• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
May

Verkafólki boðið 28.000 á sama tíma og flugstjórar fengu 310.000!

Formaður félagsins, sem jafnframt situr í aðalsamningaráði Starfsgreinasambands Íslands, sat í morgun fund með Samtökum atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings SGS við SA. Það er skemmst frá því að segja að þessi fundur var algjörlega árangurslaus og næsti fundur hefur verið boðaður á föstudag. Því er ljóst að verkfall mun skella á á miðnætti og standa yfir næstu tvo sólarhringa.

Ljóst er að mikið ber á milli deiluaðila, en það sem hleypti illu blóði í okkur hjá SGS var bréf sem Samtök atvinnulífsins sendu til aðildarfyrirtækja sinna þar sem því var haldið fram að tilboð SA hljóðaði upp á 20% launahækkun og slíkri hækkun hefði verið hafnað af okkar hálfu. Þessu var að sjálfsögðu mótmælt harðlega vegna þess að í fyrirliggjandi tilboði SA liggur fyrir að í þriggja ára samningi er íslensku verkafólki boðin 28.000 króna hækkun og því til viðbótar var því boðið að breyta yfirvinnuálagi og lengja dagvinnutímabil. En eins og uppsetningin á tilboðinu var, þá liggur fyrir að verkafólk átti sjálft að greiða hlut af sinni launahækkun. Á þeirri forsendu var því komið rækilega á framfæri við forsvarsmenn SA að slíku væri algerlega hafnað.

Á fundinum í dag sagði formaður VLFA Þorsteini Víglundssyni, forstjóra Samtaka atvinnulífsins, að það væri dapurlegt að bjóða íslensku verkafólki 28.000 króna launahækkun á þremur árum, í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að Samtök atvinnulífsins hafi þann 9. desember síðastliðinn samið við flugstjóra um launahækkanir sem námu hvorki meira né minna en 310.000 krónur sem verður komin að fullu innan tveggja ára. Að hugsa sér að barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir því að lágmarkslaun verði 300.000 innan þriggja ára nemi lægri upphæð en flugstjórar fengu í launahækkun nánast á einu bretti.

Hvurslags hræsni er það að öskra hátt og skýrt á íslenskt verkafólk, að það þurfi að sýna ábyrgð og gæta hófsemi, á sama tíma og formaður Samtaka atvinnulífsins, sem jafnframt er forstjóri Icelandair Group, semur við hluta af sínu starfsfólki upp á 310.000 kr. launahækkun á mánuði? Reyndar hefur hann blessaður þrætt fyrir þetta eins og sönnum sprúttsala sæmir, en nú hefur formaður VLFA samninginn og launatöflur undir höndum sem sýna þessa hækkun svo ekki verður um villst. Fulltrúa SA reyndu ekki að þræta fyrir þennan samning á fundinum í dag, enda er slíkt ekki hægt þar sem sönnunin er nú komin upp á yfirborðið. Þessi samningur flugstjóra gefur 23,6%, og má lesa hann með því að smella hér.

Þetta gerir ekkert annað en að hleypa illu blóði í okkar fólk, því að misréttið og misskiptingin í íslensku samfélagi ríður ekki við einteyming. Þetta dæmi sýnir reyndar líka hvernig prósenturnar sem leggjast ofan á mjög há laun, eins og í þessu tilfelli flugstjóra, gefa gríðarlega háa krónutölu, svo háa að hún er hærri en krafa SGS um að dagvinnulaun verði orðin 300.000 innan þriggja ára.

Það er morgunljóst að deilan er í gríðarlegum hnút og það er ábyrgðarhlutur hjá Samtökum atvinnulífsins að fara að reyna að átta sig á þessari stöðu, að við verðum að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi þannig að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. En slíku er ekki til að dreifa í dag. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image