• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Oct

Fundað vegna netkostnaðar sjómanna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hafa sjómenn gagnrýnt nokkuð harðlega þann mikla kostnað sem þeir þurfa að greiða vegna netnotkunar á sjó. Á þeirri forsendu átti formaður fund með forsvarsmönnum HB Granda og fulltrúa frá Radíómiðlun til að fara yfir þessi mál. Formaður viðurkennir fúslega að hann hefur ekki ýkja mikla þekkingu á þeirri tækni sem fólgin er í þeim tæknibúnaði sem til þarf til að ná netsambandi úti á sjó. Hinsvegar er alveg ljóst að miðað við upplýsingar frá sjómönnum þá er sá kostnaður sem þeir eru að greiða gríðarlega hár. Mjög algengt er að sjómenn séu að borga þetta frá nokkur þúsund krónum upp í jafnvel fleiri tugi þúsunda á mánuði.

Skýringin sem formaður fær er að kostnaður við gervihnattasamband geri þennan kostnað þetta háan en hinsvegar kemur fyrir að skipin geta oft notað 3G til að komast í samband. En einhverra hluta vegna greiða sjómennirnir sama gjald þó slík tenging sé til staðar. Sjómennirnir eru að greiða 10 krónur fyrir hvert Mb. en í landi er hægt að fá það fyrir rétt rúma 3 aura. Það er æði margt sem þarf að fara yfir í þessu máli og útskýra og á þeirri forsendu ætlar HB Grandi að skoða þessi mál betur og í framhaldinu stendur til að funda með öllum áhöfnum á skipum HB Granda og fara yfir og svara spurningum hvað þessi mál varðar. Formaður trúir ekki öðru en að hægt sé að ná verulegri hagræðingu og lækkun á þessari þjónustu til handa sjómönnum því eins og staðan er í dag er þessi kostnaður alltof alltof mikill. Hinsvegar ber öllum saman um að þessi þjónusta sé mikilvæg og skipti miklu máli fyrir sjómenn að geta verið í betra sambandi við umheiminn þegar þeir gegna sínu mikilvæga starfi sem sjómennskan er, fjarri heimahögum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image