• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Oct

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings við Akraneskaupstað

Formaður Verkalýðsfélags Akraness átti fund með launanefnd sveitarfélaganna hjá ríkissáttasemjara í gær en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni vísaði félagið kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Farið var yfir stöðuna en það er ljóst að töluverðrar óþreyju er farið að gæta hjá þeim starfsmönnum sem vinna eftir kjarasamningi VLFA við Akraneskaupstað og vonast menn til þess að hægt verði að ganga frá kjarasamningi eins fljótt og kostur er. Það er æði margt í stöðunni sem bendir til þess að kjarasamningur við sveitarfélögin verði með sambærilegu sniði og kauphækkunum og Starfsgreinasamband Íslands samdi um við ríkið fyrir rúmri viku síðan. Sá kjarasamningur gaf í heildina tæp 30% til handa ófaglærðu starfsfólki sem starfar hjá ríkinu.

Það eru fleiri mál sem tengjast þessum kjarasamningi. Þau mál tengjast sérmálum sem Verkalýðsfélag Akraness er með við Akraneskaupstað og hefur formaður átt þónokkuð marga fundi með bæjarstjóra, formanni bæjarráðs og starfsmönnum Akraneskaupstaðar þar sem reynt hefur verið að afgreiða þau sérmál þannig að þau muni ekki flækjast fyrir þegar kjarasamningurinn við launanefnd sveitarfélaga verður klár. Eitt af þeim málum sem um ræðir lýtur að starfsmönnum á leikskólum en þeir hafa verið með sérákvæði sem kveður á um 4% álag en samkvæmt núgildandi sérákvæði er þetta ákvæði dottið út en VLFA er að vinna ötullega að því að þetta ákvæði muni halda sér áfram. Hefur formaður meðal annars gert bæjaryfirvöldum grein fyrir því að félagið muni ekki ganga frá kjarasamningi ef þetta ákvæði verður ekki frágengið sem og nokkur önnur ákvæði. En formaður er nokkuð vongóður með að farsæl niðurstaða fáist ef marka má þá fundi sem hann hefur átt með forsvarsmönnum bæjaryfirvalda en það skýrist á næstu dögum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image