• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Jul

Fantagóður samningur handa starfsmönnum Spalar í gjaldskýli Hvalfjarðarganga

Rétt í þessu var Verkalýðsfélag Akraness að kynna fyrir starfsmönnum nýgerðan fyrirtækjasamning sem félagið gerði við Spöl ehf. sem á og rekur Hvalfjarðargöng. Þessi fyrirtækjasamningur nær til starfsmanna sem starfa í gjaldskýlinu við Hvalfjarðargöng. Það er skemmst frá því að segja að það náðist hörkusamningur til handa starfsmönnunum en að meðaltali eru þeir að hækka í launum um tæpar 75.000 kr. á mánuði og gerir sú hækkun að meðaltali um tæp 20%. Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. janúar síðastliðnum sem þýðir að starfsmenn munu fá greiðslu vegna afturvirkni sem nemur yfir 500.000 kr.

Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með þennan samning enda er hann umtalsvert innihaldsríkari heldur en þeir samningar sem gerðir voru á hinum almenna vinnumarkaði þótt í grunninn séu þær viðmiðanir sem þar voru gerðar notaðar. Það er alltaf ánægjulegt þegar góður árangur næst við að bæta kjör okkar félagsmanna og vill félagið þakka forsvarsmönnum Spalar fyrir að hafa tekið þátt í að bæta kjör sinna starfsmanna eins og áður sagði.

22
Jul

Laun starfsmanna Norðuráls taka hækkun launavísitölu upp á 4,32% frá og með 1. júlí

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gerði Verkalýðsfélag Akraness tímamótasamning við Norðurál 17. mars síðastliðinn. Tímamótin voru fólgin í því að laun starfsmanna voru launavísitölutryggð en starfsmenn hækkuðu strax um rúm 6% frá og með 1. janúar síðastliðnum ásamt því að fá 300.000 kr. eingreiðslu hver og einn. Næsta hækkun tekur gildi núna frá 1. júlí síðastliðnum og miðast hún við hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júlí 2015. Nú liggur hækkun launavísitölunnar fyrir og mun hún skila starfsmönnum launahækkun upp á 4,32% sem mun gilda eins og áður sagði frá og með 1. júlí síðastliðnum.

Þetta þýðir að allt hefur gengið upp samkvæmt því sem menn reiknuðu með að samningurinn myndi gefa starfsmönnum á fyrsta árinu en heildarlaunahækkunin nemur um 16% með 300.000 kr. eingreiðslunni sem starfsmenn fengu. Án hennar nemur launahækkunin rúmum 11%. Orlofs- og desemberuppbætur hækka einnig með hækkun launavísitölunnar en þær námu 340.000 kr. samtals en með hækkun launavísitölunnar sem tekur gildi frá og með 1. júlí munu þær fara upp í 354.654 kr. sem er hækkun um 14.654 kr. Þetta þýðir líka að grunnlaun starfsmanns eftir 10 ára starf eru komin uppundir 300.000 kr. á mánuði en heildarlaunin eru tæpar 610.000 kr. með öllu. Næsta hækkun launa starfsmanna Norðuráls mun vera hækkun launavísitölunnar frá júlí 2015 til desember 2015 og taka gildi 1. janúar næstkomandi.   

15
Jul

Kjarasamningur Samiðnar við SA samþykktur

Rafrænni kosningu um kjarasamning Samiðnar við Samtök atvinnulífsins er nú lokið. Skrifað var undir samningin 22. júní síðastliðinn en eftir honum starfa félagsmenn Iðnsveinadeildar Verkalýðsfélags Akraness. Niðurstöður kosningarinnar eru að 66,67% sögðu já en 33,33% sögðu nei. Samningurinn er því samþykktur og gildir hann frá 1. maí 2015 og til loka árs 2018.

Hægt er að kynna sér samninginn nánar hér.

03
Jul

Kosning hafin um kjarasamning Samiðnar við SA

Kosning er nú hafin um kjarasamning Samiðnar við Samtök atvinnulífsins sem skrifað var undir 22. júní, en eftir þeim samningi starfa félagsmenn í Iðnsveinadeild Verkalýðsfélags Akraness.

Kosningin er rafræn og voru kjörgögn póstlögð til félagsmanna á kjörskrá fyrr í vikunni og eru því að berast þeim þessa dagana. Til að kjósa skal smella á hnappinn "Rafræn kosning" hér neðarlega til hægri á síðunni og fylgja leiðbeiningum sem fylgja kjörgögnum. Kosning stendur yfir til kl. 12:00 á hádegi 15. júlí.

Verði samningurinn felldur og samningar takast ekki mun koma til verkfalla 6. september. Verði samningarnir hins vegar samþykktir gilda þeir til loka árs 2018. Mikilvægt er að góð þátttaka verði í kosningunni þannig að vilji félagsmanna sé skýr, ekki síst ef niðurstaðan verður sú að félagsmenn telji að sækja eigi meira en kjarasamningarnir gera ráð fyrir. Félagsmenn eru því hvattir til að nýta atkvæðarétt sinn og láta afstöðu sína í ljós.

Hægt er að skoða kjarasamninginn hér.

01
Jul

Laust orlofshús í Hraunborgum frá 5.-10. júlí

Orlofshús félagsins í Hraunborgum er laust dagana 5. til 10 júlí. Áhugasamir geta bókað tímabilið á skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 

25
Jun

Hækkun menntastyrkja - Landsmennt-Sveitamennt-Ríkismennt

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eru duglegir að sækja um styrki sem þeir eiga rétt á, til dæmis vegna náms. Því er vakin athygli á því að nú hafa þrír sjóðir sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að: Landsmennt, Sveitamennt og Ríkismennt, ákveðið að hækka hámark styrkja sinna en hámarkið hefur verið kr. 60.000 á ári síðustu ár.

Landsmennt

Stjórn Landsmenntar hefur samþykkt að hækka hámarksupphæð einstaklingsstyrkja í 70.000 kr. f.o.m. 1. júlí nk. Upphæð styrkja er miðuð við greidd iðgjöld síðustu 12 mánaða en hægt er að fá styrk (þá lægri) eftir 6 mánaða aðild. Styrkur getur þó aldrei orðið hærri en 70.000 kr eða mest 75% kostnaðar. 

Hækkun á geymdum rétti (uppsafnaður réttur) er eftirfarandi:

  • 2015 verður hægt að taka út kr. 190.000.- fyrir eitt samfellt nám/námskeið. Ferðakostnaður vegna náms getur að hámarki orðið kr. 70.000.- (nær til náms sem hefst e.1.júlí 2015)
  • 2016 verður hægt að taka út kr. 200.000.- og 2017 verði upphæðin orðin 210.000.-

Ekki hefur verið gerð breyting á styrkjum til meiraprófs eða til tómstundanámskeiða. Hækkunin nær til þess náms sem hefst eftir 1. júlí 2015.

Sveitamennt

Stjórn Sveitamenntar hefur samþykkt að hækka hámarksupphæð einstaklingsstyrkja í 75.000 kr. f.o.m. 1. júní 2015. Upphæð styrkja er miðuð við greidd iðgjöld síðustu 12 mánaða en hægt er að fá styrk (þá lægri) eftir 6 mánaða aðild. Styrkur getur þó aldrei orðið hærri en 75.000 kr eða mest 75% kostnaðar. Hækkun á geymdum rétti (3ja ára) verður til samræmis við þessa hækkun kr. 225.000.-.

Hækkunin nær til náms/námskeiða sem hefjast eftir 1. júní 2015. Engin breyting er á styrkjum til meiraprófs eða styrkum til tómstundanámskeiða.

Ríkismennt

Stjórn Ríkismenntar hefur samþykkt að hækka hámarksupphæð einstaklingsstyrkja í 75.000 kr. f.o.m. 1. júní 2015. Upphæð styrkja er miðuð við greidd iðgjöld síðustu 12 mánaða en hægt er að fá styrk (þá lægri) eftir 6 mánaða aðild. Styrkur getur þó aldrei orðið hærri en 75.000 kr eða mest 75% kostnaðar. Hækkun á geymdum rétti (3ja ára) verður til samræmis við þessa hækkun kr. 225.000.-

Hækkunin nær til náms/námskeiða sem hefjast eftir 1. júní 2015. Engin breyting er á styrkjum til meiraprófs eða styrkum til tómstundanámskeiða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image