• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Oct

Samningaréttur launafólks verður skertur

Það er óhætt að segja að það gangi mikið á á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir en svokallaður SALEK hópur undirritaði í gær nýtt samkomulag undir yfirskriftinni "betri vinnubrögð, betri árangur." Þetta samkomulag var síðan til umfjöllunar á formannafundi Alþýðusambands Íslands í dag. Það er skemmst frá því að segja að formaður Verkalýðsfélags Akraness ber verulegan kvíðboga fyrir þeirri hugmyndafræði sem liggur á bakvið þetta nýja vinnumarkaðslíkan. Vinnumarkaðslíkan sem byggist á því sem gerist á hinum Norðurlöndunum en talað er um að sett verði á laggirnar svokallað þjóðhagsráð aðila vinnumarkaðarins sem muni hafa það hlutverk að meta í hvert sinn sem kjarasamningar eru lausir hvert svigrúm til launahækkana sé.

Það er vonlaust að ætla sér að taka einn þátt út úr norræna vinnumarkaðslíkaninu og heimfæra það yfir á íslenskt fyrirkomulag eins og þann þátt er lýtur að þjóðhagsráðinu. Ef að menn ætla að hverfa til norræna módelsins þá verður að taka alla þá þætti sem eru inni í því módeli og nægir að nefna í því samhengi að launamunur á milli Norðurlandanna og Íslands er í kringum 30-60%. Það er ekkert verið að tala um í þessu nýja vinnumarkaðslíkani að jafna þennan mun, það er verið að tala um að semja um afar hóflegar launahækkanir í anda þess svigrúms sem þjóðhagsráð mun komast að en það svigrúm verður mjög líklega í anda þess sem Seðlabankinn, Samtök atvinnulífsins og fjármálaráðuneytið hafa ætíð komist að þegar samningar eru lausir. Nánast undantekningalaust hafa þeir talað um að svigrúmið sé 3-3,5%. Formaður óttast það að ef þetta vinnumarkaðslíkan verður að veruleika þá sé búið að hlekkja íslenskt launafólk við samræmda láglaunastefnu og ekki verði heimilt að taka tillit til sterkrar stöðu einstaka atvinnugreina og fyrirtækja þegar kemur að mótun kröfugerðar. Semsagt, ekki megi sækja aukna hlutdeild til fyrirtækja sem skila milljörðum eða jafnvel tugum milljarða í hagnað því allir eigi að hlíta því sem þjóðhagsráð ákveður á hverjum tíma fyrir sig.

Það kom fram á formannafundi ASÍ áðan að það er ljóst að samningsréttur stéttarfélaganna verður skertur ef þetta nýja vinnumarkaðslíkan verður að veruleika. Eins og áður sagði þá er ekki nóg að taka einn þátt upp sem tengist norræna módelinu, það þarf að horfa til margra þátta, ekki bara þess mikla launamunar sem er á milli Norðurlandanna og Íslands hvað laun varðar heldur einnig þátta eins og þeirra sem tengjast vöxtum, verðtryggingu og öðru er viðkemur húsnæðismálum neytenda. Svo ekki sé talað um kostnaðarhlutdeild í heilbrigðisþjónustunni.

Já, það er ekki gott að taka einungis þann þátt út þar sem íslensku launafólki verða skammtaðar launahækkanir af hópi aðila sem sitja í svokölluðu þjóðhagsráði á sama tíma og laun margra launamanna duga vart fyrir framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Formaður biður allt launafólk að fylgjast vel með umræðunni og reyna að tryggja með afgerandi hætti að hér sé ekki verið að skerða samningsrétt stéttarfélaganna, samningsrétt sem gerir meðal annars mögulegt að sækja á atvinnugreinar sem hafa skilað góðri afkomu og eru vel aflögufærar til að bæta kjör sinna starfsmanna. Það liggur fyrir að ef Verkalýðsfélag Akraness hefði fylgt eftir samræmdu launastefnunni sem var fyrst mótuð 2011 þá væru laun starfsmanna í stóriðjunum á Grundartanga 1 milljón króna lakari á ársgrundvelli en þau eru í dag. Og það er þetta sem Verkalýðsfélag Akraness hræðist innilega enda byggist hræðslan á því að verða hlekkjuð við samræmda láglaunastefnu næstu áratugina. Formaður er svosem ekki hissa þó fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, stjórnvalda, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila atvinnulífsins skuli fagna þessu samkomulagi enda er það og verður að mati formanns á kostnað íslensks launafólks.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image