• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jan

Ágreiningi vegna launahækkana starfsmanna Norðuráls vísað til félagsdóms

Í gær fundaði samninganefnd stéttarfélaganna með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna breytinga á launum starfsmanna Norðuráls fyrir árið 2009 . Þetta var þriðji fundurinn sem samningsaðilar hafa átt til að leysa úr ágreiningi um hver hækkun til handa starfsmönnum Norðuráls eigi að vera.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er kveðið á um í kjarasamningi Norðuráls frá árinu 2005 að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Skilningur Verkalýðsfélags Akraness og annarra sem sátu í samninganefndinni 2005 var hvellskýr, en hann er sá að átt hafi verið við meðaltalshækkanir hjá Járnblendiverksmiðjunni Elkem Ísland á Grundartanga og álverksmiðjunni Alcan. Samningsaðilar eru búnir að vera að reyna að komast að samkomulagi um hver meðaltalshækkun í þessum fyrirtækjum var en því miður ríkir ágreiningur á milli aðila um hver sú hækkun sé. Byggist sá ágreiningur á því hve mikið laun í þessum verksmiðjum hækkuðu og hvernig slíkur útreikningur eigi að fara fram.

Verkalýðsfélag Akraness og samninganefndin öll hefur farið yfir þessa tvo kjarasamninga og hefur komist að niðurstöðu um hver þessi meðaltalshækkun sé en eins og áður sagði þá ber útreikningum samningsaðila ekki saman. Því miður ber of mikið á milli aðila til að ástæða hafi verið til að halda viðræðum áfram og var niðurstaða samninganefndarinnar sú að málinu yrði vísað til félagsdóms sem mun dæma í málinu.

Verkalýðsfélag Akraness harmar þessa niðurstöðu því það mun verða þess valdandi að starfsmenn munu ekki fá sína umsömdu hækkun fyrr en félagsdómur hefur tekið málið til afgreiðslu, en á þessari stundu liggur fyrir að það geti tekið allt að 4 til 6 mánuði að fá niðurstöðu í málið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image