• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
SALEK samkomulaginu verður vísað til félagsdóms Frá undirritun samkomulagsins
04
Nov

SALEK samkomulaginu verður vísað til félagsdóms

Rétt í þessu sleit Verkalýðsfélag Akraness viðræðum við launanefnd sveitarfélaga vegna kjarasamnings sem félagið er með við sambandið vegna starfsmanna sem vinna hjá Akraneskaupstað. Þetta gerði formaður vegna þess að nú liggur fyrir að launanefnd sveitarfélaga vísar í rammasamkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins sem svokallaður SALEK hópur gerði og var undirritað 27. október síðastliðinn.

Forsvarsmenn launanefndar sveitarfélaga segja að í samkomulaginu sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu sé kveðið á um að mörkuð hafi verið samræmd launastefna þar sem tekið skal tillit til launabreytinga sem átt hafa sér stað frá nóvember 2013 og í þessu rammasamkomulagi er kveðið á um að heildar kostnaðaráhrif kjarasamningsins megi ekki vera hærri en 32% í árslok 2018.

Nú hefur komið í ljós að kostnaðaraukinn frá nóvember 2013 fram að núverandi kjaraviðræðum er 11% sem þýðir að starfsmönnum sveitarfélaga vítt og breitt um landið stendur einungis til boða rúm 20% til ársloka 2018.  Með öðrum orðum, forseti Alþýðusambands Íslands var búinn að semja fyrirfram um hverjar heildar launahækkanir til handa starfsmönnum sveitafélaganna mega vera og það þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um sjálfstæðan samningsrétt stéttarfélaganna samkvæmt lögum.

Það er morgunljóst að þetta rammasamkomulag SALEK hópsins stenst alls ekki lög um stéttarfélög og vinnudeilur enda er þar skýrt  kveðið á um að það séu stéttarfélögin sem fara með samningsumboðið fyrir hönd sinna félagsmanna. Á þeirri forsendu stenst það ekki eina einustu skoðun að meðal annars forseti ASÍ sé búinn að ganga frá rammasamkomulagi fyrir öll aðildarfélög innan ASÍ sem kveður á um hvert hámark launahækkana getur orðið. Ekki bara það heldur eru þessir snillingar líka búnir að ákveða hvaða launahækkanir fyrri kjarasamninga skuli dragast frá þeim samningum sem nú eru lausir. Hvernig í himninum getur slíkt staðist frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna á Íslandi sem kveðið er á um í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur?

Það má líka spyrja sig hvað ef getið hefði verið um í þessu rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins að allar launahækkanir á næstu árum yrðu frystar? Það er í raun og veru jafn fáránlegt og að ákveða fyrirfram hverjar hámarkslaunahækkanir mega vera að frádregnum einhverjum fyrirfram gefnum launahækkunum fyrri ára.

Formaður fór ítarlega yfir það með forsvarsmönnum launanefndar sveitarfélaga og ríkissáttasemjara að það sem hér væri búið að gerast í svokölluðum SALEK hóp væri klárt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Í rammasamkomulaginu væri samningsrétturinn fótum troðinn þar sem búið væri að ákveða fyrirfram, án vitneskju stéttarfélagsins, um að 11% skuli koma til frádráttar á því sem um kann að semjast. Ekki bara að það komi til frádráttar heldur er þetta rammasamkomulag líka þannig uppbyggt að það má ekki semja um meira en 32% til ársloka 2018 og það þrátt fyrir að stéttarfélögin séu með frjálsan samningsrétt. Er nokkur furða að helstu forsvarsmenn launagreiðenda á Íslandi skuli fagna þessu samkomulagi eins og enginn sé morgundagurinn?

Á þessari forsendu sem hér hefur verið rakin hefur félagið falið lögmönnum félagsins að láta á það reyna fyrir félagsdómi hvort svokallaður SALEK hópur hafi heimild til að skerða og fótum troða samningsrétt frjálsra stéttarfélaga jafn illilega og kveðið er á um í umræddu rammasamkomulagi. Samkomulagi sem ekki einu sinni hefur farið til atkvæðagreiðslu á meðal almennra félagsmanna Alþýðusambands Íslands. Grundvallaratriðið er það að fulltrúar atvinnulífsins, ríkis og sveitafélaga vísa nú eðlilega í umrætt rammasamkomulag og segjast vera búnir að ganga frá samkomulagi um hverjar launahækkanirnar eiga að vera til ársins 2018. Formaður ítrekar það að þessi vinnubrögð standast enga skoðun, engin lög og eru siðferðislega röng enda er verið að fótum troða lýðræðislegan rétt frjálsra stéttarfélaga til kjarasamningsgerðar.

Lögmenn félagsins eru sammála formanni hvað þessa túlkun varðar og hefur þetta mál verið sett í forgang hjá þeim og vænta má að málinu verði stefnt fyrir félagsdóm innan fárra daga.

Formaður sá sig knúinn til þess í ljósi þess að honum var stillt upp við vegg á grundvelli þessa rammasamkomulags um launahækkanir að slíta þessum viðræðum við launanefnd sveitarfélaga. Enda er það sorglegt til þess að vita að forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands skuli vega svo illilega að sjálfstæði sinna eigin stéttarfélaga með þeim hætti sem birtist í þessu rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image