• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jan

Samtök atvinnulífsins höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara

Í morgun átti formaður félagsins ásamt trúnaðarmanni starfsmanna Klafa fund með Samtökum atvinnulífsins þar sem ríkissáttasemjari lagði fram innanhúss sáttatillögu í þeirri kjaradeilu sem staðið hefur yfir frá því að kjarasamningur rann út þann 1. desember sl.

Deiluaðilar hafa fundað 7 sinnum frá því að kjarasamningurinn rann út og hefur deilan lítið þokast. Á grundvelli þess ákvað ríkissáttasemjari að leggja fram áðurnefnda innanhússtillögu, en sú tillaga tók tillit til sjónarmiða beggja aðila og hljóðaði uppá á hækkun grunnlauna frá 1. desember sl. upp á 10%. Heildarhækkun samningsins ef tillaga sáttasemjara hefði náð fram að ganga hefði gefið starfsmönnum á fyrsta ári samningsins hækkun upp á 13-15%.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður voru tilbúnir að ganga að þessari sáttatillögu og leggja hana til atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna til að koma í veg fyrir að deilan myndi fara í algeran hnút. Því voru það gríðarleg vonbrigði að eigendur Klafa, sem eru Norðurál og Elkem Ísland, höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara algerlega sem gerir það að verkum að deilan er nú nánast illleysanleg.

Formaður félagsins harmar þessa afstöðu eigenda Klafa og Samtaka atvinnulífsins og telur það mikið ábyrgðarleysi af þeirra hálfu að hafna tillögu ríkissáttasemjara jafn afdráttarlaust og fram kom á fundinum. Það er einnig grafalvarlegt að Samtök atvinnulífsins virðast vera að nýta sér það alvarlega ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði með því að hafna algerlega að ganga frá kjarasamningi við starfsmenn Klafa á svipuðum nótum og gert var við starfsmenn Elkem Ísland.

Grundvallaratriðið í þessari deilu er að búið er að semja fyrir starfsmenn Elkem Ísland sem starfa á sama starfsvæði, en gengið var frá þeim samningi í byrjun desember, eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni. Byggðist krafa félagsins á sambærilegum hækkunum og þar um samdist enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland.

Einnig er rétt að minna á að þessi samningur er einn af þeim örfáu sem á eftir að ganga frá í samningahrinu síðastliðins árs. Á þeirri forsendu er algjörlega óþolandi að SA ætli sér að skilja eftir þann hluta starfsmanna sem á eftir að ganga frá sínum samningum frá liðnu ári með jafn afgerandi hætti og tillaga SA hljóðar upp á.

Það er ljóst að myndast hefur mikil gjá á milli félagsins og eigenda Klafa vegna þessarar afstöðu. Óhætt er að segja að staðan sé ekki vænleg en formaður mun funda með starfsmönnum á morgun þar sem tekin verður ákvörðun um framhaldið.

Fjallað var um málið á mbl.is í dag. Lesa má fréttina hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image