• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jun

Nýr kjarasamningur við Bændasamtök Íslands vegna starfa í landbúnaði

Starfsgreinasambandið hefur gengið frá nýjum kjarasamningi við Bændasamtök Íslands vegna starfsfólks í landbúnaði. Samningurinn tekur sömu hækkunum og samið var um í almennum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins auk þess sem farið var yfir gildissvið samningsins og er nú talað um að hann taki til starfsfólks í landbúnaði en ekki einungis á lögbýlum. Þá voru upphæðir sem draga má frá launum vegna fæðis og húsnæðis hækkaðar lítillega. Samningurinn gildir frá 1. maí 2015 og út árið 2018 eins og aðrir samningar á almennum vinnumarkaði. 

Nýja kjarasamninginn má lesa með því að smella hér.

Nýja kauptaxta vegna starfa í landbúnaði má skoða með því að smella hér.

24
Jun

Fundur í samstarfsnefnd Akraneskaupstaðar og VLFA - fatapeningar hækka

Í gær var fundur með samráðsnefnd Akraneskaupstaðar og Verkalýðsfélags Akraness vegna kjarasamnings þessara aðila, en þessi samráðsnefnd hefur það verkefni að koma saman til að taka á þeim ágreiningsefnum sem koma upp milli samningsaðila og leysa úr þeim ef kostur er.

Þrjú mál voru tekin fyrir á þessum fundi, tvö þeirra eru til frekari skoðunar og vonast formaður til þess að þau fái farsæla niðurstöðu. Annað þeirra lýtur að innröðun starfsmanns í launatöflu samkvæmt starfsmati, en það er mat félagsins að viðkomandi starfsmaður sé kolrangt metinn inn miðað við ábyrgð og umfang þess starfs sem viðkomandi aðili innir af hendi. Hitt málið sem enn er ólokið varðar jöfnun réttinda á milli kjarasamninga Starfsmannafélags Reykjavíkur og Verkalýðsfélags Akraness og var sameininlegur skilningur fulltrúa Akraneskaupstaðar að fundin verði farsæl lausn á því máli.

Málið sem var afgreitt í gær laut að framkvæmd kjarasamninga varðandi fatnað starfsmanna, en umtalsverð óánægja hefur verið hjá starfsmönnum með þá framkvæmd sem hefur verið á þessum þætti og þá fjárhæð sem greidd er vegna fatakaupa. Starfsmenn hafa einungis verið að fá kr. 12.000 á ári til fatakaupa, sem dugar á engan hátt að mati starfsmanna. Samþykkt var að hækka þessa upphæð upp í kr. 16.500 á þessu ári og 20.000 á árinu 2016, til að koma örlítið til móts við starfsmenn. Formaður lagði áherslu á að til viðmiðunar verði hafður raunkostnaður við úthlutun fatnaðar samkvæmt ákvæðum kjarasamnings, og taldi formaður félagsins að núverandi fjárhæð endurspegli ekki þann raunkostnað.

Þetta var svo sem ágætis fundur, en mikilvægt er að tekið sé á þeim ágreiningsefnum sem upp koma af einurð og festu og þau séu afgreidd á skömmum tíma, því það er óþolandi og ólíðandi að uppi sé ágreinigur í málum um langa hríð og ekki sé leitast við að finna lausn á þeim. Því ber að fagna því að brugðist var skjótt við þessum atriðum og vonast formaður eftir því að búið verði að afgreiða öll þessi mál í byrjun ágúst.

23
Jun

Iðnaðarmenn semja, verkfalli afstýrt

Í gærkvöldi undirritaði Samiðn fyrir hönd aðildarfélaga sinna nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins sem gildir til loka árs 2018, en Verkalýðsfélag Akraness er eitt af aðildarfélögum Samiðnar.


Almennar launahækkanir eru í takt við samninga sem undirritaðir voru 29. maí sl. og voru samþykktir í gær. Almennar launahækkanir eru metnar á um 16% en þær eru breytilegar vegna launaþróunartryggingar. Gerðar eru breytingar á kauptaxtakerfinu. Byrjunartaxti var færður upp í eins árs taxta, öðrum töxtum hliðrað upp en sjö ára taxti fellur út. Þannig hækka byrjunarlaun um rúm 15% strax, en um 30% á samningstímanum. Með breytingum á kauptaxtakerfinu er verið að færa taxtakerfið nær markaðslaunum en það er gert meðal annars til að draga úr félagslegum undirboðum. Auk þessa voru gerðar ýmsar lagfæringar á gildandi kjarasamningi.


Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum. Atkvæðagreiðsla hefst í byrjun næstu viku og lýkur kl. 12:00 miðvikudaginn 15. júlí.

Samninginn má lesa með því að smella hér.

22
Jun

Verkafólk samþykkir nýjan kjarasamning - laun hækka frá 1. maí

Talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á almennum vinnumarkaði sem undirritaður var þann 29. maí síðastliðinn er nú lokið.

Á kjörskrá voru 659. Atkvæði greiddu 161, eða 24,43%.

Já sögðu 133, eða 82,61%

Nei sögðu 26, eða 16,15%

Auðir og ógildir voru 2, eða 1,24%

Samningurinn skoðast því samþykktur og má lesa hann í heild sinni með því að smella hér, en helstu atriði samningsins eru þessi:

  • Gildistími samnings er frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018
  • Taxtar hækka 1. maí 2015 um kr. 25.000
  • Taxtar hækka 1. maí 2016 um kr. 15.000
  • Taxtar hækka 1. maí 2017 um 4,5%
  • Taxtar hækka 1. maí 2015 um 3%
  • Byrjunarlaunaflokkar færðir upp í eins árs þrep og neðstu launaflokkar óvirkjaðir, svo launafólk getur auk áðurgreindra hækkana færst til í taxtakerfinu og hækkað í launum vegna þess, umfram það sem hækkanir taxta segja til um.
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2015 verða 3,2-7,2%, en prósentuhækkunin fer lækkandi eftir hærri tekjuþrepum.
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2016 5,5%
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2017 3%
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2018 2%
  • Lágmarkstekjutrygging hækkar í fjórum þrepum, við undirritun samnings kr. 245.000. Árið 2016 kr. 260.000. Árið 2017 kr. 285.000. Árið 2018 verður hún komin upp í kr. 300.000.
  • Orlofs- og desemberuppbætur fara stighækkandi næstu 3 árin.
  • Sérstök hækkun fiskvinnslufólks, meðal annars tveggja launaflokka hækkun þeirra sem eru með 7 ára starfsaldur.
22
Jun

Síðustu forvöð - kosningu lýkur á hádegi í dag

Nú eru síðustu forvöð fyrir félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi á almennum vinnumarkaði að kjósa um nýja samninginn sem undirritaður var þann 29. maí síðastliðinn.

Kosningu lýkur á hádegi og eru þeir félagsmenn sem fengu lykilorð sent heim í pósti hvattir til að nýta atkvæðarétt sinn og kjósa. Niðurstaða kosningar verður kynnt síðar í dag.

Smelltu hér til að kjósa.

18
Jun

Skrifstofa VLFA verður lokuð eftir hádegi 19. júní

Í tilefni aldarafmælis kosningarréttar kvenna mun Verkalýðsfélag Akraness gefa öllu starfsfólki sínu frí eftir hádegi þann 19. júní og verður skrifstofa félagsins því lokuð frá kl. 12:00 þann dag. Þannig er starfsfólki félagsins gert kleift að sækja hátíðahöld í tilefni dagsins og heiðra minningu þeirra sem börðust fyrir þessum réttindum sem teljast sjálfsögð í dag.

Vegna brýnna erinda verður hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image