• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Apr

Fyrirtækjasamningur við Snók skilar starfsmönnum gríðarlegum ávinningi

GrundartangasvæðiðVerkalýðsfélag Akraness gekk frá fyrirtækjasamningi við verktakafyrirtækið Snók þann 10. apríl en umrætt fyrirtæki starfar á Grundartangasvæðinu. Um árabil hafði staðið deila milli Snóks og félagsins þar sem VLFA vildi að starfsmenn Snóks tækju laun sín eftir stóriðjusamningi Elkem Ísland á Grundartanga enda er sá samningur langt um betri en kjarasamingurinn á hinum almenna vinnumarkaði. 

Samkomulag um þetta náðist semsagt og mun það skila starfsmönnum gríðarlegum réttindaauka, ekki bara í formi launahækkana heldur margvíslegra annarra réttinda eins og til dæmis veikinda- og slysaréttar, hækkun á orlofs- og desemberuppbótum og því til viðbótar er dagvinnutímabilið samkvæmt þessum nýja fyrirtækjasamningi ekki 173,33 tímar eins og á hinum almenna vinnumarkaði heldur 156 tímar. 

Það er ljóst að sumir starfsmenn munu hækka í launum um allt að 70-80.000 kr. á mánuði, orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr 112.000 kr. samtals í 327.288 kr. eða sem nemur 215.288 kr. Það er ljóst að þessi fyrirtækjasamningur er gríðarlega mikilvægur enda er núna búið að tryggja að verktakafyrirtækið Snókur sem starfar inni á Grundartangasvæðinu greiðir sömu laun og stóriðjusamningur Elkem Ísland. Með þessu er eins og áður sagði áralangri deilu lokið og gerir Verkalýðsfélag Akraness eðli málsins samkvæmt ekki neinar athugasemdir lengur við þau verkefni sem þetta ágæta fyrirtæki innir af hendi á Grundartangasvæðinu enda búið að tryggja starfsmönnum þau laun sem stóriðjan er að greiða á svæðinu.

21
Apr

Verkfall samþykkt með 98% greiddra atkvæða

Kosningu Verkalýðsfélags Akraness sem og annarra aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands um verkfall lauk á miðnætti. Það er skemmst frá því að segja að kosningaþátttaka var nokkuð góð eða tæp 60%. Verkfallið var samþykkt með afgerandi meirihluta eða tæplega 98% þeirra sem tóku afstöðu. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að íslenskt verkafólk ætlar ekki að láta það óréttlæti og þá misskiptingu sem ríkt hefur í garð verkafólks á liðnum árum og áratugum viðgangast stundinni lengur. 

Það er líka ljóst að verkafólk er tilbúið til að knýja fram réttláta og sanngjarna kröfu, kröfu er lýtur að því að dagvinnulaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. eigi síðar en innan þriggja ára. Verkafólk er tilbúið í blóðug átök til að knýja fram þessa sanngjörnu kröfu og með þessa samstöðu að baki er ljóst að því eru allir vegir færir. 

Það liggur fyrir að verkfallið mun hafa mikil og víðtæk áhrif en eins og fram hefur komið þá nær verkfallið til 116 fyrirtækja á Akranesi. Þar má til dæmis nefna GMR á Grundartanga, flutningafyrirtæki, rútufyrirtæki, verktakafyrirtæki, lifrarbræðsluna, hrognavinnslu, ræstingar, bensínstöðvarnar og meira að segja mun þetta verkfall ná til starfsmanna Spalar sem vinna í gjaldskýlinu í Hvalfjarðargöngum. Einnig liggur fyrir að mötuneyti hjá stóriðjufyrirtækinu Elkem Ísland mun heyra undir þetta verkfall enda starfar starfsfólkið þar eftir kjarasamningnum á hinum almenna vinnumarkaði eftir að Elkem bauð út mötuneyti, ræstingar og annað og það fór í hendur ISS. 

Verkfallið mun hefjast á hádegi þann 30. apríl og standa fram að miðnætti. Síðan mun næsta lota vera frá miðnætti 6. og 7. maí, aftur 19. og 20. maí og að lokum 26. maí ótímabundið.

15
Apr

Kynning fyrir iðnnema í Fjölbrautaskóla Vesturlands

Formaður fór í gær og kynnti fyrir iðnnemum í Fjölbrautaskóla Vesturlands réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Einnig kynnti formaður fyrir iðnnemunum allt það sem Verkalýðsfélag Akraness hefur upp á að bjóða hvað varðar þjónustu og hina ýmsu styrki sem félagið býður sínum félagsmönnum upp á. Félagið er með iðnsveinadeild þannig að þeir sem þarna voru í námi munu væntanlega tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness þegar þeir hafa lokið námi sínu. 

Formaður fór yfir með iðnnemunum launakjör iðnaðarmanna, bæði í trésmíði og einnig kjör iðnaðarmanna á Grundartangasvæðinu en sem dæmi þá eru kjör iðnaðarmanna í stóriðjunum á Grundartanga 30-35% hærri en hjá ófaglærðum. Þannig að það er til mikils að vinna að klára iðnnám enda liggur líka fyrir að atvinnulífið á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness er mjög gott enda mikil uppbygging framundan, meðal annars á Grundartangasvæðinu. 

Þessi kynning er liður í starfsemi félagsins og er þetta annað skiptið á stuttum tíma sem formaður fer í Fjölbrautaskóla Vesturlands með slíka kynningu enda skiptir miklu máli fyrir unga fólkið sem er jafnvel að fara að stíga sín fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði að vera vel meðvitað um réttindi sín og ekki síst skyldur sínar.

14
Apr

Fyrri úthlutun sumarsins 2015 lokið

Fyrri úthlutun orlofshúsa sumarið 2015 er nú lokið og verða svarbréf til allra umsækjenda, hvort sem þeir fengu úthlutað eða ekki, póstlögð í fyrramálið. Þeir sem fengu úthlutað geta nú þegar séð bókun sína á Félagavefnum (undir Orlofshús og Bókunarsaga) og geta á sama stað greitt með greiðslukorti vilji þeir nýta vikuna, eða fellt bókunina niður henti hún ekki. Einnig er hægt að ganga frá greiðslu með millifærslu í heimabanka eða á skrifstofu félagsins. Ganga verður frá greiðslu fyrir eindaga sem er 4. maí. 

Eftir eindaga verða allar ógreiddar bókanir felldar niður og teknar til endurúthlutunar. Allir þeir sem ekki fengu úthlutað í fyrri úthlutun eru sjálfkrafa með í endurúthlutun og einnig geta þeir sem voru seinir fyrir skilað inn umsókn. Þeim sem eiga inni umsókn í endurúthlutun er bent á að hægt er að breyta umsókninni fyrir endurúthlutunina til að auka möguleika á að fá úthlutað þá. Nú þegar er hægt að sjá á Félagavefnum (undir Orlofshúsog Laus orlofshús) hvaða vikur gengu ekki út í fyrri úthlutun. Eftir eindaga mun þessum lausu vikum fjölga umtalsvert þegar búið er að fella niður ógreiddar bókanir.

Frestur til að skila nýjum eða breyttum umsóknum í endurúthlutun er til miðnættis 5. maí. Endilega hafið samband við skrifstofu ef aðstoðar er þörf við umsóknarferlið eða ef spurningar vakna.

14
Apr

Samþykkt 33% launahækkun hjá HB Granda!

Þau stórkostlegu tíðindi gerðust á aðalfundi HB Granda að stjórnarlaun voru hækkuð um 33,3%. Þessu fagnar Verkalýðsfélag Akraness innilega, einfaldlega vegna þess að þetta hlýtur að gilda líka fyrir allt fiskvinnslufólk sem starfar hjá fyrirtækinu, annað væri með hreinustu ólíkindum. 

Þetta er dálítið kaldhæðnislegt að horfa upp á hækkun stjórnarlauna upp á 33,3% á sama tíma og landverkafólk HB Granda á Akranesi er að kjósa um verkfall vegna þess að því stendur einungis til boða launahækkun í kringum 3,3% sem myndi gefa um 6.000-7.000 kr. hækkun á mánuði. Það merkilega í þessu er að einn stjórnarmaðurinn í HB Granda er aðalmaður í stjórn Samtaka atvinnulífsins en hún heitir Rannveig Rist. Eins og allir vita þá mótar aðalstjórn SA kjarastefnu Samtaka atvinnulífsins þannig að Rannveig tók þátt í því að semja kjarastefnu þar sem almennu launafólki er boðið fyrir hönd SA upp á 3,3% en þiggur síðan sjálf hækkun á stjórnarlaunum upp á 33%. Semsagt, komman er tekin í burtu, þristinum ýtt nær öðrum þristi og út koma 33%. 

Það er alveg morgunljóst að starfsmenn HB Granda eru æfir af reiði. Á sama tíma og það stefnir í ein hörðustu verkfallsátök á íslenskum vinnumarkaði hjá verkafólki þá dúndrar stjórn HB Granda blautri tusku framan í starfsmenn með 33% launahækkun til handa stjórnarmönnum og þetta er að gerast þegar fiskvinnslufólkinu er einungis boðið að fá 3,3% í launahækkun.

Samtök atvinnulífsins hafa sagt að þau séu ekki hrifin af krónutöluhækkunum, þau vilji prósentuhækkanir. Gott og vel, ef að fiskvinnslufólki í HB Granda stendur til boða 33% launahækkun við undirskrift, þá er Verkalýðsfélag Akraness til í það, bara koma með samningsdrögin og það verður skrifað undir einn, tveir og þrír. Enda myndi slík prósentuhækkun skila fiskvinnslufólki HB Granda um 80.000 kr. launahækkun á mánuði. Ef að þetta er nálgun sem Samtök atvinnulífsins vilja klára samningana á, ekki krónutöluhækkun heldur sama prósentuhækkun og stjórnarmenn HB Granda fengu síðastliðinn föstudaginn, þá ítrekar VLFA að það yrði samþykkt. 

Það er alveg hvellskýrt og meira að segja morgunljóst að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness munu ekki undir nokkrum kringumstæðum láta svona miskunnarlaust óréttlæti yfir sig ganga. Formaður spyr hluthafa í HB Granda, er ekkert siðferði, er engin réttlætiskennd? Samþykktu menn möglunarlaust 33% launahækkun til handa stjórnarmönnum á sama tíma og fiskvinnslufólk lepur dauðann úr skel? Hví í ósköpunum steig enginn fram á hluthafafundinum íslensku fiskvinnslufólki til varnar? HB Grandi er glæsilegt fyrirtæki sem við Akurnesingar erum stoltir af, hefur vaxið og dafnað og gert frábæra hluti, skilar meðal annars methagnaði ár eftir ár, rúmum 5 milljörðum. Arðgreiðslur upp á 2,7 milljarða. En þegar kemur að fólkinu sem skapar arðinn, þá stendur lítið eftir annað en einn lítill pinnaís. 

Það er full ástæða til að Samtök atvinnulífsins svari því núna: Ógnar 33% launahækkun stjórnarmanna HB Granda ekki stöðugleikanum? Gildir það bara ef íslenskt lágtekjufólk fer fram á leiðréttingu á sínum launum? Samtök atvinnulífsins segja ætíð að það sé ekki hægt að hækka lægstu launin sérstaklega þar sem það hríslist upp allan stigann. Gott og vel, því nú er komið að því að ofurlaun íslenskra forstjóra og stjórnarmanna hríslist niður stigann þannig að þau lendi í vasa íslensks lágtekjufólks. 

Skýr skilaboð til Samtaka atvinnulífsins: Íslenskt verkafólk er tilbúið að fylgja eftir réttlætinu af fullum þunga og mun berjast fyrir því með kjafti og klóm að lágmarkslaun á Íslandi verði 300.000 kr. innan þriggja ára. Þetta ofbeldi sem íslenskt lágtekjufólk hefur þurft að þola í gegnum tíðina, því skal linna í eitt skipti fyrir öll því fyrirtæki sem greiða arðgreiðslur upp á 2,7 milljarða og hækka stjórnarlaun um 33% en dissa sitt eigið fólk með þessum hætti á ekki skilið annað en hörð átök. Átök sem munu að lokum leiða  til þess að íslenskt verkafólk geti haldið mannlegri reisn.    

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image