• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Oct

Ráðamenn þjóðarinnar vaknið !

Það er óhætt að segja að algjör ringulreið ríki nú á íslenskum vinnumarkaði ef marka má þá holskeflu uppsagna sem nú ríður yfir íslenskan vinnumarkað.  Íslenskir launþegar vita vart hvaðan á sig stendur veðrið og ríkir ótti og angist víða í þjóðfélaginu vegna þeirra uppsagna sem nú dynja á landsmönnum.

Eins og fram kom hér á heimsíðunni í fyrradag þá óttaðist formaður félagsins að fleiri uppsagnir myndu líta dagsins ljós áður en mánuðurinn yrði allur, en á miðvikudaginn sl. var búið að tilkynna 42 einstaklingum um uppsögn í vikunni hér á Akranesi.  Í dag er þessi tala því miður komin uppí 63 einstaklinga.  Sem dæmi þá þurfti fyrirtæki sem tilkynnti á miðvikudaginn um uppsagnir á 13 starfsmönnum að segja upp 9 til viðbótar í dag.  Með öðrum orðum þá ríkir algjört panik hjá atvinnurekendum vegna þess ástands sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar.

Formaður félagsins vill hvetja atvinnurekendur til að virða þær leikreglur og kjarasamninga sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar staðið er að uppsögnum og breytingu á vinnutilhögun.  Sem dæmi þá ætlaði t.d. fyrirtæki að segja upp núverandi vaktakerfi og setja upp nýtt vaktakerfi með einungis nokkurra daga fyrirvara þótt kveðið sé á um að slíkt sé ekki hægt að gera með svo stuttum fyrirvara. 

Stjórn félagsins vill minna félagsmenn sína á að leita upplýsinga hjá félaginu ef þeir eru í minnsta vafa um að verið sé að ganga á kjarasamningsbundinn rétt þeirra.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill segja við ráðamenn þessarar þjóðar, vaknið, því íslenskum fyrirtækjum, launþegum og heimilum er að blæða út.  Stjórn félagsins vill ítreka að ríkisstjórn Íslands verður að koma fyrirtækjum,launþegum og heimilum landsins til hjálpar og það tafarlaust og það aðgerða- og úrræðaleysi sem blasað hefur við þjóðinni að undanförnu verður að heyra sögunni til.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image