• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Feb

Formannafundur SGS ályktar um okurvexti fjármálakerfisins

Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem lauk rétt áðan var samþykkt með smávægilegum breytingum ályktun sem formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður Drífanda í Vestmannaeyjum lögðu fram en ályktunin lýtur að okurvöxtum bankanna. Það liggur fyrir að hér er um eitt mesta hagsmunamál íslenskrar alþýðu að ræða enda eru okurvextir fjármálakerfisins að leggjast afar þungt á skuldsetta alþýðu þessa lands. 

Ályktunin hljóðar á eftirfarandi hátt:

Formannafundur SGS tekur undir gagnrýni um mikinn og ólíðandi vaxtamun viðskiptabankanna á Íslandi. Það liggur fyrir að mörg heimili og fyrirtæki hérlendis berjast í bökkum vegna þeirra okurvaxta sem þeim standa til boða.

Það liggur líka fyrir að sá vaxtamunur sem hér ríkir þekkist varla í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þessi mikli vaxtamunur og okurvextir leggjast þungt á skuldsetta alþýðu þessa lands.

Bankakerfið á Íslandi olli íslensku samfélagi gríðarlegum skaða og það er algerlega ótækt  að bönkunum, sem yfirtóku lánasöfn almennings og fyrirtækja með miklum afslætti eftir hrun, skuli í skjóli fákeppninnar leyfast að níðast áfram á almenningi með okurvöxtum og gjaldskrárhækkunum.

Fundurinn fagnar því að forsætisráðherra skuli standa með launafólki í þessu mikla hagsmunamáli  sem vaxtakjör fjármálakerfisins er, ásamt því að taka undir kröfur SGS vegna komandi kjarasamninga,  enda eru hér um brýnustu hagsmunamál alþýðunnar að ræða.

Fundurinn skorar á ríkisstjórnina, Alþingi og fjármálakerfið í heild sinni að taka höndum saman um að skapa hér eðlilegt og sanngjarnt lánaumhverfi þar sem vextir og önnur kjör fjármálakerfisins verði eins og í siðmenntuðum löndum.

25
Feb

Kynning fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hélt kynningu fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands í morgun um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og þá þjónustu sem stéttarfélagið veitir sínum félagsmönnum. 

Það var afar ánægjulegt að uppundir 40 nemendur sátu þessa kynningu og höfðu mikinn áhuga á starfsemi stéttarfélaganna. Fór formaður vel og vandlega yfir mikilvægi þess að launafólk sé vel upplýst og meðvitað um sín réttindi gagnvart sínum vinnuveitanda. Það er hlutverk stéttarfélaganna að upplýsa unga fólkið um réttindi og skyldur á hinum almenna vinnumarkaði og mikilvægi þess að unga fólkið sé meðvitað um að standa sig vel í vinnu og vera með gott orðspor. Staðreyndin er sú að gott orðspor í vinnu gefur fólki betri möguleika á að fá góð störf og góð kjör. 

Eftir kynninguna spurðu nemendur formann fjölmargra spurninga sem hann svaraði eins vel og kostur var á og ítrekaði hann við nemendur að kynna sér vel inni á heimasíðu félagsins öll þau réttindi sem félagið býður upp á. Það er dapurlegt ef fólk verður af réttindum sem það sannarlega á rétt á. Fleiri myndir frá kynningunni má sjá hér.

24
Feb

Fundur um verðtryggingu í Háskólabíói í kvöld

Í kvöld verður haldinn í Háskólabíói kl. 20 fundur undir yfirskriftinni "Verðtryggingin bíður dóms." Að þessum fundi standa Hagsmunasamtök heimilanna og hefur formanni Verkalýðsfélags Akraness verið boðið að sitja í pallborði. Verkalýðsfélag Akraness hefur svo sannarlega látið sig varða málefni og skaðsemi verðtryggingar í gegnum tíðina. Meðal annars er félagið með mál fyrir dómstólum um ólögmæti verðtryggingar er lýtur að 0% verðbólguviðmiði í greiðsluáætlunum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hefur EFTA dómstóllinn dæmt í þessu máli um að fjármálastofnunum sé óheimilt að miða við 0% verðbólgu í lánasamningum neytenda. 

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nýlega í máli Hagsmunasamtakanna að slíkt væri ólöglegt en dæmdi engin viðurlög hvað það varðar sem er óskiljanlegt og vonandi verður þessari niðurstöðu snúið við í dómskerfinu eins fljótt og verða má. 

Á fundinum í kvöld verða:

- Vilhjálmur Bjarnason (ekki fjárfestir), formaður HH 
- Jacky Mallet, Vitvélastofnun Íslands 
- Marinó G. Njálsson, tölvunarfræðingur 
- Þórður Heimir Sveinsson, lögmaður HH 
- Aðalsteinn Sigurðsson, lögfræðingur 
- Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA 
- Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur

24
Feb

Verslum með krónum, ekki prósentum

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands mun koma saman til fundar hjá ríkissáttasemjara kl.11 í dag þar sem farið verður yfir stöðuna og næstu skref. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur Starfsgreinasamband Íslands lagt fram sanngjarna og réttláta kröfugerð sem byggist á því að almennt verkafólk geti framfleytt sér og sínum á dagvinnulaunum og haldið mannlegri reisn. 

Krafan byggist á því að lágmarkslaun hækki jafnt og þétt og verði innan þriggja ára komin upp í 300.000 kr. Þetta er sáttarhönd sem Starfsgreinasambandið hefur rétt Samtökum atvinnulífsins, sáttarhönd sem gengur út á það að jafnt og þétt verði stigin skref í átt til þess að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út en slíku er alls ekki til að dreifa í dag. 

Ugglaust verður rætt á þessum fundi hvað gera skuli í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að Samtök atvinnulífsins hafa alfarið hafnað þessari sanngjörnu kröfu og eru við sama heygarðshornið um að allt fari til fjandans í íslensku samfélagi ef að verkafólki verða réttar einhverjar kjarabætur sem heitið geta. Það liggur fyrir að áróðursmaskína Samtaka atvinnulífsins er afar vel smurð og því haldið fram að lágtekjufólk hafi fengið mestu hækkanirnar í gegnum árin og benda menn á prósentuhækkanir í því samhengi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá blekkja prósentur enda getur hátekjumaður sem fær 150.000 kr. launahækkun á mánuði fengið minni hækkun heldur en verkamaður sem fær 20.000 kr. hækkun og takið eftir, í prósentum. En kjarni málsins hlýtur að vera sá að 150.000 kr. launahækkun er hærri heldur en 20.000 kr. launahækkun. Prósentur blekkja og eru til þess fallnar að dýpka og auka hér misskiptingu og óréttlæti í íslensku samfélagi. Við verslum ekki með prósentum heldur íslenskum krónum.  

24
Feb

Formaður fundar með forsætisráðherra

Formaður mun funda með forsætisráðherra í dag um hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum íslenskrar alþýðu og að sjálfsögðu mun staða kjaramála koma þar sterkt inn. Það hefur verið ánægjulegt að heyra á hinum ýmsu ráðamönnum þjóðarinnar að það verði að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá hvatningu til verkalýðshreyfingarinnar að nota krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana. Það liggur fyrir að krónutöluhækkanir koma þeim tekjulægstu að sjálfsögðu hvað best. 

Formaður mun einnig ræða nýfallinn verðtryggingardóm við ráðherra og mikilvægi þess að ráðist verði sem fyrst í að afnema hér verðtryggingu á neytendalánum. Menn mega ekki sofa á verðinum þó verðbólgan sé lág um þessar mundir því óréttlætið sem fólgið er í verðtryggingunni er svo gríðarlegt þar sem fjármálafyrirtækin eru tryggð í bak og fyrir á meðan neytendur standa eftir varnarlausir. Þetta getur leitt það af sér eins og dæmin sönnuðu í hruninu að allur eignarhluti íslenskra heimila sogist burt þegar verðbólgan lætur á sér kræla og færist yfir til fjármálakerfisins. Enda gengur það ekki upp að hér sé fámenn útvalin elíta sem geti fengið að vera með fjármuni sína verðtryggða á meðan íslenskt launafólk nýtur ekki sömu réttinda.  

24
Feb

Aðalfundur deilda 2015

Sameiginlegur aðalfundur Almennrar deildar, Stóriðjudeildar, Opinberrar deildar, Iðnsveinadeildar og Matvæladeildar verður haldinn á Gamla kaupfélaginu miðvikudaginn 25. febrúar kl. 18:00.

Dagskrá:

1.               Venjuleg aðalfundarstörf

2.               Staða kjaramála

3.               Önnur mál

Boðið verður upp á súpu og brauð að afloknum fundi.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna!

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image