• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Mar

Galið kerfi: Meiri vinna - lægri ráðstöfunartekjur

Í vikunni leitaði félagsmaður til skrifstofu félagsins og sagði farir sínar ekki sléttar. Félagsmaðurinn vinnur við ræstingar í hlutastarfi og fær atvinnuleysisbætur á móti. Hún lýsti því þannig að í raun hefði hún minna á milli handanna núna en þegar hún var á fullum atvinnuleysisbótum. Við nánari skoðun hefur nú komið í ljós að vegna breytinga á vinnureglum Vinnumálastofnunar nú um áramótin hefur myndast stór galli í kerfinu sem gerir einmitt þetta að verkum. Þessi kona, sem reynir hvað hún getur að bæta lífsgæði sín með því að vinna hlutastarf eins og henni býðst, hefur lægri mánaðartekjur en sá sem er á fullum atvinnuleysisbótum.

Um áramótin breyttust vinnureglur Vinnumálastofnunar þannig að sá sem er í hlutastarfi og fær greiddar atvinnuleysisbætur á móti má aðeins þéna að hámarki kr. 59.047 í sínu hlutastarfi óháð því hvert starfshlutfallið er. Séu vinnulaun hærri en sem nemur þessu frítekjumarki skerðst bætur um 50% af þeirri upphæð sem umfram er.

Til að setja þetta í samhengi má setja upp dæmi um einstakling sem verið hefur á fullum atvinnuleysisbótum tekur tilboði um 50% hlutastarf:

-Laun fyrir 100% starf á vinnustað hans er kr. 196.000 á mánuði, 50% starfið gerir því kr. 98.000 á mánuði.

-Fullar atvinnuleysisbætur eru kr. 167.176 á mánuði, upphæð 50% atvinnuleysisbóta er því kr. 83.588.

-Laun þessa einstaklings fyrir 50% vinnu eru 38.953 kr. yfir frítekjumarki. Atvinnuleysisbætur skerðast um 50% þeirrar upphæðar eða um kr. 19.476.

-Eftir mánuðinn hefur þessi einstaklingur því 98.000 kr. í vinnulaun og 64.112 kr. í atvinnuleysisbætur eða samtals 162.112 kr. sem er rúmum 5.000 krónum lægri upphæð en sem nemur fullum atvinnuleysisbótum.

Sé þetta dæmi skoðað nánar kemur í ljós að fái þessi einstaklingur starfshlutfallið aukið upp í 75% þá versnar hagur hans enn frekar því þá fengi hann 147.000 kr. í vinnulaun sem er 87.953 kr. yfir frítekjumarki. Upphæð 25% atvinnuleysisbóta er kr. 41.794 og skerðingin myndi þurrka þær alveg út og gott betur. Þessi einstaklingur hefði því 147.000 kr. í brúttótekjur á mánuði fyrir 75% starf. Það er 15.112 kr. minna á mánuði en meðan hann hafði 50% starf og 20.176 kr. minna en meðan hann var með 100% atvinnuleysisbætur.

Á þessu dæmi sést að eftir því sem starfsmaðurinn vinnur meira, minnka ráðstöfunartekjur hans milli mánaða. Það er ekki fyrr en hann fær 85% vinnu á þessum vinnustað að hann jafnar atvinnuleysisbæturnar og í raun hefur hann engan hag af því að taka að sér minna starfshlutfall en það. Hann tapar á því.

Í þessu dæmi er starfsmaðurinn á lágmarkslaunum. Séu launin eitthvað hærri, þá falla atvinnuleysisbætur niður miklu fyrr, sem ætti ekki að vera óeðlilegt í sjálfu sér, nema fyrir þær sakir að vegna þessa kerfisgalla þá gerist það svo harkalega og við svo lágt starfshlutfall að hvatinn til að taka hlutastarfi er enginn.

Það hlýtur þó að vera hagur Vinnumálastofnunar og samfélagsins í heild sinni að sem flestir fái vinnu, hversu lítil sem hún er og sem fæstir þurfi að sækja um atvinnuleysisbætur. Á meðan þessi galli er á kerfinu er ekki um hvata að ræða heldur er fólki refsað illilega í formi tekjutaps fyrir að taka hlutastarfi. Slíkt kerfi getur aldrei gengið upp.

Skrifstofa félagsins hefur vakið athygli á þessum galla og sent ábendingu á forstjóra Vinnumálastofnunar og Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra. Þau svör fengust að málið yrði tekið upp hjá forstjóra og stjórn Vinnumálastofnunar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image