• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Apr

Ætlar Spölur að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur?

Útlit er fyrir að forsvarsmenn Spalar ætli sér að gerast verkfallsbrjótar á fyrsta degi verkfalls, en samkvæmt mati yfirlögfræðings Alþýðusambands Íslands þá liggur fyrir að það er brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur ef öryggisstjóri gengur í störf starfsmanna í gjaldskýlinu við Hvalfjarðargöng.

Þetta mál er með svo miklum ólíkindum, að það nær engu tali. Forsvarsmönnum Spalar hefur verið gert það ljóst að Verkalýðsfélag Akraness er svo sannarlega tilbúið að skoða það með opnum hug að veita fyrirtækinu undanþágu til að uppfylla viðbragðs- og neyðaráætlun í Hvalfjarðargöngum. En í þeirri neyðaráætlun, sem Spölur er aðili að og er unnin í gegnum Almannavarnir Ríkisins, gegna starfsmenn í gjaldskýli veigamiklu öryggishlutverki. Þar kemur meðal annars fram að það er ófrávíkjanleg krafa að gjaldskýlið sé aldrei skilið eftir mannlaust. Það liggur fyrir að fyrstu boð um slys eða óhöpp berast strax til gjaldskýlisins og þar skiptir gríðarlegu máli að gripið sé fumlaust inn í atburðarrásina til að forða frekari hættu, t.d. með lokun gangnanna.

Því miður virðist hroki stjórnenda Spalar ekki ríða við einteyming, því þeir geta ekki einu sinni brotið odd af oflæti sínu og óskað áðurnefndrar undanþágu til að uppfyllla þessar neyðaráætlanir, heldur er margt sem bendir til þess að þeir vilji frekar takmarka öryggi sinna viðskiptavina með fjareftirliti, auk þess sem fyrir liggur eins og áður sagði að öryggisstjóra er óheimilt að ganga í störf starfsmanna Spalar.

Verkalýðsfélag Akraness mun íhuga næstu skref, en það hvarflar ekki að félaginu að fara í slag við Spöl og loka göngunum með átökum, enda bitnar slíkt á öðrum en Speli. Félagið hins vegar harmar það að forsvarsmenn fyrirtækisins ætli að gefa afslátt af öryggi vegfarenda sem eiga viðskipti við Spöl. En gangi öryggisstjóri í störf starfsmanna, eins og útlit er fyrir að hann muni gera, þá verður það eðli málsins kært sem brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Hins vegar telur félagið að Spölur þurfi að svara þeirri spurningu á opinberum vettvangi hvers vegna þeir ætli ekki að uppfylla öryggis- og viðbragðsáætlun sem gefin hefur verið út fyrir göngin, með því að hafa gjaldskýlið alltaf mannað eins og kveðið er á um, en þeir hafa svarað því að þeir telji sig vera að gera það með því að láta öryggisstjóra ganga í störf starfsmanna. Því þarf líka að spyrja þessa ágætu menn að því hvort þeir ætli að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur og traðka þannig á þeim grundvallarmannréttindum sem fólgin eru í verkfallsréttinum.

Félagsmenn vítt og breitt eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins verði þeir vitni að verkfallsbrotum í dag. Einnig er hægt að ná í formann félagsins í síma 8651294.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image