• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jan

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar innilega ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að hefja hvalveiðar

Stjórn félagsins fagnar ákvörðun sjávarútvegsráðherraEinar Kr. Guðfinnsson fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf í morgun út reglugerð um veiðar á hrefnu og langreyði til næstu fimm ára og stóraukinn kvóta á þessum veiðitegundum. Leyfilegur heildarafli skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Þessi ákvörðun þýðir að leyfilegt er að veiða allt að 150 langreyðir á árinu og 200 hrefnur. Heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir. Ljóst er að þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra þýðir mikla innspýtingu í atvinnulífið á Vesturlandi. Talið er að 24 til 28 störf geti skapast í kringum hrefnuveiðar og vinnslu og þegar allt sé talið skapist yfir 200 störf kringum veiðar á hrefnu og langreyði.

Veiðar á langreyði hófust í atvinnuskyni haustið 2006 með leyfi til veiða á níu dýrum. Þær hafa legið niðri síðan vegna óvissu um sölu afurða. Nú hefur þeirri óvissu verið eytt, samkvæmt tilkynningu ráðherra. Því má búast við að aukið líf færist yfir athafnasvæði Hvals hf. í Hvalfirði með vorinu.

Eins og Skessuhorn greindi frá nýlega hafa samtök hrefnuveiðimanna beint augum að Akranesi sem framtíðarstað til útgerðar og vinnslu. Gunnar Bergmann Jónsson framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf. segir að ákvörðun ráðherrans sé mikið gleðiefni. Nú verði farið í að gera bátana þrjá klára og húsnæðið sem félagið hefur fengið undir starfsemina á Akranesi, þar sem hrefnukjötið verður unnið. Veiðarnar byrji síðan væntanlega fyrri hluta aprílmánaðar.

Sem kunnugt er hafa markaðir í Japan nú opnast á ný, en ráðherra hefur lagt áherslu á að markaðsmál væru tryggð áður en veiðar yrðu heimilaðar. Sú ákvörðun að veiðiheimildir séu til fimm ára er í samræmi við almenna venju innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þar eru veiðiheimildir, t.d. veiðiheimildir Bandaríkjanna, jafnan ákveðnar til 5 ára í senn.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að samtök hrefnuveiðimanna hafi beint augum sínum að Akranesi sem framtíðarstað til útgerðar- og vinnslu.  Rétt er að minna á að þegar þær níu langreyðar sem veiddar voru haustið 2006 voru þær Langreyðar að hluta til unnar hér á Akranesi og vonandi verður sá háttur einnig hafður á þegar veiðarnar hefjast á nýjan leik, enda myndi það verða töluverð innspýting inní atvinnulífið hér á Akranesi.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun sjávarútvegsráðherra innilega, enda ljóst að með þessari ákvörðun er verið að skapa ný störf hér á Akranesi og ekki veitir af í þeim erfiðleikum sem atvinnulífið á nú við að etja um þessar mundir.  Einnig telur stjórn félagsins öll vísindarleg rök sem mæli með því að hefja hvalveiðar að nýju. Enda er það okkar réttur að nýta okkar auðlindir að teknu tilliti til þeirrar veiðiráðgjafar sem hafrannsóknarstofnun Íslands hefur gefið.

Á vef Skessuhorns er sagt að fljótlega eftir að ákvörðun ráðherrans var kynnt í dag, hafi heyrst raddir innan flokkanna sem vinna að stjórnarmyndun, um að ákvörðun ráðherrans yrði hugsanlega hnekkt eftir að ný stjórn tæki við völdum.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun líta það mjög alvarlegum augum ef þeir flokkar sem nú vinna að stjórnarmyndun taki upp á því hnekkja þessari jákvæðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra, en slík ákvörðun myndi verða þess valdandi að á annað hundruð störf myndu ekki verða að veruleika.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image