• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Feb

Trúnaðarmannanámskeið verður haldið 21.-23. mars

Dagana 21. til 23. mars mun Verkalýðsfélag Akraness bjóða upp á trúnaðarmannanámskeið fyrir trúnaðarmenn sína. Það er Félagsmálaskóli Alþýðu sem skipuleggur námskeiðið.

Á námskeiðinu verður m.a. farið yfir hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði, hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum og íslenskur vinnuréttur skv. lögum og reglugerðum kynntur fyrir nemendum.

Starf trúnaðarmanna er afar mikilvægt fyrir starfsemi félagsins og þurfa þeir að taka á ýmsum erfiðum málum í sínu starfi. Námskeiðinu er ætlað að gera trúnaðarmönnunum betur kleift að takast á við starf sitt. Samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmanni heimilt að sækja slík námskeið í allt að eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum.

Skráning er hafin á skrifstofu VLFA í síma 4309900.

01
Feb

Launakröfur að verða klárar

Eins og áður hefur verið greint frá var trésmiðjan TH úrskurðuð gjaldþrota í desember síðastliðnum. TH starfsrækti tvö trésmíðaverkstæði, annað á Akranesi (áður Trésmiðja Þráins) og hitt á Ísafirði (áður Trésmiðjan Hnífsdal). Samtals unnu um 30 manns hjá fyrirtækinu.

Í lögum um gjaldþrotaskipti eru launakröfur skilgreindar sem forgangskröfur í þrotabúið og kemur það í hlut Ábyrgðasjóðs launa að ábyrgjast greiðslur þeirra.

Skrifstofa VLFA er nú að ljúka vinnu við kröfulýsingu í þrotabúið vegna vangreiddra launa þeirra félagsmanna sinna sem störfuðu hjá fyrirtækinu, en frestur til að skila henni inn rennur út í lok mánaðarins. Áætlað er að þessi krafa vegna vangreiddra launa, launa í uppsagnarfresti, orlofs og desember- og orlofsuppbóta nemi ríflega 11 milljónum króna.

27
Jan

Fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda

Nú er að hefjast fiskvinnslunámskeið fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi en samkvæmt kjarasamningi hækka starfsmenn við slíkt námskeið um tvo launaflokka. Með öðrum orðum, þeir fara úr launaflokki 5 sem er almennur fiskvinnslumaður og í sérhæfðan fiskvinnslumann sem er launaflokkur 7.

Því til viðbótar var samið um í síðustu samningum að sérhæfður fiskvinnslumaður sem lokið hefur slíku námskeiði getur farið í viðbótarfiskvinnslunám sem veitir honum tveggja flokka launahækkun til viðbótar sem þýðir að viðkomandi fer í launaflokk 9.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun á mánudaginn fara yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og jafnframt gera grein fyrir hinum ýmsu bónuskerfum sem nú eru í gildi og sýna hver meðaltalsbónus á landinu er sem og hér á Akranesi. Það er skemmst frá því að segja að það er mismunandi á milli fiskvinnslufyrirtækja hver bónus fiskvinnslufólks er. Meðaltalsbónus á landsvísu er 290 kr. en á Akranesi er meðaltalsbónusinn hins vegar 350 kr sem er rúmlega 20% hærri bónus en á landsvísu.

Launataxtar fiskvinnslufólks munu hækka um 11 þúsund krónur frá og með 1. febrúar næstkomandi og einnig mun bónusinn hækka um 3,5% en þó að lágmarki um 10 krónur pr. klst.  

26
Jan

Samið um hækkun kauptryggingar og annarra kaupliða sjómanna

Þann 20. janúar skrifaði Sjómannasamband Íslands undir samkomulag við LÍÚ um hækkanir á kauptryggingu og öðrum kaupliðum frá 1. febrúar nk.

Kjarasamningar sjómanna á fiskiskipum hafa verið lausir frá 1. janúar 2011 og ekki útlit fyrir breytingar á því á næstunni. Í desember 2010 lýsti formaður LÍÚ því yfir að ekki yrði samið við sjómenn fyrr en niðurstaða fengist varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Niðurstaða í því máli hefur ekki enn fengist og því nánast engar viðræður í gangi milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins. Á aðalfundi sjómannadeildar VLFA sem haldinn var 28. desember 2011 voru kjarasamningar m.a. til umræðu og var það mat fundarmanna að algjörlega óásættanlegt væri að halda kjarasamningum sjómanna í herkví vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld. Hins vegar voru fundarmenn sammála um að ámælisvert sé af stjórnvöldum hversu lengi það hefur dregist að leggja fram breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu

Þrátt fyrir samningsleysið hefur LÍÚ fallist á að hækka kauptryggingu og aðra kaupliði hjá sjómönnum um sömu prósentuhækkun og samið var um á almenna vinnumarkaðnum. Hækkunin nemur 3,5% og tekur gildi 1. febrúar næstkomandi eins og áður sagði.

Hér er hægt að nálgast samkomulagið í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast nýja kaupskrá fyrir sjómenn sem tekur gildi 1. febrúar 2012.

26
Jan

Ófærð spillir útleigu á sumarbústaðnum í Svínadal

Það er óhætt að segja að tíðarfarið í vetur hafi haft áhrif á útleigu á sumarbústöðum félagsins, sérstaklega á bústaðnum í Svínadal. En nú er staðan þannig að það er búið að vera meira og minna ófært frá byrjun desember til dagsins í dag og á þeirri forsendu hefur ekki verið hægt að leigja bústaðinn út. Ófærð af þessu tagi hefur ekki verið síðastliðin 10 ár þó vissulega detti út ein og ein helgi sem ekki hefur verið hægt að leigja út sökum ófærðar. 

Einnig hefur dottið út ein og ein helgi í sumarbústað félagsins í Hraunborgum í Grímsnesi sökum ófærðar en aðrir orlofskostir félagsins hafa gengið frábærlega eins og til dæmis bústaðurinn í Húsafelli og síðast en ekki síst í Kjós í Hvalfirði en í bæði þessi hús félagsins hefur verið greiðfært fram til þessa. Nú er bara að vona að tíðin fari að lagast þannig að hægt verði að koma bústöðunum út í fulla útleigu að nýju enda er eftirspurnin gríðarleg um allar helgar.

24
Jan

Loðnuvertíðin að komast á fulla ferð á Akranesi

Það er óhætt að segja að loðnuvertíðin sé nú að fara á fulla ferð í síldarbræðslunni hér á Akranesi. Á fimmtudaginn síðasta landaði Ingunn AK 2000 tonnum og í þessum töluðu orðum er gamla aflaskipið Víkingur AK að landa 1400 tonnum. Í kvöld landar Faxi RE og samkvæmt upplýsingum þá er hann með fullfermi.

Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir enda byggjast laun starfsmanna í síldarbræðslum að stórum hluta á loðnuvertíðinni sjálfri þegar unnið er á vöktum svo ekki sé nú talað um tekjur sjómanna sem byggjast á því að aflist vel. Einnig skiptir þetta íslenskt þjóðarbú mjög miklu máli enda liggur það fyrir að það eru útflutningstekjur sem halda uppi íslenskri velferð og á þeirri forsendu verða það að teljast jákvæðar fréttir að hér stefni í eina bestu loðnuvertíð í mörg ár.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image