• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Töluverð andstaða við hugmyndir SALEK hópsins á þingi SGS Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, ásamt Aðalsteini Baldurssyni, formanni Framsýnar. (Mynd: Bjarni Ólafsson).
15
Oct

Töluverð andstaða við hugmyndir SALEK hópsins á þingi SGS

Rétt í þessu lauk þriggja daga þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Hotel Natura. Verkalýðsfélag Akraness átti 6 fulltrúa á þessu þingi en þeir voru auk formanns félagsins Hafsteinn Þórisson, Bjarni Ólafsson, Jóna Adolfsdóttir, Guðrún Linda Helgadóttir og Hafþór Pálsson. Það hefur verið viðtekin venja að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness hafa ætíð komið á þessi þing til þess að segja sitt álit og taka þátt í þeirri umræðu sem á þingunum fer fram. Á þessu þingi var engin untantekning þar á og flutti formaður meðal annars ræðu en þar fór hann víða um og sagði meðal annars að stigin hefðu verið nokkur jákvæð skref í síðustu kjarasamningum í þá átt að lagfæra laun þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Það kom einnig skýrt fram í hans máli að töluvert er enn í land með að launataxtar og lágmarkslaun séu þannig úr garði gerð að þau dugi fyrir þeim lágmarks framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.


Formaður fór einnig yfir þær hugmyndir sem hafa mikið verið í fréttum að undanförnu og lúta að vinnu svokallaðs SALEK hóps þar sem talað er um að taka upp nýtt vinnumarkaðslíkan hér á landi í anda þess sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Það kom skýrt fram hjá formanni að þessar hugmyndir eru stórhættulegar fyrir íslenska verkalýðshreyfingu og geta að mati hans og reyndar miklu fleiri ógnað tilvist og tilverurétti stéttarfélaganna. Hugmyndirnar ganga meðal annars út á það að það verði fámennur hópur væntanlega hagfræðinga innan úr verkalýðshreyfingunni og launþegamegin sem ákveða hvert svigrúm til launahækkana getur verið. Þetta myndi til að mynda þýða að ef þessi hópur myndi komast að því að svigrúmið væri 3,5% þá yrði það svigrúmið sem stéttarfélögin myndu hafa til samningsgerðar. Það er klárt mál að þetta myndi rýra samningsrétt stéttarfélaganna stórkostlega og myndi meðal annars leiða til þess að stéttarfélög sem hafa sterk og öflug fyrirtæki innan síns félagssvæðis hefðu ekki tök á að sækja sérstaklega um launahækkanir vegna góðrar afkomu fyrirtækjanna. Semsagt, nýja vinnumarkaðslíkanið gengur út á að fest verði í sessi svokölluð samræmd láglaunastefna á íslenskum vinnumarkaði. Töluverð umræða varð á þinginu um þessa hugmynd um nýtt vinnumarkaðslíkan og það er morgunljóst ef marka má viðbrögð margra sem tóku til máls að mönnum hugnast ekki þessar hugmyndir þó vissulega megi finna aðila sem vilja láta skoða þetta nánar. Allavega er eitt ljóst, að Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei taka þátt í því að samningsréttur stéttarfélaganna verði rýrður með þessum hætti og formaður fór yfir það á þinginu að ef Verkalýðsfélag Akraness hefði farið í einu og öllu eftir samræmdu launastefnunni sem um var samið 2011 og 2013 þá væru laun starfsmanna á Grundartanga 1 milljón króna lakari á ársgrundvelli en þau eru í dag. Á þessu sést hvílík vá getur verið fyrir dyrum ef þetta vinnumarkaðsfyrirkomulag verður fest hér í sessi.

Þingið var nokkuð gott og ríkti nokkuð góð samstaða á því en fjölmörg mál voru til umræðu er lutu til dæmis að atvinnumálum, húsnæðismálum og félagslegum undirboðum. Það kom skýrt fram á þinginu að félagslegum undirboðum verða stéttarfélögin að mæta af fullum þunga og koma algjörlega í veg fyrir að ringulreiðin sem ríkti á íslenskum vinnumarkaði vegna félagslegra undirboða á árunum 2005, 2006 og 2007 endurtaki sig. Eins og áður sagði var samstaðan nokkuð góð á þinginu enda bar það yfirskriftina "Sterkari saman." Framundan eru mörg aðkallandi verkefni og því mikilvægt að yfirskrift þingsins verði félögunum að leiðarljósi í þeirri vinnu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image