• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jun

Iðnaðarmenn semja, verkfalli afstýrt

Í gærkvöldi undirritaði Samiðn fyrir hönd aðildarfélaga sinna nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins sem gildir til loka árs 2018, en Verkalýðsfélag Akraness er eitt af aðildarfélögum Samiðnar.


Almennar launahækkanir eru í takt við samninga sem undirritaðir voru 29. maí sl. og voru samþykktir í gær. Almennar launahækkanir eru metnar á um 16% en þær eru breytilegar vegna launaþróunartryggingar. Gerðar eru breytingar á kauptaxtakerfinu. Byrjunartaxti var færður upp í eins árs taxta, öðrum töxtum hliðrað upp en sjö ára taxti fellur út. Þannig hækka byrjunarlaun um rúm 15% strax, en um 30% á samningstímanum. Með breytingum á kauptaxtakerfinu er verið að færa taxtakerfið nær markaðslaunum en það er gert meðal annars til að draga úr félagslegum undirboðum. Auk þessa voru gerðar ýmsar lagfæringar á gildandi kjarasamningi.


Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum. Atkvæðagreiðsla hefst í byrjun næstu viku og lýkur kl. 12:00 miðvikudaginn 15. júlí.

Samninginn má lesa með því að smella hér.

22
Jun

Verkafólk samþykkir nýjan kjarasamning - laun hækka frá 1. maí

Talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á almennum vinnumarkaði sem undirritaður var þann 29. maí síðastliðinn er nú lokið.

Á kjörskrá voru 659. Atkvæði greiddu 161, eða 24,43%.

Já sögðu 133, eða 82,61%

Nei sögðu 26, eða 16,15%

Auðir og ógildir voru 2, eða 1,24%

Samningurinn skoðast því samþykktur og má lesa hann í heild sinni með því að smella hér, en helstu atriði samningsins eru þessi:

  • Gildistími samnings er frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018
  • Taxtar hækka 1. maí 2015 um kr. 25.000
  • Taxtar hækka 1. maí 2016 um kr. 15.000
  • Taxtar hækka 1. maí 2017 um 4,5%
  • Taxtar hækka 1. maí 2015 um 3%
  • Byrjunarlaunaflokkar færðir upp í eins árs þrep og neðstu launaflokkar óvirkjaðir, svo launafólk getur auk áðurgreindra hækkana færst til í taxtakerfinu og hækkað í launum vegna þess, umfram það sem hækkanir taxta segja til um.
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2015 verða 3,2-7,2%, en prósentuhækkunin fer lækkandi eftir hærri tekjuþrepum.
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2016 5,5%
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2017 3%
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2018 2%
  • Lágmarkstekjutrygging hækkar í fjórum þrepum, við undirritun samnings kr. 245.000. Árið 2016 kr. 260.000. Árið 2017 kr. 285.000. Árið 2018 verður hún komin upp í kr. 300.000.
  • Orlofs- og desemberuppbætur fara stighækkandi næstu 3 árin.
  • Sérstök hækkun fiskvinnslufólks, meðal annars tveggja launaflokka hækkun þeirra sem eru með 7 ára starfsaldur.
22
Jun

Síðustu forvöð - kosningu lýkur á hádegi í dag

Nú eru síðustu forvöð fyrir félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi á almennum vinnumarkaði að kjósa um nýja samninginn sem undirritaður var þann 29. maí síðastliðinn.

Kosningu lýkur á hádegi og eru þeir félagsmenn sem fengu lykilorð sent heim í pósti hvattir til að nýta atkvæðarétt sinn og kjósa. Niðurstaða kosningar verður kynnt síðar í dag.

Smelltu hér til að kjósa.

18
Jun

Skrifstofa VLFA verður lokuð eftir hádegi 19. júní

Í tilefni aldarafmælis kosningarréttar kvenna mun Verkalýðsfélag Akraness gefa öllu starfsfólki sínu frí eftir hádegi þann 19. júní og verður skrifstofa félagsins því lokuð frá kl. 12:00 þann dag. Þannig er starfsfólki félagsins gert kleift að sækja hátíðahöld í tilefni dagsins og heiðra minningu þeirra sem börðust fyrir þessum réttindum sem teljast sjálfsögð í dag.

Vegna brýnna erinda verður hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

16
Jun

Kynningum á kjarasamningum lokið - munið að kjósa!

Kjör fiskvinnslufólks lagast umtalsvert!Kjör fiskvinnslufólks lagast umtalsvert!Nú hefur formaður félagsins lokið við að kynna nýgerðan kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði fyrir þeim félagsmönnum sem óskuðu eftir slíkri kynningu. Langstærstur hluti hópsins sem tekur laun eftir kjarasamningi á almennum vinnumarkaði er fiskvinnslufólk, eða uppundir 50%. Það hefur áður komið fram að Verkalýðsfélag Akraness náði sem betur fer að lagfæra kjör þeirra sem starfa í fiskvinnslu umtalsvert í þessum samningi sem og í sér bónussamningi við HB Granda. Þetta þýðir að laun starfsmanna HB Granda hækka frá 1. maí frá 60 þúsundum á mánuði uppí allt að 88 þúsund og þessar hækkanir gera það að verkum að fiskvinnslufólk er nokkuð sátt við þennan samning, þótt alltaf megi gera betur í að lagfæra kjör félagsmanna.

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífins hófst 12. júní og mun henni ljúka kl. 12:00 þann 22. júní nk. Allir kosningabærir félagsmenn fá kynningarbækling sendan í pósti og ætti hann að berast félagsmönnum á næstu dögum. Í bæklingnum má m.a. finna lykilorð sem þarf að nota þegar greitt er atkvæði. Verkalýðsfélag Akraness hvetur alla félagsmenn sem taka laun eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði til að nýta kosningarétt sinn og greiða atkvæði um samninginn.

11
Jun

Kynningarfundir á fullu

Þessa dagana standa yfir kynningar á nýgerðum kjarasamningi verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði. Á mánudaginn var almennur opinn kynningarfundur á Gamla Kaupfélaginu þar sem farið var mjög ítarlega yfir innihald samningsins. Fjölmargar spurningar voru bornar upp á fundinum en heilt yfir voru fundarmenn nokkuð ásáttir.

Í morgun fengu starfsmenn HB Granda á Akranesi kynningu á samningnum og kom fram á þeim fundi að fólk var nokkuð sátt með innihald samningsins, enda er allt eins líklegt að engin fiskvinnsla á Íslandi sé að fá jafn mikla launahækkun og starfsmenn HB Granda, þar sem Verkalýðsfélag Akraness gekk frá mjög innihaldsríkum bónussamningi sem tók gildi 1. apríl og er eðli málsins samkvæmt hluti af þeirri kjarabaráttu sem átt hefur sér stað að undanförnu. En starfsmenn HB Granda eru að hækka frá kr. 60.000 upp í allt að 88.000 krónur á mánuði frá 1. maí 2015.

Á morgun verður samningurinn kynntur fyrir starfsmönnum Akraborgar, sem er lifrarbræðslufyrirtæki þar sem starfa um 50 manns. Þeir félagsmenn sem óska eftir því að fá kynningu inn á vinnustaði eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins.

Kosning um samninginn er rafræn og eru kjörgögn að berast til félagsmanna þessa dagana, en kosningin hefst á morgun 12. júní. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að nýta atkvæðarétt sinn og kjósa um kjarasamninginn. 

Þeir sem eiga eftir að kynna sér innihald samningsins geta haft samband við skrifstofu félagsins. Einnig er vakin athygli á mjög góðum kynningarvef sem SGS hefur látið setja saman um innihald samningsins, þar sem eru upplýsingar á íslensku, ensku og pólsku.

Kynningarvefur SGS um nýja kjarasamninginn (ÍSLENSKA, ENGLISH, POLSKI)

Kynning VLFA fyrir starfsfólk HB Granda

Kynning VLFA fyrir starfsfólk Akraborgar

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image