• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Nov

Kolefnisskatturinn stóðst ekki nokkra skoðun þegar á reyndi

Rétt í þessu tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að hann hafi nú fallið frá áformum um svokallaðan kolefnisskatt. Verða þetta að teljast afar jákvæð tíðindi enda hefði skatturinn stefnt atvinnuöryggi hundraða starfsmanna á Grundartangasvæðinu í stórhættu. Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið þátt í að mótmæla þessum skatti harðlega og átti formaður t.a.m. fund ásamt bæjarstjórn Akraness með þingmönnum NV-kjördæmis þar sem þessum áformum var harðlega mótmælt og einnig þeirri linnulausu árás sem stóriðjan hefur mátt þola í opinberri umræðu af hálfu einstaka þingmanna og ráðherra.

Það er alveg ljóst að þetta frumvarp fjármálaráðherrans var afar illa ígrundað enda kom í ljós að þau rök sem ráðherrann notaði varðandi þennan nýja skatt stóðust ekki á nokkurn hátt enda var hér um tvískattlagninu að ræða á fyrirtækin sem hefði stórskaðað rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja.

Nú er bara að vona að þessi vinnubrögð fjármálaráðherrans hafi ekki skaðað Ísland sem fjárfestingarkost fyrir erlenda fjárfesta, en það er alveg ljóst að vinnubrögð af þessu tagi eru ekki til þess fallin að laða að erlenda fjárfestingu. Það er grundvallaratriði að fjárfestar geti treyst stjórnvöldum þegar þeir hafa undirritað m.a. fjárfestingarsamninga til langs tíma.

23
Nov

Sagði fjármálaráðherra ósatt, eða veit hann ekki betur?

Formaður félagsins ásamt bæjarstjóra og oddvitum stjórnmálaflokka hjá Akraneskaupstað átti fund í hádeginu með þingmönnum NV-kjördæmis. Umræðuefni þessa fundar var m.a. sú grafalvarlega staða sem upp er komin vegna fyrirhugaðs kolefnisskatts sem á að leggja á stóriðjufyrirtækin. En eins og fram kom í fréttum í gær þá sagði forstjóri Elkem Ísland að ef af skattinum yrði myndi það þýða endalok verksmiðjunnar á Grundartanga.

Á fundinum fór formaður yfir þessi mál og byrjaði á því að lýsa yfir undrun sinni á ummælum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í fréttum í gær, en þar sagði hann að skattlagnig vegna kolefnis sé minni hér á landi en í nágrannalöndunum. Formaður sagði að annað hvort væri fjármálaráðherrann að segja ósatt eða þá hann hafi hreinlega ekki kynnt sér málið til hlítar því það liggur fyrir skv. Evrópureglugerð um losunarheimildir að ál- og kísiliðnaður eigi að vera undanþeginn kolefnisskatti. Þetta var m.a. innleitt í gegnum EES-samninginn og gildir fyrir Noreg og alla Evrópu. Þannig að þessar fullyrðingar fjármálaráðherra um að slíkur skattur sé víða viðhafður í heiminum eru alrangar. Það er alveg ljóst að þessi vinnubrögð stjórnvalda eru að gera það að verkum að ekki nokkur erlendur fjárfesti hefur áhuga á að koma nálægt Íslandi, þegar þeir geta átt von á því að eftir hafa gert fjárfestingarsamninga til langs tíma geti þeir átt von á óvæntum íþyngjandi álögum sem riðli öllum arðsemisútreikningnum.

Formaður rakti einnig á þessum fundi mikilvægi stóriðjunnar á Grundartanga. Enda eru þessi fyrirtæki að greiða gríðarlegar upphæðir til samfélagsins í formi hinna ýmsu greiðslna eins og launagreiðslna. Vissulega myndi formaður vilja að launin væru hærri í þessum verksmiðjum enda er það hlutverk formanns í stéttarfélagi að berjast fyrir slíku og er þeirri baráttu hvergi nærri lokið. Hins vegar er það bláköld staðreynd að starfsmaður t.d. í Norðuráli eftir 3ja ára starf er með 502 þúsund krónur á mánuði fyrir 182 klst. vinnu. Iðnaðarmaður á vöktum er með 650 þúsund krónur í laun fyrir 182 klst. vinnu.

Formaður lagði einnig þunga áherslu á það við þingmenn að það sé ólíðandi með öllu hvernig allt of margir þingmenn tala með mikilli fyrirlitningu gagnvart stóriðjunni hér á landi. Hann hvatti til þess að fram færi heiðarleg og sanngjörn umræða um stóriðjuna, enda væri það okkur Akurnesingum algjörlega ljóst hversu gríðarlega mikilvæg stóriðjan er samfélaginu okkar og reyndar íslensku þjóðinni allri.

Það kom skýrt fram í máli formanns á fundinum að ef af þessum skatt verður þá er verið að ógna öryggi starfsmanna á Grundartangasvæðinu illilega, enda er morgunljóst að fyrirtæki eins og Elkem Ísland sem vegna nýja skattsins gæti ekki skilað arði til sinna eigenda í náinni framtíð myndi þurfa að hætta starfsemi. Það er hvellskýrt að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgjast gaumgæfilega með þessu máli og ef ekki verður undið ofan af því þannig að atvinnuöryggi félagsmanna verði tryggt þá mun því verða mætt af fullri hörku, enda er það stefna stjórnar VLFA að gæta hagsmuna sinna félagsmanna í hvívetna og það verður gert í þessu máli sem og öðrum.

23
Nov

Einu af stoltum Skagamanna hefur nú blætt út

Útisvæði SementsverksmiðjunnarÚtisvæði SementsverksmiðjunnarSorgartíðindi bárust í dag þegar tilkynnt var um að Sementsverksmiðjan á Akranesi sé að hætta starfsemi. Sementsverksmiðjan hóf starfsemi 1958 og lengi vel störfuðu upp undir 180 manns í verksmiðjunni. Það er þyngra en tárum taki að sjá þetta stolt okkar Skagamanna blæða út eins og það hefur gert á síðustu árum. En rétt er að rifja upp að fyrirtækið var selt 2003 til B.M Vallár, Björgunar, fjárfestingarbanka og norska sementsframleiðandanum Norcem AS, en þessi aðilar áttu 25% í verksmiðjunni hver um sig.

Verksmiðjan var seld á heilar 67 milljónir króna, en það kaupverð fékk aldrei greitt og því til viðbótar á B.M. Vallá að hafa skilið eftir um 400 milljóna króna skuld við Sementsverksmiðjuna þegar B.M. Vallá varð gjaldþrota. Það er með ólíkindum að Sementsverksmiðjan, sem framleiddi að meðaltali um 120.000 tonn á ári á árunum fyrir hrun, framleiðslu sem var nánast yfir framleiðslugetu verksmiðjunnar, skuli nú vera að loka sökum erfiðleika. Ugglaust hefur vantrú atvinnulífsins á íslenskum stjórnvöldum ekki hjálpað til og nægir að nefna í því samhengi fyrirhugaðan kolefnisskatt sem Sementsverksmiðjan hefði ekki og gæti aldrei staðið undir.

Formaður veltir því líka fyrir sér hvort norski aðilinn sem nú á 37% í Sementsverksmiðjunni hafi ætíð stefnt að því að leggja niður verksmiðjuna hér á landi og flytja inn sement frá Noregi. Það er alvarlegt mál þegar sú yfirgripsmikla þekking og hugvit sem starfsmenn Sementsverksmiðjunnar búa yfir skuli nánast hverfa á svipstundu með þessari ákvörðun. Það er einnig umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga þegar hvatt er til að við stöndum vörð um íslenska framleiðslu og verjum íslensk störf eins og kjörorðið "Veljum íslenskt" felur í sér. Það er síðan hunsað þegar kaup á sementi eiga sér stað í hinar ýmsu framkvæmdir, en vitað er að sement hefur verið flutt inn frá Danmörku og Noregi í stórum stíl á undanförnum árum. Rétt er að geta þess að íslenska sementið er unnið úr 90% innlendu hráefni og því er það einnig með miklum ólíkindum að menn skuli ekki reyna að stuðla að því að spara gjaldeyri og viðhalda verksmiðjunni, samfélaginu til heilla.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur afar ólíklegt að rekstur þessarar verksmiðju muni fara af stað aftur, og eru það gríðarleg vonbrigði ef það reynist rétt. Enda hefur Sementsverksmiðjan á undanförnum áratugum verið eitt af hornsteinum okkar samfélags og átt þátt í að byggja okkar sterka samfélag upp.

23
Nov

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

·         Á hverri vinnustöð þar sem vinna að minnsta kosti 5 manns skal kjósa trúnaðarmann. Séu starfsmenn fleiri en 50 skulu trúnaðarmenn vera tveir.

·         Trúnaðarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn.

·         Trúnaðarmenn njóta samkvæmt lögum verndar gegn uppsögnum vegna starfa sinna og ganga fyrir í störf þurfi að koma til uppsagna.

·         Trúnaðarmaður er tengiliður stéttarfélagsins og starfsmanna og fulltrúi félagsins á vinnustað.

·         Trúnaðarmaður á að reyna að leysa úr fyrirspurnum félaga sinna og rannsaka umkvartanir þeirra ef þær varða félagslegan eða lagalegan rétt starfsmanna og nýtur stuðnings stjórnar og starfsmanna félagsins vegna þess.

Fyrirhugað er að halda trúnaðarmannanámskeið eftir áramót. Allir nýir trúnaðarmenn eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins og skrá sig. Aðrir trúnaðarmenn eru einnig beðnir að hafa samband.

Athugaðu hver er trúnaðarmaður á þínum vinnustað. Viljir þú koma á kosningu á þínum vinnustað veitir starfsfólk skrifstofu VLFA fúslega aðstoð við framkvæmdina. Athygli er vakin á því að eftir kosningu trúnaðarmanns þarf að tilkynna um kjörið til félagsins þar sem félagið þarf að tilnefna nýjan trúnaðarmann formlega.

22
Nov

Forstjóri Elkem Ísland boðar lokun verksmiðjunnar ef kolefnisskattur verður að veruleika

Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga mun þurfa að lúta í lægra haldi fyrir hinum nýja kolefnisskatti, verði hann að raunveruleikaJárnblendiverksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga mun þurfa að lúta í lægra haldi fyrir hinum nýja kolefnisskatti, verði hann að raunveruleikaEinar Þorsteinsson, forstjóri járnblendiverksmiðjunnar Elkem Ísland á Grundartanga, sendi rétt í þessu öllum þingmönnum, bæjarfulltrúum og formanni Verkalýðsfélags Akraness, tölvupóst þar sem skýrt er kveðið á um að verði hinn nýi kolefnisskattur að veruleika þá muni það þýða endalok starfsemi verksmiðjunnar. En orðrétt segir forstjórinn:

"Miðað við framleiðsluáætlanir Elkem Ísland ehf mun fyrirhuguð álagning kolefnisgjalds sem lögð verður á félagið verða um.þ.b. 430.000.000 kr árið 2013,  645.000.000 kr árið 2014 og 860.000.000 kr.árið 2015.  Fyrirhugað kolefnisgjald verður því meira en tvöfalt hærra upphæð en meðal hagnaður fyrirtækisins undanfarin tíu ár. Má því vera ljóst að allar forsendur fyrir frekari rekstri Elkem Ísland ehf  í framtíðinni verða gerðar að engu, en fyrirtækið hefur verið ein af megin stoðum atvinnulífs á Vesturlandi í rúmlega 30 ár."

Á þessu sést að þetta mál er dauðans alvara enda er hér í húfi lífsafkoma 300 starfsmanna og um eitt þúsund afleidd störf tengjast einnig verksmiðjunni. Það er ótrúlegt til þess að vita að verksmiðja sem hefur verið rekin í 30 ár og hefur mátt þola gríðarlegar sveiflur í sínum rekstri í gegnum árin muni jafnvel lognast útaf vegna skattpíningar. En meðal annars stóð til að loka verksmiðjunni árið 1992 og 1995 vegna aðstæðna á heimsmarkaði og núna er æði margt sem bendir til þess að þessi verksmiðja sem hefur staðið af sér slíka storma ætli að lúta í lægra haldi fyrir skattpíningu fjármálaráðherrans Steingríms J. Sigfússonar og ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þegar þessi skattur er skoðaður sést algjörlega að það er ekki nokkur vitglóra í þessum hugmyndum enda er allur rekstrarhagnaður fyrirtækisins síðustu 13 ára þurrkaður upp og nánast útilokað að fyrirtækið muni geta skilað jákvæðri rekstrarafkomu í náinni framtíð. Það er ekki að ástæðulausu að forstjóri fyrirtækisins skuli taka svona sterkt til orða þegar hann talar um að rekstur fyrirtækisins sé í algjöru uppnámi vegna þessarar skattpíningar ríkisstjórnarinnar. Erlendir fjárfestar hafa ekki nokkurn áhuga á að koma nálægt Íslandi hvað varðar fjárfestingar hér á landi þegar menn haga sér með þessum hætti. Það er verið að skapa hér rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki sem gerir það að verkum að umtalsverðar líkur eru á því að fyrirtækin lognist út af eins og þetta dæmi sannar.

Á morgun mun formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt oddvitum stjórnmálaflokka í bæjarstjórn eiga fund með þingmönnum Norðvestur-kjördæmis vegna þessa grafalavarlega máls og hefst fundurinn kl. 12 á morgun. Einnig munu málefni Sementsverksmiðjunnar verða til umfjöllunar sem og sá gríðarlegi niðurskurður sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur mátt þola að undanförnu.

21
Nov

Stóriðjufyrirtæki skattlögð úr landi

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir helgi þá mun fjármálaráðherra nú fyrir jól leggja fram frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem kveður á um að tekinn verður upp nýr afar íþyngjandi kolefnisskattur á stóriðjufyrirtækin.

Þessi nýi skattur mun stefna atvinnuöryggi starfsmanna Elkem Ísland í tvísýnu og verða þess valdandi að rekstrarhagnaður fyrirtækisins síðustu ára þurrkast algerlega upp.

Formaður félagsins óttast það að eigendur Elkem Ísland taki ákvörðun að hætta starfsemi hér á landi ef þessar íþyngjandi álögur verða settar á fyrirtækið enda verður þá nánast útilokað fyrir fyrirtækið að skila arði til sinna eigenda.

Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa atvinnu hér þegar svona vinnubrögð eru ástunduð af hálfu stjórnvalda. Nú liggur fyrir að þessi skattastefna Steingríms J. Sigfússonar hefur sett Kísilverið á Reykjanesi í algert uppnám. Framkvæmdir þar áttu að hefjast strax eftir áramót, en áætlað er að um 110 manns komi til með að fá vinnu við Kísilverið á Reykjanesi.

Rétt er að geta þess að í umsögn forstjóra Íslenska Kísilfélagsins til Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis kemur fram að forstjórinn telji að kísiliðnaður fái ekki þrifist á Íslandi ef kolefnisgjaldið verður lögfest og telur mikla áhættu á því að amerískir fjárfestar hætti við verkefnið og neyðist til þess að róa á ný mið.

Ætlar almenningur hér á landi að láta það átölulaust þegar hundruðum starfa er stefnt í verulega hættu og að hætt verði fjárfestingarverkefni eins og Kísilverið á Reykjanesi, framkvæmdir sem myndu skila allt að 110 manns atvinnu.

Formaður félagsins veltir því fyrir sér enn og aftur á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í ljósi þess að þessi skattlagning mun klárlega setja lífsviðurværi hundraða fjölskyldna í algert uppnám og væntanlega setja framkvæmdir kísilveranna í óvissu. Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa áhuga á að fjárfesta hér á landi og skapa atvinnu hér þegar svona vinnubrögð eru ástunduð af hálfu stjórnvalda.

Ætlar ríkisstjórnin að skapa þannig rekstrarskilyrði fyrir stóriðjurnar hér á landi að þegar kreppir að á heimsmarkaði þá séu meiri líkur á því að verksmiðjum verði lokað hér á landi? Það er orðið löngu tímabært að fjármálaráðherrann átti sig á því að velferðarkerfi okkar Íslendinga byggist á því að búa til gjaldeyristekjur. Það verður ekki gert með því að skattleggja útflutningsfyrirtækin út úr landinu með íþyngjandi álögum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image