• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jan

Aðgerðahópurinn fundaði í gærmorgun

Í gærmorgun var haldinn fundur í aðgerðanefnd sem bæjaryfirvöld Akraneskaupstaðar settu á laggirnar fyrir áramót vegna efnahagshrunsins.  Þeir sem skipa nefndina eru Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Ólafur Þór Hauksson sýslumaður, Sveinborg Kristjánsdóttir félagsmálastjóri, Gunnar Richardsson frá Vinnumálastofnun, og Helga Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjölskyldustofu Akraneskaupstaðar.

Nefndin hefur fundað reglulega frá því hún var stofnuð en hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins og leita leiða til upplýsa bæjarbúa um þau úrræði sem í boði eru hjá hinum ýmsu stofnunum og félagasamtökum vegna ástandsins í íslensku efnahagslífi.

Fyrir áramót stóð aðgerðanefndin til að mynda fyrir opnum upplýsinga- og fræðslufundi sem bar yfirskriftina Úrræði vegna efnahagsmála.

Á fundinum í gærmorgun var farið yfir stöðuna og kom fram í máli nefndarmanna að allir finna fyrir auknu álagi í störfum sínum vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.  Fram kom hjá Gunnari Richardssyni forstöðumanni Vinnumálastofnunar að 270 einstaklingar séu á atvinnuleysisskrá á Akranesi en á sama tíma í fyrra voru skráðir 44 einstaklingar.

Einnig var ákveðið á fundinum að reynt verður að bjóða upp á viðtöl á vegum Ráðgjafarstöð heimilanna en gríðarlegt álag er á þeim aðilum sem sjá um ráðgjafastöðina þessa daganna. Að lokum var ákveðið að vinna að því að bjóða uppá fjármálanámskeið í samvinnu þeirra aðila sem koma að þessum aðgerðahóp.

Ólafur Þór Hauksson sýslumaður tilkynnti að þetta væri síðasti fundur sem hann myndi sitja þar sem hann væri að hverfa til annarra starfa tímabundið í tvö ár en sá sem myndi leysa hann af sem sýslumann myndi taka hans sæti.  En eins og fram hefur komið fram í fréttum þá hefur Ólafur verið skipaður sérstakur saksóknari vegna efnahagshrunsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image