæði síðan talin sameiginlega hjá aðildarfélögum SSÍ um samninginn.

Verði samningurinn samþykktur hækkar kauptrygging og launaliðir frá 1. janúr 2009. Hægt er að nálgast samninginn og kaupgjaldsskrána á heimasíðu Sjómannasambandsins http://www.ssi.is/

17
Dec

Hækkanir á launum starfsmanna Norðuráls skýrast í byrjun janúar

Þegar gengið var frá kjarasamningi Norðuráls árið 2005 var í honum kveðið á um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Fjölmargir starfsmenn Norðuráls hafa haft samband við skrifstofu félagsins að undanförnu til að fá upplýsingar um hver hækkunin verður á launum þeirra frá og með 1. janúar 2009.

Formaður félagsins hefur svarað starfsmönnum Norðuráls á þann veg að hann líti svo á að þær meðaltals hækkanir sem komu til handa starfsmönnum Elkems og Alcan komi til hækkunar hjá starfsmönnum Norðuráls.  Annað komi ekki til greina af hálfu Verkalýðsfélags Akraness. Einfaldlega vegna þess að skilningur Verkalýðsfélags Akraness á þessari grein er alveg hvellskýr, hann er sá að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu hækkunum og um samdist við Elkem Ísland og Alcan nýverið enda séu það fyrirtæki sem eru í sambærilegum orkufrekum iðnaði og eru að selja sínar afurðir á erlendum mörkuðum.

Forsvarsmenn Norðuráls eru þessa dagana að skoða nýgerða kjarasamninga í orkufrekum iðnaði og mun niðurstaða um hver hækkun starfsmanna Norðuráls er liggja fyrir í byrjun janúar.

Kjarasamningur Elkem gaf starfsmönnum frá 17% hækkun upp í rúm 18% við undirskrift samningsins eða frá 46.000 uppí 56.000 króna hækkun á mánuði við undirskrift.

16
Dec

Kynningarfundur fyrir starfsmenn sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill minna þá félagsmenn sína sem eru starfsmenn sveitarfélaga á að kynningarfundur vegna nýs kjarasamnings Verkalýðsfélags Akraness við launanefnd sveitarfélaganna fyrir hönd sveitarfélaganna á starfssvæði félagsins verður haldinn miðvikudaginn 17. desember kl. 20:00 í Skrúðgarðinum.

Hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu. Einnig verður hægt að kjósa fimmtudaginn 18. og föstudaginn 19. desember á skrifstofu félagsins.

Þeir félagar sem starfa eftir samningnum eru eindregið hvattir til að mæta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image