• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Oct

Umgengni orlofshúsa

Að gefnu tilefni vill stjórn orlofssjóðs minna félagsmenn á að ganga vel um orlofshús félagsins. Að öllu jöfnu er frágangur leigutaka til fyrirmyndar en að undanförnu hefur því miður borið á slæmri umgengni í húsum félagsins.

T.a.m. var nýverið skilið þannig við eitt húsanna að það var nánast óíbúðarhæft sökum skemmdarverka, óhreinininda og rusls innan- og utandyra. Þó var verst að í þeim gleðskap sem þarna hafði greinilega staðið yfir hafði einhver tekið upp á því að tæma slökkvitæki sem þar hékk upp á vegg, og síðan hengt það aftur upp að því loknu svo það leit út fyrir að vera óhreyft. Það er óþarft að taka fram þvílík hætta þarna hefði getað skapast ef þetta hefði ekki komist upp strax og ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda hefði komið upp eldur í húsinu seinna meir og dvalargestir gripið í tómt slökkvitæki. Hvað er fólk að hugsa sem gerir svona lagað?

Í öllum tilfellum ber leigutaki ábyrgð á húsinu og öllum búnaði þess á meðan á leigu stendur og skuldbindur sig til að bæta það tjón sem kann að verða af hans völdum eða þeirra sem þar kunna að dvelja á hans vegum. Stjórn orlofssjóðs vill vara félagsmenn við því að framselja leigu til þriðja aðila því ábyrgðin er alltaf félagsmannsins.

Orlofshúsin eru sameign allra félagsmanna, og skorar stjórn orlofssjóðs á félagsmenn að hafa það í huga þegar þeir nota húsin. Einnig er ágætt að muna að skilja við húsin eins og þeir sjálfir vildu koma að þeim.

29
Sep

Ábyrgð hvað?

Það er óhætt að segja að forseti Alþýðusambands Íslands hafi rétt fyrir sér þegar hann talar um að bankarnir hafi farið of geyst í útrás á liðnum árum. En eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur ríkið nú eignast 75% í Glitni með því að leggja bankanum til nýtt hlutafé sem nemur 84 milljörðum.

Margir hafa á undanförnum árum verið undrandi á þeim ofurlaunum sem tíðkast hafa hjá æðstu stjórnendum bankanna og nægir að nefna að þegar Lárus Welding kom til starfa hjá Glitni þá fékk hann 300 milljónir fyrir það eitt að hefja störf þar. Hægt að lesa hér.

Einnig hefur fyrrverandi forstjóri, Bjarni Ármannsson hagnast gríðarlega á kaupréttarsamningum hjá Glitni eins og sjá má í þessari frétt. Reyndar verður fróðlegt að vita hversu mikið Bjarni Ármansson hefur hagnast á kaupréttarsamningum vegna Glitnis sérstaklega í ljósi nýrra atburða.

Ávalt er talað um þegar ofurlaun bankastjóra ber á góma sú mikla ábyrgð sem þeir bera og fróðlegt verður að sjá hver ábyrgð núverandi bankastjóra er. Núna blasir við að það eru almennir skattgreiðendur í þessu landi sem þurfa að bera ábyrgð. Það er morgunljóst að það er ekki hægt að horfa upp á þau ofurlaun sem þessir aðilar hafa sópað til sín og þegar á reynir þá beri þeir litla sem enga ábyrgð.

Samkvæmt tekjublaði frjálsrar verslunar kom t.a.m. fram að forstjóri eins af viðskiptabönkunum var með 64 milljónir í mánaðarlaun, það er því sorglegt fyrir íslenska skattgreiðendur að þurfa að horfa upp á það að koma einum þessara banka til hjálpar.

En að sjálfsögðu er því miður ekkert annað í stöðunni, því ella hefðu sparifjáreigendur hugsanlega tapað sínu sparifé.

26
Sep

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?

Fall íslensku krónunnar virðist engan enda ætla að taka en nú stendur gengisvísitalan í 183,18. Það er algjörlega ljóst að það ástand sem nú er að skapast í íslensku efnahagslífi er eitthvað sem hvorki fyrirtæki né heimilin munu geta staðist.

Ýmsir aðilar hafa verið að gefa til kynna að bankarnir beri að einhverju leyti ábyrgð á þeirri gengisfellingu sem verið hefur og síðast í gær var Guðni Ágústsson að fjalla um að fall krónunnar þyrfti að rannsaka. Hægt að sjá viðtal hér.

Því spyr formaður, ef getgátur eru uppi um að jafnvel bankarnir beri ábyrgð á gengisfellingu krónunnar, hví í ósköpunum er slíkt ekki rannsakað?

Það er alveg ljóst að það þarf að koma íslenskum heimilum til hjálpar því skuldir heimilanna hafa aukist gríðarlega að undanförnu vegna gengisfellingar krónunnar og hækkunar verðbólgu.

Hvað er til ráða? Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin verður að grípa til einhverra ráða og það tafarlaust. Hún þarf t.d. að flýta þeim aðgerðum sem hún lagði fram í yfirlýsingu hennar samhliða kjarasamningum frá 17. febrúar sl. Hækkun persónuafsláttar taki öll gildi strax en ekki á næstu þremur árum. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að skoðaðar verði frekari lækkanir á tollum og vörugjöldum, ljóst er að þeirri skoðun þarf að hraða sem mest og myndi það klárlega koma neytendum til góða.

Einnig liggur fyrir að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs af eldsneyti hafa hækkað umtalsvert vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Því er nú svigrúm fyrir ríkissjóð að lækka álögur á eldsneyti á meðan á því efnahagsástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi stendur. Það mun klárlega koma íslenskum neytendum til góða.

Þessu til viðbótar verður Seðlabankinn að lækka stýrivextina við fyrsta tækifæri.  Hvorki atvinnulífið né heimilin í landinu geta staðið undir þeim okur vöxtum sem nú í gangi.

Ríkisstjórn Íslands þarf einnig að skoða hvort sú peningamálastefna sem hér er rekin hafi nú gengið sér til húðar.

Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa haft orð á því hví í ósköpunum ekki er óskað eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið og kostir og gallar þess að ganga í sambandið skoðaðir. Síðan mætti leggja kostina og gallana sem því fylgja í dóm þjóðarinnar og ákvörðun tekin með þjóðaratkvæðagreiðslu.

25
Sep

Ekki hægt að una við lengur

Nú eru liðnir rúmir sjö mánuðir frá því að gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.  Kjarasamningum sem höfðu það markmið að ná tökum á verðbólgunni, tryggja stöðugleika og auka kaupmátt.  Víðtæk sátt virtist ríkja í samfélaginu þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði um að þeir sem væru með hvað lægstu launin fengu mestu hækkanirnar.

Eins og alltaf þegar kemur að kjarasamningum verkafólks þá heyrðust varnaðarorð úr öllum áttum t.d. frá greiningardeildum bankanna, ráðamönnum þjóðarinnar o.fl.  Þessi varnaðarorð lutu að því að óábyrgt væri að gera miklar kröfur um launahækkanir því slíkt myndi valda óstöðugleika og hækkandi verðbólgu.  Einnig óttuðust þessir aðilar að miklar hækkanir verkafólks myndu hafa víxlverkun á þá hópa sem síðar myndu semja.

Starfsgreinasambandið ákvað að gera hófstillta samninga þar sem einblínt yrði á þá sem starfa á berstrípuðum lágmarkstöxtum.  Þeir sem það gerðu fengu 18 þúsund króna hækkun. Þeir sem nutu yfirborgana umfram launataxta fengu 5,5% hækkun og þeir sem höfðu notið launaskriðs og fengið meira en 5,5% hækkun tólf mánuðum áður en gengið var frá samningum 17. febrúar fengu ekkert. 

Þessi samningur átti að tryggja aukinn kaupmátt verkafólks og var hann framlag SGS til að koma hér á stöðugleika.  Í ávarpi sem forsætisráðherra flutti 17. júní 2008 sagði hann meðal annars "Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að kjarasamningar grundvallist á hóflegum almennum kauphækkunum en jafnframt verulegri hækkun lægstu launa. Slíkt stuðlar í senn að auknum jöfnuði og betra jafnvægi í efnahagsmálum"

Rétt er að minna á að þegar gengið var frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði þá var verðbólgan 5,7% en er í dag 14% og það einungis rúmum sjö mánuðum síðar.  Bullandi kaupmáttarrýrnun blasir við íslensku verkafólki og því til viðbótar hefur greiðslubyrði stóraukist hjá íslenskum launþegum.  Það er kristalskýrt að mörg skuldsett heimili munu ekki ná að lifa þetta ástand af ef það helst óbreytt.  Þetta er að gerast þrátt fyrir að gerðir hafi verið hófstilltir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði.

Sá kjarasamningur sem gerður var 17. febrúar sl. var hálfgerður þjóðarsáttarsamningur þar sem horft var fyrst og fremst til þeirra tekjulægstu, samningur sem átti að tryggja stöðugleika og auka kaupmátt.  Á þeirri forsendu er grátlegt að horfa uppá alla aðra hópa koma og semja um mun hærri samninga heldur en gert var á hinum almenna vinnumarkaði.

Opinberir starfsmenn sömdu um 20.300 kr. hækkun og það á níu mánaða skammtímasamning.  Einnig var það algerlega óháð því hvort um tekjulága hópa væri að ræða, allir fengu þessa upphæð. Nægir að nefna að æðstu ráðmenn þessarar þjóðar fengu 20.300 kr. hækkun á sínum launum samkvæmt úrskurði kjararáðs eða sem nemur 2.300 kr. meira en þeir sem starfa eftir berstrípuðum lágmarkstöxtum á hinum almenna vinnumarkaði.  Rétt er að minna enn og aftur á að þó nokkuð stór hópur okkar fólks fékk enga hækkun eða nánar til getið þeir sem notið höfðu launaskriðs fyrir samninginn. Nú síðast gengu ljósmæður frá kjarasamningi uppá 22,6% sem tryggir þeim hækkun á bilinu 70 til 90 þúsund á mánuði, langt umfram það sem um var samið við verkafólk. 

Það sorglega við þetta er að þetta hefur gerst margoft áður, það er að segja að samið er við verkafólk á hófstilltum nótum og síðan koma allir aðrir hópar og semja um langtum meira en verkafólk samdi um.  Þegar gengið var frá samningum á hinum almenna vinnumarkaði 2004 þá var samið um heildarhækkun uppá 15,8%.  Allir aðrir hópar sem sömdu á eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði árið 2004 sömdu um langtum meiri hækkanir í sínum samningum og nægir að nefna samantekt sem hagfræðingur ASÍ gerði í því samhengi.  Sem dæmi þá sömdu kennarar í grunnskólum um 30,0% hækkun, framhaldsskólakennarar um 25,8% og leikskólakennarar um 37,4% hækkun.  Með öðrum orðum langtum meira en verkafólk samdi um árið 2004.  Og nú er það sama að gerast í þessum samningum, allir semja um meira en verkafólk samdi um.

Þetta er hins vegar ekkert nýtt, að verkafólk sé eitt látið sitja eftir hvað varðar launahækkanir til að viðhalda hér stöðugleika og nægir að nefna þær hækkanir sem bankaráð seðlabankans ákvað í janúar á síðasta ári, hækkun uppá 200 þúsund krónur á mánuði sjá frétt hér

Einnig hækkun sem forstjóri Landsspítalans fékk í ágúst á þessu ári uppá 25% sjá frétt hér.  Svo tala "ábyrgir" aðilar í þessu þjóðfélagi um mikilvægi þess að gerðir séu hófstilltir kjarasamningar fyrir verkafólk til að allt fari ekki fjandans til.  Þetta hefur ætíð verið svona þegar kemur að leiðréttingu á kjörum verkafólks og rétt er að minna á pistil sem Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði árið 1997 því tengdu. Hægt að lesa hér.

Nei, Verkalýðsfélag Akraness getur ekki og mun ekki horfa lengur uppá það hvernig farið er með íslenskt verkafólk í sínum kjarasamningum.  Ávalt gengið fyrst frá samningum og svo koma allir aðrir hópar og semja um langtum hærri hækkanir handa sínu fólki.  Slíku ætlar VLFA ekki að taka þátt í lengur því nú er komið að öðrum að axla ábyrgð á því ófremdarástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. 

Verkalýðsfélag Akraness á eftir að ganga frá þó nokkrum samningum t.d. við launanefnd sveitarfélaga og stóriðjurnar á Grundartanga og þar verður krafist hækkana í samræmi við þær sem ljósmæður fengu í sínum samningi.

24
Sep

Vetrarleiga orlofshúsa

Nú er vetrarleiga orlofshúsa Verkalýðsfélags Akraness komin á fullt skrið. Í vetur verður útleiga bústaðanna í Húsafelli, Svínadal og Hraunborgum í umsjá skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 eða í síma 4309900. Útleiga bústaðarins í Ölfusborgum fer fram í þjónustumiðstöð Ölfusborga eins og undanfarna vetur. Þeir sem vilja leigja bústaðinn í Ölfusborgum geta haft samband við þjónustumiðstöðina í síma 4834260 og gengið frá leigu þar.

Verðið er það sama og í fyrra, helgin kostar 10.000 kr. fyrir félagsmenn og er þá miðað við þrjár nætur, þ.e. frá föstudegi til mánudags. Aukanótt kostar 2.500 kr og heilar vikur 17.000 kr.

Hægt er að skoða lausar vikur undir liðnum orlofshús hér til vinstri á síðunni.

Félagsmenn eru hvattir til að nýta sér orlofshúsin vel í vetur, enda um að gera að nota skammdegið til að bregða sér úr bænum og eiga notalega stund í sumarbústað. Þess má geta að allir bústaðirnir eru með heitum potti þaðan sem býðst einstök sjón á stjörnuprýddum vetrarkvöldum.

22
Sep

Undarleg ákvörðun kjararáðs

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er undirbúningur kröfugerða vegna þeirra kjarasamninga sem félagið á aðild að nú í fullum gangi. Þeir kjarasamningar sem um ræðir eru við launanefnd sveitarfélaganna, Elkem Ísland, Klafa og Sementsverksmiðjuna. Það liggur fyrir að sá samningur sem ljósmæður gerðu við ríkið á dögunum og hljóðaði upp á 22,6% hækkun mun vera hafður til viðmiðunar við mótun kröfugerðar.

Það liggur einnig fyrir að þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði bæði árið 2004 og 17. febrúar sl. höfðu það að markmiði að viðhalda hér stöðugleika og auka kaupmátt okkar fólks. Nú er hins vegar ljóst að forsendur kjarasamninga eru kolbrostnar og ljóst að sækja þarf viðbætur til handa okkar fólki þegar endurskoðun á sér stað.

Þeir samningar sem gerðir voru á hinum almenna vinnumarkaði beindust fyrst og fremst að þeim sem hvað lægstu höfðu tekjurnar. Nam hækkun á launatöxtum 18.000 krónum en það fengu einungis þeir sem voru að vinna á berstrípuðum töxtum. Þeir sem nutu einhverra yfirborgana fengu 5,5% hækkun. Hins vegar fengu þeir sem nutu launaskriðs umfram 5,5% fyrir gerð samningsins ekki neitt. Því miður var það allt of stór hópur sem lenti í því. Þessu til viðbótar dróst að ganga frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði um rúman einn og hálfan mánuð og var samningurinn eins og áður var komið fram ekki undirritaður fyrr en 17. febrúar. Hins vegar náðist það ekki í gegn að láta samninginn gilda frá 1. janúar 2008 þegar sá eldri rann út.

Á þeirri forsendu er grátlegt að horfa upp á kjararáð ganga frá hækkunum til æðstu stjórnenda ríkisins upp á 20.300 krónur sem er 2.300 krónum meira en almennt verkafólk á berstrípuðum töxtum fékk . Einnig var grátlegt að sjá að æðstu stjórnendur fengu fulla afturvirkni á sínum kjörum eða aftur til 1. maí. Þessi dæmi sýna þá mismunun sem er í gangi í þessu þjóðfélagi og sýna að framvegis á verkalýðshreyfingin ekki að hvika frá því að samningur sem dregst um einhverjar vikur eða mánuði skuli gilda frá þeim tíma sem sá eldri rann út.

Það virðist bara vera þannig að það sé íslenskt verkafólk sem eigi að gefa eftir af sínum kjörum til að viðhalda hér stöðugleika og lágri verðbólgu, en þegar kemur að þeim sem eiga að sýna gott fordæmi þá er slíkt ekki upp á borði. Því verður það að vera skýlaus krafa þegar endurskoðun kjarasamninga á sér stað í febrúar að einhverjar viðbætur komi til handa íslensku verkafólki.

Rætt var við formann um þetta mál í hádegisfréttum RÚV í dag. Hægt er að hlusta á fréttina með því að smella hér.

Einnig var rædd við formann í Reykjavík síðdegis.  Hægt að hlusta hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image