• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jul

Gjafabréf í flug nýtast félagsmönnum vel

Í mars síðastliðnum ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að bjóða félagsmönnum upp á þá nýjung að geta keypt gjafabréf hjá flugfélögunum á afslætti og er skemmst frá því að segja að þessari nýjung hefur svo sannarlega verið vel tekið. Uppundir 250 gjafabréf hafa verið seld á fyrstu 3 mánuðunum og með því er heildarsparnaður félagsmanna ein og hálf milljón vegna þess afsláttar sem félagið býður upp á. Þetta virkar þannig að félagsmenn geta keypt allt að 5 gjafabréf á ári á 19.000 kr.stykkið en virði gjafabréfsins er 25.000 kr. þannig að hver félagsmaður er að spara sér 30.000 kr. séu öll 5 gjafabréfin nýtt. 

Það er ánægjulegt að sjá þegar félagið býður upp á nýjungar að það skuli heppnast jafn vel og raun ber vitni í þessu tilfelli enda er það markmið félagsins að veita félagsmönnum eins góða þjónustu og kostur er og þetta var einn liður í þeirri vegferð. 

Almennt eru félagsmenn duglegir að nýta réttindi sín og má geta þess að á fyrstu 6 mánuðum þessa árs hafa greiðslur úr sjúkrasjóði aukist um 16,5%. Afar ánægjulegt er að fæðingarstyrkir hafa aukist um 26% á fyrstu 6 mánuðunum en hver fullgildur félagsmaður á rétt á 155.000 kr. fæðingarstyrk og ef báðir foreldrar eru félagsmenn þá nemur styrkurinn 310.000 kr. Einnig hefur fjöldi þeirra sem nýta sér heilsufarsskoðunarstyrkinn aukist um 22% og er afar ánægjulegt að sjá hversu vel meðvitaðir félagsmenn VLFA eru um sín réttindi.  

23
Jun

Húsfyllir á fundi um ákvörðun matvælaráðherra

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá tók matvælaráðherra ákvörðun um að fresta hvalveiðum til 1. september. Sú ákvörðun var tekin 5 mínútum áður en hvalavertíðin átti að hefjast með þeim skelfilegu afleiðingum að 150 manns misstu möguleika á miklum tekjum vegna vertíðarinnar. Á grundvelli þessarar ákvörðunar gat Verkalýðsfélag Akraness ekki annað en farið af fullum krafti í að mótmæla þessum gerræðislegu vinnubrögðum. Á þeirri forsendu ákvað félagið að boða til fundar með afar skömmum fyrirvara þar sem þessi ákvörðun matvælaráðherra yrði til umfjöllunar. 

Á fundinn voru boðaðir allir þingmenn norðvesturkjördæmis ásamt matvælaráðherra og formönnum þingflokka sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga. Þrátt fyrir að boðað hafi verið til fundarins með skömmum fyrirvara þá troðfylltist salurinn og hefði vart verið hægt að koma fyrir flugu í fundarsalnum. Fundinum var einnig streymt á visir.is og höfðu því mun fleiri möguleika á að fylgjast með og var sá möguleiki svo sannarlega vel nýttur. Formaður vill þakka Stöð 2/Vísi og visi.is fyrir að hafa streymt þessum fundi en samkvæmt upplýsingum sem hann hefur aflað sér hafa yfir 20.000 manns nú þegar horft á fundinn. Það var frábært framtak hjá þessum aðilum að gefa landsmönnum tækifæri til að sjá fundinn í beinni útsendingu eins og raunin varð.

Fundurinn var gríðarlega góður, hann var málefnalegur og fólk var kurteist þrátt fyrir að málefnið sé viðkvæmt og hafi haft afar slæmar afleiðingar fyrir 150 fjölskyldur sem ætluðu að byggja lífsafkomu sína á þessari vertíð. 

Formaður opnaði fundinn og kom fram í hans máli að heildar launatekjur sem starfsmenn Hvals hf. eru að verða af vegna ákvörðunar matvælaráðherra nemi um 1,2 milljarði og er það fyrir utan launatengd gjöld og áhrifin af þeim fjölmörgu afleiddu störfum sem verða til á meðan á vertíð stendur. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál, að ráðherra geti tekið svona gerræðislega ákvörðun þar sem meðalhófi og andmælarétti er sturtað niður í holræsið. Formaður spurði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hvað þeir ætluðu að gera þegar Hvalur hf. myndi stefna ríkissjóði til bótaskyldu, jafnvel upp á milljarða, ef þessi ákvörðun fengi að standa óhögguð. Ástæðan fyrir þeiri spurningu er sú að það kom fram í máli meðal annars þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þessi ákvörðun stæðist ekki lagalega skoðun. Og ekki bara það heldur hefur matvælaráðherra látið hafa eftir sér að hún hafi ekki haft lagalegar heimildir til að afturkalla veiðileyfið þegar skýrsla Matvælastofnunar kom út. Matvælaráðherra hefur sagt að hún hafi skipt um skoðun eftir að fagráð sem er pólitískt skipað af henni sjálfri skilaði niðurstöðu sinni á rúmlega einu A4 blaði. En það kom ekkert fram í þessu áliti sem ekki hafði áður komið fram í skýrslu Matvælastofnunar á sínum tíma. 

Það kom einnig fram á fundinum að Hvalur hf. hefur verið að vinna að nýjum búnaði sem byggist upp á svokölluðu rafstuði en hvorki fagráð né matvælaráðuneytið höfðu samband við Hval hf. til að kanna þennan nýja búnað eða afla sér upplýsinga um hann. Þetta eru stjórnsýsluvinnubrögð sem eru gjörsamlega ólíðandi með öllu, að einn ráðherra skuli geta gengið gegn stjórnarskrárvörðum atvinnurétti með þessum hætti er eitthvað sem ekki er hægt að láta átölulaust og verður ekki látið átölulaust. 

Verkalýðsfélag Akraness mun reyna að fylgja þessu máli eftir af fremsta megni og vonast til þess að ráðherra sjái að sér en hvatti hinsvegar Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn til að slíta þessu stjórnarsamstarfi ef ákvörðunin fær að standa.  

Hér má sjá bréf sem Verkalýðsfélag Akraness sendi á matvælaráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, atvinnu- og nýsköpunarráðherra og formann atvinnumálanefndar.

Glærur formanns Verkalýðsfélags Akraness frá fundinum má sjá hér.

23
Jun

Nýr kjarasamningur við ríkið samþykktur

Nú er atkvæðagreiðslu lokið um nýjan kjarasamning 18 aðildarfélaga SGS við ríkið en samningurinn var undirritaður þann 15. júní síðastliðinn. Atkvæðagreiðslunni lauk 21. júní og var samningurinn samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá öllum aðildarfélögunum. Kjörsókn var 24,26% og sögðu 92,44% já við samningnum en 4,65% sögðu nei. Af þeim sem kusu tóku 2,91% ekki afstöðu. 

Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. Samkvæmt samkomulagi sem gert var verður gerð ítarleg skoðun á launamun fyrir sömu störf og starfsheiti og þar sem hann finnst verður hann leiðréttur afturvirkt frá 1. apríl síðastliðnum. Að öðru leyti er samningurinn hefðbundinn miðað við það sem ríkið hefur samið um að undanförnu.

16
Jun

Samið við ríkið

Gengið var frá kjarasamningi við ríkið í gær. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var umtalsverður ágreiningur um að leiðrétta þyrfti launamun fyrir sömu störf og sömu starfsheiti en lengi vel hafnaði samninganefnd ríkisins því alfarið. Í gær tókst loksins að ganga frá samkomulagi þar sem fer fram ítarleg skoðun á þessum launamun og þar sem hann finnst verður hann leiðréttur og það afturvirkt frá 1. apríl.

Samningurinn er að öðru leyti hefðbundinn því sem ríkið hefur samið um að undanförnu en meðalhækkun starfsmanna í 100% starfshlutfalli á Heilbrigðisstofnun Vesturlands mun nema rúmum 44.000 kr. á mánuði. Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka, orlofsuppbótin fer upp í 56.000 kr. og desemberuppbætur upp í 103.000 kr. Hér má sjá kjarasamninginn og stutta kynningu á honum.

Sameiginleg rafræn atkvæðagreiðsla félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa skv. kjarasamningnum hefst 16. júní kl. 15:00 og lýkur 21. júní kl. 09:00. Hægt er að fara inn á www.vlfa.is og þar verður linkur inn á rafræna kosningu.

12
May

Efling segir sig úr SGS

Í gær lauk kosningu Eflingar um úrsögn úr Starfsgreinasambandi Íslands en hótun um slíkt hefur vofað yfir sambandinu síðustu misserin. Það er ekki bara að það hafi legið fyrir hótun gagnvart SGS um úrsögn og nægir í því samhengi að nefna að formaður Eflingar hefur margoft talað um að það sé hennar skoðun að Efling fái enga þjónustu frá ASÍ og greiði þangað rúmar 100 milljónir án þess að fá neina þjónustu. Þetta er náttúrulega málflutningur sem stenst ekki nokkra einustu skoðun og er ekki svaraverður en það sem vakti athygli í þessari kosningu var afar dræm kosningaþátttaka. Um 21.000 félagsmenn voru á kjörskrá og einungis 733 greiddu atkvæði með tillögunni en 292 greiddu gegn úrsögn og 26 tóku ekki afstöðu. Heildarfjöldinn sem kaus var 1.051 sem þýðir að einungis 3,5% félagsmanna Eflingar kaus um úrsögn af heildarfélagafjölda sem er umhugsunarefni. Rétt er líka að geta þess að það vantaði einungis 34 atkvæði upp á að tillagan yrði felld sökum þess að það þarf 2/3 greiddra atkvæða til að svona veigamiklar ákvarðanir fari í gegn. 

Þetta mun ekki hafa mikil áhrif á Starfsgreinasamband Íslands sem verður ennþá stærsta landssambandið innan ASÍ. Það eina sem sambandið þarf að gera er að búa til nýja fjárhagsáætlun og halda áfram að vinna að þeim góðu og sterku málefnum sem sambandið vinnur að á degi hverjum en í SGS eru 44.000 félagsmenn og er sambandið eins og áður sagði stærsta landssambandið innan ASÍ þrátt fyrir úrsögn Eflingar. Þetta hefur ekki mikil áhrif eins og áður sagði vegna þess að Efling hefur tekið afskaplega takmarkaðan þátt í starfi sambandssins.

12
May

Ný forysta hjá ASÍ

45. framhaldsþing Alþýðusambands Íslands var haldið dagana 27. og 28. apríl á Grand Hóteli í Reykjavík. Á þessu þingi var mótuð stefna sambandsins varðandi hin ýmsu hagsmunamál félagsmanna ASÍ og einnig var kosinn forseti og í miðstjórn. Forseti var kosinn Finnbjörn Hermannsson en hann hefur lengi verið í hreyfingunni, meðal annars formaður Byggiðnar. Formaður VLFA var kosinn í miðstjórn fyrir hönd Starfsgreinasambandsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image