• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Nov

Formaður í viðtali á Morgunvakt Rásar 1

Í morgun var rætt við formann félagsins á Morgunvakt Rásar 1. Þar var farið yfir það ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Einnig var verðtryggingin til umræðu svo og atvinnuástandið á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Fram kom í máli formanns að hann telur afar brýnt að verðtryggingin verði tekin úr sambandi, eða fryst í kringum 3-4% á meðan mesta verðbólguskotið ríður yfir. Flestum hagfræðingum ber saman um að slíkt verðbólguskot muni dynja á landsmönnum á næstu mánuðum og getur farið allt upp í 20-30%.

Einnig kom fram í máli formanns að það sé ekki hægt að leggja meiri byrðar á almenning í þessu landi sem nú þegar hefur þurft að þola gríðarlegan skell svo sem atvinnumissi, skerðingu á starfshlutfalli, lækkun launa og hækkun á matvöruverði um 30-50%.

Hægt er að hlusta á viðtalið við formann með því að smella hér. Einnig var vitnað í viðtalið í hádegisfréttum RUV, hægt er að hlusta með því að smella hér.

27
Nov

Vel heppnaður fundur í Tónbergi í gærkvöldi

Í gærkvöldi var haldinn opinn upplýsinga- og fræðslufundur í Tónbergi þar sem kynnt voru úrræði vegna efnahagsmála. Fyrir fundinum stóðu auk Verkalýðsfélags Akraness Akraneskaupstaður, Sýslumaðurinn á Akranesi og Vinnumálastofnun.

Framsöguerindi voru afar fróðleg og einnig bárust fjölmargar spurningar frá fundargestum. 

Vissulega hefði mætingin mátt vera betri enda spurning hvort tímasetning fundarins hefði verið heppilegri í janúar þegar þrengingarnar verða betur komnar í ljós. Þrátt fyrir það eru aðstandendur fundarins mjög ánægðir með það hvernig til tókst.

Fjöldi fyrirspurna berast skrifstofu félagsins á degi hverjum um hin ýmsu atriði er varða efnahagsástandið. Því hefur ýmis konar upplýsingum verið safnað saman undir hnappi sem ber heitið "Efnahagsástandið" og er staðsettur hér til hægri á síðunni.

26
Nov

Fundur í Tónbergi í kvöld

Verkalýðsfélag Akraness vill minna á opinn upplýsinga- og fræðslufund sem haldinn verður í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi, í kvöld miðvikudaginn 26. nóvember kl. 20:00

Yfirskrift fundarins er: „Úrræði vegna efnahagsmála“

Eftirtaldir aðilar eru með framsögu:

  • Íbúðalánasjóður:  „Úrræði Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluvanda"   Svanhildur Guðmundsdóttir sviðsstjóri.
  • Félags- og tryggingamálaráðuneytið:  „Aðgerðir í þágu heimilanna“  Guðbjartur Hannesson formaður félags- og tryggingamálanefndar Alþingis og fulltrúi í starfshópi í félags- og tryggingamálaráðneyti um aðgerðir í þágu heimilanna.
  • Vinnumálastofnun:  „Atvinnuleysisbætur“   Gunnar Richardsson forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Vesturlandi. 
  • Alþýðusamband Íslands:  „Staða Heimilanna“   Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ. 
  • Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi:  „Í aukinni færni felst styrkur”  Inga Dóra Halldórsdóttir framkvæmdastjóri

Að loknum framsöguerindum verður opnað fyrir spurningar úr sal.

Fundarstjóri:  Ólafur Hauksson.

Að fundinum standa:  Akraneskaupstaður, Sýslumaðurinn á Akranesi, Verkalýðsfélag Akraness og Vinnumálastofnun

25
Nov

Palestínsku flóttakonurnar fá fræðslu um íslenskan vinnumarkað

Að ósk Rauða Kross Íslands hélt formaður félagsins í dag kynningarfund með palestínsku flóttakonunum. Á fundinum kynnti hann fyrir þeim starfsemi félagsins og réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Einnig hvernig vinnumarkaðurinn er uppbyggður hér á landi.

Amal Tamimi, félagsfræðingur og fræðslufulltrúi Alþjóðahúss sá um að túlka það sem formaður hafði fram að færa og voru konurnar afar forvitnar um íslenskan vinnumarkað og þau réttindi og skyldur sem hér ríkja enda komu fjölmargar spurningar frá þeim. Þær hafa fullan hug á því að læra íslenskuna eins fljótt og kostur er og eru þær t.a.m. á íslenskunámskeiðum þessa dagana. Þær hafa einnig hug á því að komast eins fljótt út á íslenskan vinnumarkað og kostur er.

22
Nov

Matvara hefur hækkað gríðarlega frá því í vor

Matvara sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á sl. þriðjudag hefur hækkað um tugi prósentna síðastliðið hálft ár. Algengt er að vörur hafi hækkað um 30%-50% frá því í verðkönnun verðlagseftirlitsins í vor en dæmi eru um yfir 100% verðhækkun. Verð hefur almennt hækkað mest í lágvöruverðsverslunum á milli kannana.

Verð á brauði, kexi, pasta, og hrísgrjónum sem skoðað var, hækkaði í flestum tilvikum yfir 50% í lágvöruverðsverslunum en nokkuð minna í öðrum verslunum. Sem dæmi má nefna að Fittý samlokubrauð hækkaði um 66% í Kaskó, 63% í Nettó, 57% í Krónunni og 47% í Bónus á milli kannana í lok mars og nú í nóvember. Í öðrum verslunum hækkaði samskonar brauð um 12-17%. Barilla Tortellini hækkað á sama tímabili um 86% í Bónus, 70 % í Nettó, 58% í Fjarðarkaupum og 45% í Kaskó en um 32% í Nóatúni og 19% í Hagkaupum og Samkaupum-Úrval.

Verð á mjólk hefur hækkað um 25-30% frá því í vor.

 Í lágvöruverðsverðsverslunum hefur mjólkurlítrinn hækkað um 30%, kostaði að meðaltali kr. 74 í vor en nú kr. 96. Í öðrum verslunum hefur mjólkurlítrinn að meðaltali hækkað um 26%, úr kr. 82 í kr. 103. Verð á AB-mjólk hefur hækkað um 30%-50% á milli verðkannanna. Mest í Bónus og Krónunni um 52%, en um 30%-40% í öðrum verslunum.

Grænmeti og ávextir sem skoðaðir voru hafa einnig hækkað mikið í verði. Kílóverð á banönum hefur hækkað mest í Bónus um 83% úr kr. 98 í kr. 179 frá því í vor. Í Kaskó nemur hækkunin 49%, í Nettó 47%, í Krónunni 47% og í Hagkaupum, Nóatúni og Samkaupum-Úrval milli 24% og 35%. Minnst hafa bananarnir hækkað í Fjarðarkaupum um 5%.

Af öðrum vörum má nefna púðursykur frá Dansukker hefur hækkað um 106% í Krónunni og 88% í Bónus frá því vor. Um 47% í Nóatúni, 38% í Fjarðarkaupum og 18% í Hagkaupum og er nú dýrari í lágvöruverðsverslununum en í Hagkaupum og á svipuðu verði og í Nóatúni.

Þegar skoðaður er munur á meðalverði í lágvöruverðsverslunum og öðrum stórmörkuðum nú í nóvember og í vor má sjá að í flestum tilvikum er mun minni munur á meðalverði í þessum verslunargerðum nú en í vor. Verð í lágvöruverðsverslunum hefur almennt hækkað meira en í öðrum verslunum sem þýðir samkvæmt þessu að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana og annarra stórmarkaða hefur minnka.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 27. mars og 18. nóvember 2008. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í verslunni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Samanburð á verðkönnunum ASÍ í mars og nóvember 2008 má sjá hér.

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Kaskó, Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Fjarðarkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu.

 

Heimild ASÍ

21
Nov

Munu erlendir aðilar eignast auðlindir hafsins?

Í hádegisfréttum RUV kom fram að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, telji rétt að skoða af fullri alvöru að útlendingar eignist hlut í bönkunum. 

Almenningur í þessu landi þarf að fá að vita hversu mikið gömlu bankarnir lánuðu útgerðamönnum til kvótakaupa með veði í aflaheimildunum.  Í dag er talað um að íslenskur sjávarútvegur skuldi allt að 500 milljarða króna.  Hversu mikið af þeirri skuld er með veðsetningu í aflaheimildum sem eiga að kallast sameign þjóðarinnar? 

Hvað gerist ef nýju ríkisbankarnir verða seldir að hluta til eða að öllu leiti til erlendra aðila.  Munu erlendir aðilar því hugsanlega eignast auðlindir hafsins í gegnum hlut sinn í bönkunum?  Er þessi 500 milljarða króna skuld sjávarútvegsins ef til vill næsti reikningur sem þessi þjóð fær í hausinn?

Formaður félagsins fjallaði um sjávarútvegsmál í ræðu sinni á fundi sem Alþýðusamband Íslands stóð fyrir undir yfirskriftinni Áfram Ísland - hagur heimilanna.  Formaður sagði m.a. þetta um sjávarútvegsmál þjóðarinnar:

"Það á einnig að skoða það núna af fullri alvöru hvort ekki eigi að þjóðnýta aflaheimildir útgerðamanna og endurskipuleggja íslenskan sjávarútveg algjörlega upp á nýtt.  Krafa almennings í þessu landi um allanga hríð hefur verið sú að afnema eigi gjafakvótakerfið.

Það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hér hefur verið lýði frá 1984 hefur farið eins og hvirfilbylur um hinar dreifðu byggðir þessa lands og skilið fiskvinnslufólk og sjómenn eftir í átthagafjötrum.  Það þekkjum við Skagamenn mæta vel enda  virðast útgerðamenn ekki vilja bera neina samfélagslega ábyrgð eins og dæmin svo sannarlega sýna um allt land. Ráðamenn þessarar þjóðar og forysta LÍÚ hafa sagt að þetta sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi sem völ er á.  Rétt er að minna á að þegar kvótakerfið var sett á árið 1984 þá mátti veiða 267 þúsund tonn af þorski. Í dag 24 árum síðar má veiða 130 þúsund tonn og þessu til viðbótar er áætlað að íslenskur sjávarútvegur skuldi allt að 500 milljarða kóna. Svo segja menn að þetta sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.   

Ég spyr hvort þetta sé næsti reikningur sem alþýða þessa lands fær í hausinn".

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image