• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Dec

Verðtryggingarvítisvélin

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað frá 1. janúar 2009 til 1. september 2011 um 18,3 milljarða bara vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar.  Þessu til viðbótar munu verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 3-4 milljarða vegna fyrirhugaðra skattahækkana, samtals eru þetta hækkanir á verðtryggðum skuldum heimilanna frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2012 uppá 22,3 milljarða og þetta er bara vegna hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Íslensk heimili skulda að meðaltali 18 milljónir í verðtryggðum skuldum þannig að jólagjöfin í ár frá ríkisstjórninni til heimilanna er hækkun að meðaltali uppá tæpar 400.000 kr á skuldum heimilanna.  Mér reiknast til að verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna hefi hækkað um hvorki meira né minna en yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, á þessu sést hverslags vítis- og drápsvél verðtryggingin er íslenskum heimilum.

Vítisvél

Verðtryggingarvítisvélin hefur farið á undanförnum árum eins og skýstrókur um skuldsett heimili og sogað allan eignarhluta í burtu frá heimilunum og fært hann yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.

Á sama tíma og íslensk heimili þurfa að horfa uppá 400.000 kr. hækkun á  höfuðstól verðtryggðra skulda að meðaltali vegna hækkunar neysluvísitölunnar vegna skattahækkana, þá hækkar lífeyriseign Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J Sigfússonar fjármálaráðherra um 300.000 kr.  vegna þess að neysluvísitalan mun hækka um 0,2% vegna fyrirhugaðra skattahækkana.

Réttlæti og jöfnuður

Eins og fram hefur komið þá er talið að lífeyriseign forsætisráðherra og fjármálaráðherra sé yfir 150 milljónir hvort fyrir sig.  En þessi gríðarlega lífeyriseign er með ríkisábyrgð og verðtryggð sem gerir það að verkum að skattahækkanir sem fara útí neysluvísitöluna gera ekkert annað en að stórhækka lífeyri æðstu ráðamanna.  Er þetta réttlætið og jöfnuðurinn sem þessi ríkisstjórn vill kenna sig við, að alþýða þessa lands þurfi að horfa upp á 400.000 króna hækkun á höfuðstól sinna lána á meðan lífeyrisréttindi oddvita stjórnarflokkanna hækka um 300.000 krónur vegna áðurnefndrar hækkunar á neysluvísitölunni vegna skattahækkana.

Svo talar forysta ASÍ fyrir því að mikilvægt sé að viðhalda verðtryggingunni til að verja eignir lífeyrissjóðanna en það virðist ekki skipta þessa menn neinu máli þótt verðtryggðar skuldir heimilanna hafi hækkað yfir 300 milljarða frá 1. janúar 2008, já yfir 300 milljarðar hafa verið færðir frá skuldsettum heimilum yfir til fjármagnseigenda, banka, lífeyrissjóða og erlendra vogunarsjóða.  Ég veit ekki betur en að öllu jöfnu ætti húseignin okkar að vera líka okkar lífeyrir.

Verðtryggingarvítisvélinni verður að eyða með öllum tiltækum ráðum því hvaða réttlæti og jöfnuður er það að t.d ofur lífeyrisréttindi æðstu ráðamanna bólgni út á meðan skuldsett heimili horfa uppá eignarhlut sinn sogast í burtu vegna verðtryggingarvítisvélarinnar.

15
Dec

Félagsskírteini 2012

Í lok desember mun félagsskírteini fyrir árið 2012 berast félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness. Einnig verða send út yfirlit vegna greiddra  félagsgjalda á árinu svo og upplýsingabæklingur um sérkjör og afslætti sem félagsmönnum bjóðast gegn framvísun félagsskírteinis.

Athygli er vakin á því að dagbók VLFA verður prentuð í litlu upplagi og ekki send heim til félagsmanna þar sem hún gildir ekki lengur sem félagsskírteini. Hægt verður að nálgast dagbókina um áramót á skrifstofu félagsins eða hafa samband og óska eftir að fá hana senda.

Tvö fyrirtæki hafa bæst við í hóp þeirra sem bjóða félagsmönnum sérkjör og afslætti á árinu 2012, það eru Snyrtistofan Dekur á Dalbraut og Tannlæknastofa Jónasar á Kirkjubraut. Samstarfsfyrirtæki VLFA eru nú orðin 12 talsins:

Tryggingafélagið VÍS: 5% afsláttur af iðgjöldum óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa.

N1: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu, sjá nánar hér..

Olís: Umtalsverður afsláttur á eldsneyti, vörum og þjónustu, sjá nánar hér.

Apótek Vesturlands: 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum).

Gallerí Ozone: 10% afsáttur.

Omnis: 15% afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afslátt af tölvum og öðrum vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GSM símar undanskildir).

Bifreiðaverkstæðið Brautin: 7% afsláttur af vinnu.

Model: Blóm og blómaskreytingar 10%, Hljómtæki / sjónvörp 5-10%, Heimilistæki 10%, Skartgripir 10%, Gjafavara 5-10%, Flísar og önnur gólfefni 10%

Rafþjónusta Sigurdórs: Rafþjónusta Sigurdórs býður félagsmönnum 5% afslátt af vinnu og 10% afslátt af efni.

Bílar og dekk: 10% afsláttur af dekkjum.

Snyrtistofan Dekur: 10% afsláttur

Tannlæknastofa Jónasar Geirssonar: 10% afsláttur af vinnu.

13
Dec

Áskorun til fyrirtækja

Nokkur útgerðarfyrirtæki greiða landverkafólki launauppbót í desemberNokkur útgerðarfyrirtæki greiða landverkafólki launauppbót í desemberÞað er afar ánægjulegt að sjá að nokkur útgerðarfyrirtæki, eins og Síldarvinnslan, Eskja, Brim og Samherji, hafa tilkynnt fiskvinnslufólki að þau ætli að greiða þeim launauppbót umfram gildandi kjarasamninga. Þessar greiðslur nema í sumum tilfellum 300 þúsund krónum nú í desember. Sum þessara fyrirtækja greiddu einnig uppbót í júní og nam sú uppbót rúmum 60 þúsund krónum.

Formanni reiknast til að einstök fiskvinnslufyrirtæki hafi greitt landverkafólki allt að 1 milljón króna á síðustu þremur árum umfram gildandi kjarasamninga. Fyrir slíkt ber að þakka enda kemur það þeim starfsmönnum sem starfa í fiskvinnslunni afar vel, enda launakjör fiskvinnslufólks ekki til að hrópa húrra fyrir.

Hins vegar hryggir það formann Verkalýðsfélags Akraness að t.d eitt stærsta útgerðarfyrirtæki á landinu, HB Grandi, hefur ekki séð sér fært að fylgja þessu glæsilega fordæmi þessara fyrirtækja þegar um launauppbót er að ræða. En í fyrra hafði formaður Verkalýðsfélags Akraness samband við forsvarsmenn HB Granda þar sem óskað var eftir að þeir myndu fylgja fordæmi annarra útgerðarfyrirtækja og greiða álíka uppbót, en því miður var því erindi hafnað.   

 

Þessar launauppbætur sýna hins vegar að það var rétt mat hjá Verkalýðsfélagi Akraness þegar félagið sagði við gerð síðustu kjarasamninga að fiskvinnslufyrirtækin hefðu svo sannarlega borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna umfram svokallaða samræmda launastefnu sem ASÍ og Samtök Atvinnulífsins. Það er því í raun og veru sorglegt að stór og sterk sjávarútvegsfyrirtæki geti skýlt sér á bak við gildandi kjarasamning sem gerður var í anda svokallaðrar samræmdrar launastefnu, samræmdrar launastefnu þar sem lítið sem ekkert tillit mátti taka til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja.

Verkalýðsfélag Akraness telur fulla þörf á að þakka þegar fyrirtæki gera vel við sína starfsmenn umfram gildandi kjarasamninga, enda vílar félagið ekki heldur fyrir sér að gagnrýna fyrirtæki harðlega þegar þau standa sig ekki sem skyldi gagnvart sínum starfsmönnum.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á öll fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði og getu til að fylgja þessu fordæmi þessara fyrirtækja og greiða sínum starfsmönnum launauppbót því ekkert fyrirtæki er án góðra starfsmanna.

09
Dec

Blóðugar uppsagnir

Það er óhætt að segja að tíðindi úr atvinnulífinu hér á Akranesi hafi verið skelfileg að undanförnu en 70 manns hefur verið tilkynnt um blóðugar uppsagnir á undanförnum vikum. Þessar uppsagnir tengjast fyrirtækjum vítt og breitt í okkar samfélagi en 16 manns hefur verið sagt upp hjá Sementsverksmiðjunni, 14 manns hjá trésmíðafyrirtækinu TH, Elkem Ísland hefur sagt upp 5 manns og nú síðast hefur verið tilkynnt að um 30 manns muni missa vinnuna á Sjúkrahúsi Akraness ásamt því að umtalsverður fjöldi starfsmanna verður lækkaður í starfshlutfalli.

Svona gríðarlegar uppsagnir hafa ekki átt sér stað í einum mánuði á atvinnusvæði okkar Akurnesinga frá hruni en í október voru 199 manns án atvinnu á Akranesi og því ljóst að þessi mikli fjöldi sem nú er að missa vinnuna mun hækka atvinnuleysistölur hér á Akranesi gríðarlega.

Það er því undarlegt að hlusta á Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, tala sífellt um að nú sé landið tekið að rísa en það er mat formanns félagsins að það væri nær að segja landið frýs, sérstaklega í ljósi þeirra bláköldu staðreynda sem hér hafa verið raktar. Fjármálaráðherrann hefur einnig talað um aukinn hagvöxt, hagvöxt sem byggist fyrst og fremst á einkaneyslu vegna þess að íslenskt launafólk gengur nú miskunnarlaust á séreignarsparnað sinn til að sjá sér og sínum farborða en bara á þessu ári hefur launafólk tekið út séreignarsparnað sem nemur 25 milljörðum króna.

Það er orðið löngu tímabært að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði, en nú eru um 12 þúsund manns án atvinnu hér á landi.   Það er morgunljóst að það á eftir að fjölga allverulega á atvinnuleysisskránni á næstu mánuðum, þegar áhrifin af þeim miskunnarlausa niðurskurði sem verið hefur í heilbrigðiskerfinu fara að skila sér.

Hvernig má það vera að hundruðum milljóna af almennafé sé dælt til eftirlitsstofnana eins og t.d. Fjármálaeftirlitsins á sama tíma og höggvið er skefjalaust í okkar grunnstoð sem er okkar góða heilbrigðiskerfi.  Einnig er rétt að benda á að í nýgerðu fjárlagafrumvarpi voru  íslenskir skattgreiðendur látnir ábyrgjast allt að 30 milljarða króna vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Þetta gerist á sama tíma og verið er að skera niður í íslensku heilbrigðiskerfi eins og enginn sé morgundagurinn.  Formaður spyr hvers lags forgangsröðun sé fólgin í slíkum aðgerðum.

Það er orðið fátt sem kemur formanni félagsins á óvart þegar íslensk stjórnvöld eru annars vegar og nægir að nefna í því samhengi að það er með ólíkindum að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju skuli ekki einu standa við samkomulag sem gert var við verkalýðshreyfinguna vegna launahækkunar til öryrkja og atvinnulausra. Nú er mál að linni og stjórnvöld taki stöðu með íslenskum almenningi.

01
Dec

Miskunnarlaus niðurskurður

Það er óhætt að segja að gríðarlega alvarlegir hlutir blasi nú við Heilbrigðisstofnun Vesturlands ef fyrirliggjandi fjárlög verða samþykkt. En gert er ráð fyrir að stofnunin þurfi að skera niður um allt að 150 til 200 milljónir á næsta ári sem mun hafa þær skelfilegu afleiðingar í för með sér.  En vel á þriðja tug starfsmanna munu missa vinnuna hér á Akranesi  og umtalsverður fjöldi starfsmanna mun verða lækkaður í starfshlutfalli. Þetta eru blákaldar staðreyndir því það er ljóst að það mun þurfa að loka einni deild á sjúkrahúsinu á Akranesi.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á þann miskunnarlausa niðurskurð sem heilbrigðisstofnunin hefur mátt þola og er það mat formanns félagsins að þessi mikli niðurskurður geti leitt til þess að öryggi sjúklinga verði ógnað. Heilbrigðisstofnunin hefur þurft að skera niður, til dæmis á sjúkrasviði frá árinu 2008 um heil 41% en í heildina nemur niðurskurður hjá stofnuninni frá hruni 25%.  

Við Akurnesingar erum afar stoltir af sjúkrahúsi Akraness og þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á og því er það algjörlega óásættanlegt að horfa upp á hvernig er verið að mylja undan þeirri góðu starfsemi sem þar fer fram. Það er algjörlega morgunljóst að Akurnesingar munu ekki horfa aðgerðarlausir á þann mikla niðurskurð sem nú liggur fyrir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og munu bæjarbúar svo sannarlega fylgjast vel með framvindu þessa máls enda er hér um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir samfélagið hér á Akranesi.

Formaður skorar á Alþingi Íslendinga þegar að þriðja umræða um fjárlögin fer fram á næstu dögum, að sjá til þess að slegin verði  skjaldborg utan um heilbrigðisþjónustuna vítt og breitt um landið enda er heilbrigðisþjónustan hornsteinn í hverju samfélagi fyrir sig.

Það er einnig þyngra en tárum taki að sjá þá forgangsröðun sem stjórnvöld nota þegar kemur að niðurskurði í heilbrigðiskerfinu því það er formanni Verkalýðsfélags Akraness óskiljanlegt að horfa upp á fjárveitingar eins og til dæmis til Sinfóníuhljómsveitar Íslands upp á 800 milljónir á ári og 150 milljónir sem fara til Íslensku óperunnar á sama tíma og þessi miskunnarlausi niðurskurður fer fram á heilbrigðisþjónustu vítt og breitt um landið. Það er einnig hægt að benda á þær gríðarlegu upphæðir sem það kostar að halda úti sendiráðum vítt og breitt um heiminn en sá heildarkostnaður nemur í kringum 2,7 milljarða. Einnig er umhugsunarefni sá gríðarlegi kostnaður sem fylgir aðildarumsókn að ESB en samkvæmt fjárlögum nemur sá kostnaður í kringum 1,4 milljarð á þessu ári. Það hlýtur að vera mun mikilvægara að halda úti öflugu heilbrigðiskerfi heldur en þessum atriðum sem hér hafa verið nefnd, þó með fullri virðingu fyrir þeim. 

Ríkisstjórnin sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti og síðast en ekki síst velferð, getur ekki lagt fram frumvarp sem gerir það að verkum að verið sé að höggva í þá grunnstoð velferðarinnar sem heilbrigðisþjónustan er. Því ítrekar formaður þá áskorun sína að Alþingi Íslendinga sjái til þess að heilbrigðiskerfinu verði hlíft við þessum miskunnarlausa niðurskurði eins og kostur er því ekkert er eins mikilvægt okkur Íslendingum eins og góð heilbrigðisþjónusta.

30
Nov

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness komið út

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness er komið út og verður því dreift á öll heimili á Akranesi og nærsveitum nú í vikunni. Blaðið hefur verið stækkað úr 8 síðum í 12 og er því talsvert efnismeira en áður hefur verið.

Meðal efni blaðsins er aldarminning Herdísar Ólafsdóttur fyrrverandi formanns kvennadeildar, ritara félagsins og starfsmanns skrifstofu í yfir 30 ár og viðtal við Þórarin Helgason sem nýverið lét af störfum í stjórn félagsins. Ferðasaga "eldri deildar" VLFA úr dagsferð til Reykjavíkur fyrr í haust er birt í máli og myndum og auk þess eru í blaðinu ýmsar fréttir af málefnum félagsins.

Til gamans má geta þess að glöggur lesandi hafði samband snemma í morgun vegna myndar sem birt er á bls 6 af stjórn Kvennadeildar VLFA. Á myndina vantar nafn einnar konu, en nú er nafn hennar s.s. vitað. Þarna er um að ræða Guðrúnu Diðriksdóttur sem var ritari Kvennadeildar um langt skeið.

Hægt er að lesa Fréttabréfið með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image