• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Oct

Gríðarlegur kostnaður vegna internetnotkunar sjómanna

Að undanförnu og á liðnum misserum hafa þónokkuð margir skipverjar sem eru á ífisks- eða frystitogurum og tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness haft samband við félagið og óskað eftir að kannað verði ítarlega hví í ósköpunum kostnaður vegna internetnotkunar um borð í skipunum er jafnmikill og raun ber vitni. Það er alþekkt að skipverji sé að greiða á mánuði yfir 10.-20.000 kr. þó vissulega séu dæmi um lægri upphæðir. Á ársgrundvelli eru því margir skipverjar að greiða yfir 100.000 kr. fyrir internetnotkun um borð í þessum skipum og hefur félagið því verið að leita eftir upplýsingum um í hverju þessi mikli kostnaður er fólginn.

Félagið sendi erindi til HB Granda sem er nú með málið til skoðunar hjá sér en væntanlega er fyrirtækið að kaupa þessa þjónustu af Radíómiðlun. Samkvæmt upplýsingum félagsins þá á þessi mikli kostnaður að vera vegna kaupa á þjónustu um gervihnött sem öll samskipti fara í gegnum. Heildarkostnaður á frystitogara fyrir internetnotkun virðist vera á bilinu 300-350 þúsund á mánuði eða sem samsvarar yfir 4 milljónum á ársgrundvelli. Á ísfiskstogurunum er þessi upphæð eitthvað lægri en skipverjarnir á þessum skipum greiða í kringum 70% af þessum kostnaði.

Það hlýtur að vera hægt að láta kanna ítarlega í hverju þessi mikli kostnaður er fólginn og jafnvel að kanna hvort hægt sé að láta bjóða þessa þjónustu út til að lækka kostnaðinn. Internettenging um borð í þessum skipum er mjög mikilvæg skipverjum til að vera tengdir við umheiminn ef þannig má að orði komast og var mikið framfaraskref þegar þetta varð að veruleika á sínum tíma. En það þýðir ekki að sjómenn séu tilbúnir að borga hvað sem er fyrir þessa þjónustu og því þarf að leita allra leiða til að sjá hvað veldur þessum mikla kostnaði og hvort hægt sé að ná honum niður án þess að skerða þjónustu.  

06
Oct

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings við Akraneskaupstað

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni vísaði Verkalýðsfélag Akraness kjaradeilu félagsins vegna samnings við Akraneskaupstað til ríkissáttasemjara fyrir skemmstu. Ríkissáttasemjari boðaði til fundar sem haldinn var í morgun og var farið yfir þá stöðu sem upp er komin en það er ljóst að lítið sem ekkert hefur þokast þrátt fyrir að kjarasamningur við sveitarfélögin hafi runnið út 1. maí síðastliðinn.

Formaður VLFA greindi frá því að félagsmenn sem taka laun eftir kjarasamningi við sveitarfélögin séu orðnir langþreyttir á hversu langan tíma tekur að ganga frá kjarasamningi. Á fundinum í morgun var hinsvegar gengið frá samkomulagi um að ef að samningurinn klárast í þessum mánuði muni hann gilda frá 1. maí. Af þessari ástæðu var ákveðið að hittast aftur miðvikudaginn 14. október og fara yfir stöðuna en væntanlega fer að sjást til lands hvað þetta varðar enda er kröfugerðin byggð á því að starfsfólk sveitarfélaganna fái sambærilegar hækkanir og verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði sem er að taka laun eftir taxtakerfum.

Hinsvegar eru ljón í veginum sem tengjast sérákvæðum sem félagið er með en þar eru nokkur atriði sem ágreiningur er um. Það er morgunljóst að ef ekki næst sátt við fulltrúa Akraneskaupstaðar hvað þau mál varðar mun félagið grípa til aðgerða til að knýja þau atriði fram. Enda eru þessi sérákvæði réttlætismál og skipta þá félagsmenn sem um ræðir umtalsverðu máli.

Það er alveg ljóst að félagið mun þurfa að funda með forsvarsmönnum Akraneskaupstaðar til að fara yfir og ganga frá þeim ágreiningi sem uppi er hvað sérákvæðin varðar.

Staðan er því þannig að ef ekkert verður búið að gerast á fundinum 14. október þá er allt eins líklegt að félagið muni slíta viðræðum og boða til fundar þar sem tekin yrði ákvörðun um til hvaða aðgerða yrði gripið. Á þessari stundu er ótímabært að segja til um hvort meiri eða minni líkur séu á að það gerist en við skulum vona það besta og að gengið verði frá kjarasamningi sem starfsmenn Akraneskaupstaðar verða sáttir með.

29
Sep

Kjaradeilu við Akraneskaupstað vísað til ríkissáttasemjara

Verkalýðsfélag Akraness hefur vísað deilu félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara. Sá samningur sem um ræðir er samningur sem starfsmenn Akraneskaupstaðar sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness vinna eftir. Umræddur kjarasamningur rann út 1. maí síðastliðinn en Verkalýðsfélag Akraness lagði fram ítarlega kröfugerð á fundi þann 10. ágúst síðastliðinn. Niðurstaðan af þeim fundi var að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga ætluðu að heyra í "stóru félögunum" fyrst og ræða síðan við VLFA. Núna einum og hálfum mánuði síðar hefur félagið engin viðbrögð fengið við kröfugerðinni né fengið neinar upplýsingar um hvort kjarasamningur sé í burðarliðnum við önnur stéttarfélög. Því er félaginu nauðugur einn kostur að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Það liggur algjörlega fyrir að kjör ófaglærðra starfsmanna hjá sveitarfélögunum eru hvað lökust á íslenskum vinnumarkaði um þessar stundir og því gríðarlega mikilvægt að kjör þeirra verði lagfærð umtalsvert í komandi kjarasamningum. Í bréfi til ríkissáttasemjara kemur fram að það gildi ekki sömu lögmál fyrir ófaglært starfsfólk sveitarfélaganna eins og tíðkast vítt og breitt um landið í ráðhúsum þar sem starfsfólk þar semur um allskyns aukagreiðslur eins og til dæmis fasta yfirvinnu, ferðapeninga og önnur hlunnindi. Slíku er alls ekki til að dreifa hvað ófaglært fólk varðar og því afar mikilvægt að launataxtar ófaglærðs fólks hjá sveitarfélögunum verði lagfærðir umtalsvert í komandi kjarasamningum.  

29
Sep

Undirritun vegna ríkissamningsins frestað

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir helgi átti Verkalýðsfélag Akraness von á því að Starfsgreinasambandið myndi undirrita kjarasamning með fulltrúum ríkisins á næstu dögum. Góður gangur hefur verið í viðræðunum við ríkið enda var það reiðubúið til að mæta flestum þeim kröfum sem stéttarfélög innan SGS höfðu lagt fram til þessa. Hinsvegar ákvað samninganefnd ríkisins að óska eftir því að fresta fundi fram á næsta mánudag, 5. október. Ástæða þeirrar beiðni er sú að svokallaður SALEK hópur sem virðist vera að vinna að því að búa til nýtt vinnumarkaðslíkan hér mun funda á næsta mánudag.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ekki farið í grafgötur með það að honum hugnast ekki sú hugmyndafræði sem liggur að baki þessum SALEK hópi enda óttast hann að áhrif stéttarfélaganna við gerð kjarasamninga muni verða skert verulega ef hugmyndir hópsins verða að veruleika. Hinsvegar er mjög erfitt að segja til um hvað þessi hópur er í raun og veru að ræða en það er ljóst að eins og staðan er núna er hann nánast umboðslaus. Allavega eru yfirgnæfandi líkur á að gengið verði frá undirritun kjarasamnings við ríkið á næsta mánudag enda á þessi SALEK hópur ekki að hafa nein áhrif þar á enda mikilvægt að launafólk starfandi hjá ríkinu fái sínar kjarabætur eins fljótt og verða má.  

28
Sep

Stjórnarkjör 2015

Samkvæmt 29. gr.laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2015, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 15. október nk. Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar. Listann er hægt að skoða með því að smella hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

24
Sep

Kjarasamningur við ríkið að fæðast

Margt bendir til þess að hugsanlega sé kjarasamningur að verða til á milli Starfsgreinasambands Íslands og ríkisins og eru umtalsverðar líkur á að skrifað verði undir nýjan kjarasamning í næstu viku. Drög að þessum samningi eru í anda þess sem samið var um við Samtök atvinnulífsins í kjarasamningnum á hinum almenna vinnumarkaði. Í þeim samningi var samið um sérstaka hækkun til þeirra sem voru að vinna á lægstu töxtunum og drögin við ríkið taka að sjálfsögðu mið af því.

Þeir sem vinna eftir kjarasamningum við ríkið og tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eru að stærstum hluta starfsmenn á Heilbrigðisstofnun Vesturlands eða með öðrum orðum á Sjúkrahúsi Akraness.

Hinsvegar er ekki sömu sögu að segja gagnvart sveitarfélögunum, þar hefur lítið sem ekkert þokast og er farið að gæta verulegrar óþreyju hjá stéttarfélögunum í garð sveitarfélaganna. Ef ekki fer að sjást til lands í þeim samningum er allt eins líklegt að deilunni verði áður en langt um líður vísað til ríkissáttasemjara.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image