• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Apr

Samtök atvinnulífsins banna fyrirtækjum að semja beint við stéttarfélögin

Forsvarsmenn ónefnds fyrirtækis höfðu samband við Verkalýðsfélag Akraness og vildu gera samning við félagið fyrir sína starfsmenn. Þeir voru hinsvegar búnir að fá tölvupóst frá Samtökum atvinnulífsins þar sem samtökin kröfðust þess að fyrirtæki innan þeirra gangi alls ekki frá einstökum samningum því slíkt sé verkfallsbrot. 

Það er alveg ljóst að það eru komnir brestir innan Samtaka atvinnulífsins enda hafa forsvarsmenn fjölmargra fyrirtækja nú haft samband og óskað eftir að ganga frá samningum, nánast undantekningalaust í anda þeirrar kröfugerðar sem SGS hefur lagt fram. Nú er greinilega farin að færast harka í málin af hálfu Samtaka atvinnulífsins sem eru byrjuð að slá á fingur aðildarfyrirtækja sinna. 

Það er greinilegt að þeir sem standa að fyrirtækjunum hræðast eðiliega það ástand sem upp er komið á íslenskum vinnumarkaði og það ánægjulega í þessu er það að flest fyrirtækin sem hafa haft samband hafa burði og getu til að ganga að þeim kröfum sem Starfsgreinasambandið hefur lagt fram en þær byggjast á því að dagvinnulaun verði innan þriggja ára orðin 300.000 kr. sem er ígildi 35.000 kr. hækkunar á ári. 

Það má heyra á forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að þau vilji þrátt fyrir þessa ábendingu Samtaka atvinnulífsins ganga frá samningum til að forða sinni starfsemi frá verkföllum og að sjálfsögðu er Verkaýðsfélag Akraness reiðubúið til að ganga frá samningum við einstök fyrirtæki áfram til að leysa þann ágreining sem nú er uppi á borði.  

21
Apr

Verkalýðsfélag Akraness semur við HB Granda um bónusmál!

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmenn HB Granda á Akranesi funduðu í gær með forstjóra HB Granda hér á Akranesi. Til umræðu var að taka upp nýtt bónuskerfi fyrir starfsmenn HB Granda. Var niðurstaða þess fundar að Verkalýðsfélag Akraness gerði forstjóra HB Granda tilboð sem fyrirtækið gekk að nánast óbreyttu.

Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir starfsmenn HB Granda, en rétt er að ítreka að hér er bara um breytingu á bónuskerfi starfsmanna að ræða og hefur ekkert með þær kjaraviðræður sem félagið á í við Samtök atvinnulífsins og eru þessar breytingar á bónuskerfinu því hrein viðbót við það sem um mun semjast á því samningsborði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð gagnrýnt fyrirtæki harðlega þegar þau hafa ekki staðið sig sem skyldi, en félagið er svo sannarlega tilbúið að fagna því sem vel er gert og í þessu tilfelli er full ástæða til að fagna því að fyrirtækið hafi verið tilbúið að deila góðri afkomu sinni með starfsmönnum með nokkuð myndarlegum hætti í formi hækkunar á bónuskerfinu.

Þessi hækkun skilar starfsmönnum HB Granda frá 9% upp í 18% launahækkun, en launahækkunin miðast við að bónusinn taki mið af starfsaldurshækkunum. Taflan hér að neðan sýnir hvaða áhrif þessi hækkun bónuss hefur á starfsmann í launaflokki 9, sem er sérhæfður fiskvinnslumaður. Eins og á töflunni sést þá er fiskvinnslukona eftir 7 ár að hækka í bónus um tæpa 51 þúsund krónur á mánuði, eða um 611.000 kr. á ársgrundvelli.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar að mikil ánægja ríkir með að þetta samkomulag hafi náðst og fagnar enn og aftur því að forsvarsmenn HB Granda hafi verið tilbúnir til að leyfa sínu góða starfsfólki að njóta góðrar afkomu, en sem dæmi þá nær þessi hækkun einnig yfir dótturfyrirtæki HB Granda á Akranesi, sem eru auk frystihúss HB Granda, Laugafiskur, Norðanfiskur og Vignir G. Jónsson. Má áætla að þessi launahækkun nái til allt að 250 starfsmanna í fiskvinnslu á Akranesi, auk þess mun þessi bónushækkun væntanlega gilda líka fyrir öll önnur fiskvinnslufyrirtæki sem HB Granda á, eins og í Reykjavík og Vopnafirði og jafnvel víðar.

Verkalýðsfélag vill ítreka enn og aftur að þetta hefur ekkert með kjarasamningsgerðina að gera hvað varðar hækkun almennra launataxta. Þetta útspil fyrirtækisins lýtur bara að bónusliðnum. Viðræður um önnur kjaraatriði munu fara fram á sameiginlegu borði með Samtökum atvinnulífsins.

21
Apr

Fyrirtækjasamningur við Snók skilar starfsmönnum gríðarlegum ávinningi

GrundartangasvæðiðVerkalýðsfélag Akraness gekk frá fyrirtækjasamningi við verktakafyrirtækið Snók þann 10. apríl en umrætt fyrirtæki starfar á Grundartangasvæðinu. Um árabil hafði staðið deila milli Snóks og félagsins þar sem VLFA vildi að starfsmenn Snóks tækju laun sín eftir stóriðjusamningi Elkem Ísland á Grundartanga enda er sá samningur langt um betri en kjarasamingurinn á hinum almenna vinnumarkaði. 

Samkomulag um þetta náðist semsagt og mun það skila starfsmönnum gríðarlegum réttindaauka, ekki bara í formi launahækkana heldur margvíslegra annarra réttinda eins og til dæmis veikinda- og slysaréttar, hækkun á orlofs- og desemberuppbótum og því til viðbótar er dagvinnutímabilið samkvæmt þessum nýja fyrirtækjasamningi ekki 173,33 tímar eins og á hinum almenna vinnumarkaði heldur 156 tímar. 

Það er ljóst að sumir starfsmenn munu hækka í launum um allt að 70-80.000 kr. á mánuði, orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr 112.000 kr. samtals í 327.288 kr. eða sem nemur 215.288 kr. Það er ljóst að þessi fyrirtækjasamningur er gríðarlega mikilvægur enda er núna búið að tryggja að verktakafyrirtækið Snókur sem starfar inni á Grundartangasvæðinu greiðir sömu laun og stóriðjusamningur Elkem Ísland. Með þessu er eins og áður sagði áralangri deilu lokið og gerir Verkalýðsfélag Akraness eðli málsins samkvæmt ekki neinar athugasemdir lengur við þau verkefni sem þetta ágæta fyrirtæki innir af hendi á Grundartangasvæðinu enda búið að tryggja starfsmönnum þau laun sem stóriðjan er að greiða á svæðinu.

21
Apr

Verkfall samþykkt með 98% greiddra atkvæða

Kosningu Verkalýðsfélags Akraness sem og annarra aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands um verkfall lauk á miðnætti. Það er skemmst frá því að segja að kosningaþátttaka var nokkuð góð eða tæp 60%. Verkfallið var samþykkt með afgerandi meirihluta eða tæplega 98% þeirra sem tóku afstöðu. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að íslenskt verkafólk ætlar ekki að láta það óréttlæti og þá misskiptingu sem ríkt hefur í garð verkafólks á liðnum árum og áratugum viðgangast stundinni lengur. 

Það er líka ljóst að verkafólk er tilbúið til að knýja fram réttláta og sanngjarna kröfu, kröfu er lýtur að því að dagvinnulaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. eigi síðar en innan þriggja ára. Verkafólk er tilbúið í blóðug átök til að knýja fram þessa sanngjörnu kröfu og með þessa samstöðu að baki er ljóst að því eru allir vegir færir. 

Það liggur fyrir að verkfallið mun hafa mikil og víðtæk áhrif en eins og fram hefur komið þá nær verkfallið til 116 fyrirtækja á Akranesi. Þar má til dæmis nefna GMR á Grundartanga, flutningafyrirtæki, rútufyrirtæki, verktakafyrirtæki, lifrarbræðsluna, hrognavinnslu, ræstingar, bensínstöðvarnar og meira að segja mun þetta verkfall ná til starfsmanna Spalar sem vinna í gjaldskýlinu í Hvalfjarðargöngum. Einnig liggur fyrir að mötuneyti hjá stóriðjufyrirtækinu Elkem Ísland mun heyra undir þetta verkfall enda starfar starfsfólkið þar eftir kjarasamningnum á hinum almenna vinnumarkaði eftir að Elkem bauð út mötuneyti, ræstingar og annað og það fór í hendur ISS. 

Verkfallið mun hefjast á hádegi þann 30. apríl og standa fram að miðnætti. Síðan mun næsta lota vera frá miðnætti 6. og 7. maí, aftur 19. og 20. maí og að lokum 26. maí ótímabundið.

15
Apr

Kynning fyrir iðnnema í Fjölbrautaskóla Vesturlands

Formaður fór í gær og kynnti fyrir iðnnemum í Fjölbrautaskóla Vesturlands réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Einnig kynnti formaður fyrir iðnnemunum allt það sem Verkalýðsfélag Akraness hefur upp á að bjóða hvað varðar þjónustu og hina ýmsu styrki sem félagið býður sínum félagsmönnum upp á. Félagið er með iðnsveinadeild þannig að þeir sem þarna voru í námi munu væntanlega tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness þegar þeir hafa lokið námi sínu. 

Formaður fór yfir með iðnnemunum launakjör iðnaðarmanna, bæði í trésmíði og einnig kjör iðnaðarmanna á Grundartangasvæðinu en sem dæmi þá eru kjör iðnaðarmanna í stóriðjunum á Grundartanga 30-35% hærri en hjá ófaglærðum. Þannig að það er til mikils að vinna að klára iðnnám enda liggur líka fyrir að atvinnulífið á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness er mjög gott enda mikil uppbygging framundan, meðal annars á Grundartangasvæðinu. 

Þessi kynning er liður í starfsemi félagsins og er þetta annað skiptið á stuttum tíma sem formaður fer í Fjölbrautaskóla Vesturlands með slíka kynningu enda skiptir miklu máli fyrir unga fólkið sem er jafnvel að fara að stíga sín fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði að vera vel meðvitað um réttindi sín og ekki síst skyldur sínar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image