• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Aug

Ólög sem breyta þarf tafarlaust

SéreignarsparnaðurSéreignarsparnaðurTil félagsins leitaði nýverið félagsmaður sem varð fyrir 100% örorku vegna vinnuslyss. Þessi viðkomandi félagsmaður var búinn að leggja í séreignarsjóð vel á fjórðu milljón króna. Eftir að hann varð öryrki þá hugðist hann taka út allan sinn séreignarsparnað til þess að greiða þær skuldir sem hann hafði stofnað til og ekki getað staðið skil á vegna mikils tekjumissis sökum örorku sinnar.

Þegar hann fer og kannar hvort hann geti ekki tekið sinn séreignarsparnað út þá kemur í ljós að hann verði að fá séreignina greidda út með jöfnun greiðslum á 7 ára tímabili eins og lög nr. 129/1997 kveða á um.

Bankinn sem viðkomandi félagsmaður lagði sína séreign inn hjá vísaði í áðurgreind lög en bauðst hins vegar til að útvega lán sem félagsmaðurinn er alls ekki sáttur við að taka, einfaldlega vegna þeirra okurvaxta sem nú eru í gangi og þess mikla kostnaðar sem hann yrði fyrir tæki hann slíkt lán.

Það er mat formanns Verkslýðsfélags Akraness að hér sé um hrein ólög að ræða því þeir einstaklingar sem verða fyrir 100% örorku og hafa þar af leiðandi tapað allri sinni starfsgetu fyrir aldur fram eiga að sjálfsögðu að eiga skýlausan rétt til að taka sinn séreignarlífeyrir út, kjósi þeir svo. Sérstaklega í ljósi þess að oft verða þessir einstaklingar fyrir umtalsverðu fjárhagslegu raski. En lögin eru hins vegar hvellskýr því þar kemur fram orðrétt í 11. gr laganna.

"Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum."

Í lögunum er einnig kveðið á um eftirfarandi: "Í reglugerð skal kveðið á um styttri útborgunartíma ef um lágar upphæðir er að ræða."

Þetta þýðir að Þeir einstaklingar sem lagt hafa fyrir í séreignarsjóð og eiga eign inni undir 800.000 kr. hafa heimild til að taka alla upphæðina út í einu lagi, sé hún hins vegar yfir 800.000 kr. þá þarf að dreifa henni á 7 ára tímabili eins og áður hefur komið fram. Þetta kallar í raun og veru á það að þeir sem eru að leggja í séreignarsparnað ættu að tryggja það að eiga aldrei meira en 800.000 kr. inn á hverjum séreignarreikningi því verði þeir fyrir 100% örorku þá er tryggt að þeir geti tekið alla upphæðina út í einu sé hún undir 800.000 kr. Sé hún hærri þá fá þeir hana greidda með jöfnum afborgunum á 7 ára tímabili.

Formaður veltir því einnig fyrir sér þegar um er að ræða einstakling sem veikist mjög alvarlega, og lifir jafnvel ekki nema í 2-3 ár eftir að hann veikist. Ef hann hefur lagt fyrir í séreign, er þá ekki eðlilegt að viðkomandi einstaklingur fái að taka sína séreign alla út í einu og njóta þeirra ára sem hann á eftir, í staðinn fyrir að fá einungis hluta af sinni séreign greiddan og restin gengur til lögerfingja?

Það er alveg klárt mál að þessum lögum þarf að breyta í þá veru að verði rétthafi fyrir 100% örorku þá hafi hann skýlausan valkost um að taka sína séreign út í einu lagi. Myndi það klárlega koma þeim einstaklingum sem verða fyrir slíkum áföllum til góða. Formaður hefur nú þegar rætt við Guðbjart Hannesson formann félagsmálanefndar Alþingis vegna þessara laga því eins og áður sagði telur félagið brýnt að þessari grein laganna verði breytt.

13
Aug

Fundað um vinnuslys hjá Norðuráli

Eftirfarandi frétt var unnin sameiginlega af formanni Verkalýðsfélags Akraness og æðstu stjórnendum Norðuráls:

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti ágætan og gagnlegan fund með stjórnendum Norðuráls þann 12. Ágúst.

Formaður VLFA fór yfir upplýsingar sem að mati félagsins gefa sterklega til kynna að verklag Norðuráls í slysatilfellum þarfnist endurskoðunar.

Norðurál upplýsti að verklagsreglur hafa verið eftirfarandi :

 

  • Ef starfsmaður er með vottorð frá lækni sem lýsir óvinnufærni með öllu er ekki leitast eftir því að starfsmaður hugleiði léttari störf.
  • Ef læknisvottorð segir að starfsmaður geti sinnt léttari störfum er reynt að bjóða viðkomandi starfsmanni tímabundna aðstöðu til þjálfunar eða léttari starfa.
  • Tilfelli geta komið upp þar sem fyrirtækið áskilur sér rétt til að fá álit trúnaðarlæknis, eins og algengt er á Íslandi og áskilið í kjarasamningi.

 

Fram kom á fundinum að æðstu stjórnendum Norðuráls er  ekki kunnugt um tilvik þar sem þessar starfsreglur hafi verið brotnar.  Upplýsingar þær sem Verkalýðsfélags Akraness lagði fram á fundinum  gefa til kynna atvik þar sem ekki hafi verið farið eftir þeim verklagsreglum sem í gildi eru.  Munu aðilar skoða þessi atvik nánar og  fara sameiginlega yfir hvert þeirra.

Frá upphafi hefur verið leitast eftir góðu sambandi milli aðila og eru bæði Norðurál og VLFA sammála um að gengið hafi vel að leysa þau mál sem upp hafa komið í gegnum tíðina.   Báðir aðilar telja mikilvægt að halda áfram að byggja upp árangursríkt samstarf VLFA og Norðuráls enda tryggi það best hagsmuni starfsmanna og félagsins.

Niðurlag fundarins voru eftirfarandi atriði sem aðilar ætla að vinna eins fljótt og auðið er:

 

  • VLFA mun leggja fram enn frekar upplýsingar um þau tilvik sem að mati félagsins þarfnast frekari skoðunar.
  • Norðurál mun fara yfir hvert tilvik og afla frekari upplýsinga.
  • Norðurál mun fara yfir  verklagsreglur með trúnaðarmönnum og verkalýðsfélögum með það að markmiði að aðilar komi sér saman um verklag og framkvæmd.
  • Þegar hefur verið ákveðið að halda ársfjórðungslega fundi aðila og eru aðilar sammála um mikilvægi þess að halda þeim áfram.
11
Aug

Kaupmáttur í júní 3,7% minni en í fyrra

Í júní hækkuðu laun heldur meira að meðaltali en verðlag. Kaupmáttur jókst því örlítið milli mánaða. Þetta breytir samt ekki því að á ársgrundvelli lækkaði kaupmáttur um 3,7%. Lækkunin átti sér fyrst og fremst stað á tímabilinu frá febrúar til maí sl.

Launavísitala í júní hækkaði um 1,2% frá fyrri mánuði. Í hækkuninni að þessu sinni gætir áhrifa samkomulags aðildarfélaga BSRB við samninganefnd ríkisins um breytingar og framlengingu á fyrri kjarasamningum aðila. Samkvæmt samkomulaginu var samið um 20.300 króna launahækkun frá 1. maí 2008. Í vísitölunni gætir einnig áhrifa nýgerðs kjarasamnings Félags grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaga sem kvað meðal annars á um 25.000 króna hækkun þann 1. júní 2008. 

Laun á fyrsta ársfj. hækkuðu að meðaltali um 7,1% frá sama tíma í fyrra; 7,5% á þeim almenna en 6,1% hjá opinberum starfsmönnum. Á almennum markaði hækkuðu laun mest meðal sérfræðinga (10,9%) en minnst meðal iðnaðarmanna (5,7%).

Ætla má að áhrif af kjarasamningum á almennum markaði svo og flestra stéttarfélaga við ríkið séu að mestu kominn fram í launavísitölunni. Því er ekki líklegt að hún hækki mikið á næstu mánuðum. Enn er samt mikill verðbólguþrýstingur í hagkerfinu. Í júlí mældist tólfmánaða verðbólgan t.d. 13,6%. Vísitalan hækkaði mikið frá fyrra mánuði þrátt fyrir að sumarútsölur væru víða í verslunum.

Í ljósi slaka á vinnumarkaði og viðvarandi verðbólguþrýstings er líklegt að ársbreyting kaupmáttar mælist neikvæð áfram á næstunni. Þetta er áhyggjuefni þar sem heimilin í landinu hafa safnað upp miklum skuldum síðustu ár og eiga mörg hver á hættu að lenda í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum ef tekjur dragast saman.

Sjá nánar: Myndir 

Sjá nánar: Tengt efni

Sjá nánar: Eldra efni

Heimild: ASÍ
08
Aug

Óskað eftir að starfsmenn mæti til vinnu eftir vinnuslys

Stóriðjufyrirtækin Norðurál og Elkem Ísland á Grundartanga virðast leggja nokkuð hart að þeim starfsmönnum sínum sem lent hafa í vinnuslysum að þeir mæti sem allra fyrst til vinnu aftur þó svo að starfsmennirnir séu með læknisvottorð sem kveða á um óvinnufærni með öllu.  Starfsmönnum þessara fyrirtækja er oft boðið að taka að sér léttari störf á verksmiðjusvæðunum og virðist tilgangur fyrirtækjanna vera sá að komast hjá því að skrá vinnuslys sem fjarveruslys.

Fyrir nokkrum dögum varð vinnuslys hjá Norðuráli þar sem ung kona varð fyrir lyftara og var hún flutt með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar. Sem betur fer reyndust meiðsli hennar minni en talið var í fyrstu.  Þegar stúlkan tilkynnti vaktstjóra sínum daginn eftir slysið að hún treysti sér ekki til að koma til vinnu bæði vegna áverka og andlegs áfalls þá brást vaktstjórinn ókvæða við og sagði að við slíkt væri ekki hægt að una vegna þess að þá yrði að skrá slysið sem fjarveruslys.  Svona framkomu ætlar VLFA ekki að sætta sig við og mun ekki gera.

Á síðasta ári kom álíka tilfelli upp hjá Elkem Ísland en þá datt starfsmaður í stiga og handleggsbrotnaði en forsvarsmenn Elkem óskuðu þá eftir því við starfsmanninn að hann mætti til vinnu til léttari starfa þó svo að hann væri óvinnufær með öllu eins og fram kom í læknisvottorði sem starfsmaðurinn fékk.  Formaður vill að það komi skýrt fram að þetta eru síður en svo einu tilfellin þar sem óskað er eftir að starfsmenn þessara fyrirtækja mæti strax til vinnu eftir vinnuslys.

Þessi framkoma fyrirtækjanna er að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness með öllu óþolandi og hefur formaður gert alvarlegar athugasemdir við þessa framkvæmd á vinnuslysum bæði hjá Norðuráli og Elkem Íslandi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur þegar krafist þess að haldinn verði fundur þar sem gengið verði frá skriflegu samkomulagi um það hvernig fyrirkomulagi skuli háttað þegar um vinnuslys er að ræða hjá Norðuráli. 

Verkalýðsfélag Akraness vill að þegar um vinnuslys er að ræða þá gefi læknir út læknisvottorð þar sem fram komi hvort viðkomandi starfsmaður sé óvinnufær með öllu eða ekki. Ef hann er óvinnufær með öllu þá eigi forsvarsmenn fyrirtækja ekki að krefjast þess að viðkomandi starfsmaður mæti til starfa. Ef hins vegar starfsmaðurinn treystir sér sjálfur að koma til léttari starfa þá standi honum það til boða. Sú ósk verður hins vegar að koma frá starfsmanninum sjálfum sé hann með vottorð um óvinnufærni vegna þess slyss sem hann hefur orðið fyrir.

Eins og áður sagði þá er þessi framkoma með öllu óþolandi og mun Verkalýðsfélag Akraness ekki sætta sig við hana.

06
Aug

Laun vinnuskólabarna mismunandi eftir sveitarfélögum

Stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands hafa að undanförnu verið að gera samburð á launum hjá vinnuskólabörnum sem starfa hjá sveitarfélögum vítt og breitt um landið. 

Verkalýðsfélag Akraness gerði lauslega könnun á þeim launum sem 14, 15 og 16 ára börn og unglingar fá fyrir vinnuframlag sitt hjá Akraneskaupstað samanber unglinga hjá öðrum sveitarfélögum. Fram kemur í þessum könnunum að umtalsverður munur virðist vera þar á og ekki virðast vera sömu viðmiðanir þegar þessi laun eru reiknuð.

Við samanburð kemur ýmislegt fróðlegt í ljós, sérstaklega þegar stór sveitarfélög á borð við Reykjavík, Akureyri og Akranes eru borin saman við sveitarfélög á landsbyggðinni eins og má sjá í könnuninni. Vestfirsk sveitarfélög og sveitarfélög á Austurlandi koma almennt vel út í þessum samanburðartölum.

Mesta athygli hlýtur að vekja hve lág laun vinnuskólabarna eru hjá svo vel stæðum sveitarfélögum eins Reykjavík, Akureyri og Akranesi saman borið við þau sveitarfélög sem greiða hæstu launin.

16 ára unglingur sem starfar í vinnuskólanum hjá Ísafjarðabæ er með 702,16 kr á tímann en 16 ára unglingur sem starfar í vinnuskólanum hjá Akraneskaupstað er með 538 kr á tímann og munar hér 164 kr á tímann eða 30,5%.

Hægt er að skoða samanburðinn með því að smella á meira.
 

Til að finna út hlutfall af launum þá var miðað við kjarasamning sveitafélaga og SGS  launaflokkur 115 - 1 þrep, en þar eru grunnlaun kr. 126.857 ,- og  hlutfall dagvinnu er  0.615% eða kr. 780.17 pr/klst.


Eftirfarandi samanburður hefur verið gerður á launum ungmenna sem starfa hjá sveitarfélögum í vinnuskólum vítt og breitt um landið

 

Akranes

1992 -16 ára  538 kr           = 68,9%

1993- 15 ára  405 kr           = 51,9%

1994- 14 ára  361 kr           = 46,2%

                                meðalt. 55,6 %

Takmarkað við 7 klst. á dag. 

 

 

Vestfirðir

Ísafjörður.

1992 -16 ára  702,16 kr           = 90,0%

1993- 15 ára  585,13 kr           = 75,0%

1994- 14 ára  507,11 kr           = 65,0%

                                meðalt. 75,0 %

Takmarkað við 6 klst. á dag. 

Súðavík.

1992 -16 ára  702,16 kr           = 90,0%

1993- 15 ára  585,13 kr           = 75,0%

1994- 14 ára  507,11 kr           = 65,0%

                                meðalt. 75,0 %

Vesturbyggð

1992 -16 ára  735,-kr              = 94,2%

1993- 15 ára  537,-kr              = 73,4%

1994- 14 ára  422,-kr              = 54,0%

                                meðalt. 73,9%

Tálknafjörður

1992 -16 ára  735,-kr              = 94,2%

1993- 15 ára  537,-kr              = 73,4%

1994- 14 ára  422,-kr              = 54,0%

                                meðalt. 73,9%

Bolungavík

1992 -16 ára  585,-kr              = 75,0%

1993- 15 ára  507,-kr              = 65,0%

1994- 14 ára  430,-kr              = 55,1%

                                meðalt. 65,0%

Strandabyggð

1992 -16 ára  493,-kr              = 63,2%

1993- 15 ára  415,-kr              = 53,2%

1994- 14 ára  386,-kr              = 49,5%

                                meðalt. 55,3%

Reykhólar

1992 -16 ára  503,-kr              = 64,5%

1993- 15 ára  383,-kr              = 49,1%

1994- 14 ára  341,-kr              = 43,7%

                                meðalt. 52,4%

Þeir sem vinna með sláttuorf eru á 16 ára taxta.

Austurland

 

Fjarðabyggð

1992 -16 ára  705,72 kr           = 90,5%

1993- 15 ára  557,15 kr           = 71,4%

1994- 14 ára  482,86 kr           = 61,9%

                               meðalt.  74,6%

Seyðisfjörður

1992 -16 ára  632,-kr              = 81,0%

1993- 15 ára  527,-kr              = 67,5%

1994- 14 ára  457,-kr              = 58,6%

                               meðalt.  69,0%

Höfn

1992 -16 ára  638,60 kr           = 81,8%

1993- 15 ára  504,16 kr           = 64,6%

1994- 14 ára  436,94 kr           = 56,0%

                                meðalt. 67,5%

 

Eyjafjarðarsvæðið

 

 

Dalvík

1992 -16 ára  623,31 kr           = 79,9%

1993- 15 ára  456,51 kr           = 58,5%

1994- 14 ára  389,79 kr           = 50,0%

                                meðalt. 62,8%

Akureyri

1992 -16 ára  489,-kr              = 62,7%

1993- 15 ára  410,-kr              = 52,5%

1994- 14 ára  359,-kr              = 46,0%

                                meðalt. 53,7%

Fjallabyggð

1992 -16 ára  529-kr               = 67,8%

1993- 15 ára  381,-kr              = 48,8%

1994- 14 ára  327,-kr              = 41,9%

                                meðalt. 52,8%

Reykjavík

1992 -16 ára  486,-kr              = 62,3%

1993- 15 ára  366,-kr              = 46,9%

1994- 14 ára  325,-kr              = 41,6%

                                meðalt. 50,3%

 

Munur á hæsta og lægsta taxta 16 ára 

kr. 216,16  eða 44,5%

Munur á hæsta og lægsta taxta 15 ára 

kr. 219,13  eða 59,9%

Munur á hæsta og lægsta taxta 14 ára 

kr. 182,11  eða 56,0%

05
Aug

Innheimtumálum vegna vangoldinna launa fjölgar hjá félaginu

Það er ljóst að það er byrjað að þrengjast að í byggingariðnaðinum en nú er félagið að vinna í fjórum innheimtumálum fyrir félagsmenn sína vegna vangoldinna launa. Í öllum tilfellum er um að ræða verktaka af höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið að starfa á félagssvæði VLFA. Það liggur fyrir að einhvað að þessum fjórum fyrirtækjum munu verða tekin til gjaldþrotaskipta vegna þeirra erfiðleika sem nú ríkja í þessari grein.

Heildarkrafan sem félagið mun þurfa að innheimta vegna þessara mála nemur vel á sjöttu milljón króna og ljóst að í einhverjum tilfellum munu starfsmenn umræddra fyrirtækja þurfa að bíða í allt að 6 -12 mánuði eftir því að fá laun sín greidd verði fyrirtækin tekin til gjaldþrotaskipta. En Ábyrgðarsjóður launa tryggir laun ef fyrirtækin verða tekin til gjaldþrotaskipta.

Því er ei að neita að formaður ber mikinn kvíðboga fyrir þeim vanda sem nú virðist steðja að byggingariðnaðinum og ljóst að erfiðlega gengur hjá verktökum og fyrirtækjum að fá fjármagn hjá lánastofnunum. Nú er bara að vona að sú efnahagsdýfa sem framundan er muni vara sem allra styst, en það er ljóst að atvinnuástandið hér á Akranesi væri alls ekki gott ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við en þar hefur verið mikill upgangur á liðnum árum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image